Að prjóna loftbólur eða sjømannsbobler

emelineskjort-navia-duo-2m

Ég rakst á mjög skemmtilega norska síðu síðast liðinn vetur en þar bloggar Vivian Tran um ýmislegt áhugavert. Hún hannar og prjónar mjög fallegar barnaflíkur og gefur uppskriftir af mörgum þeirra á síðunni. Ég er með nokkrar þeirra á lista hjá mér og lét verða af því að prjóna pilsið Emelineskjørt á ömmugullin mín Aþenu og Maíu í síðustu viku.

Pilsin eru prjónuð með einfaldri en skemmtilegri aðferð sem heitir á norsku sjømannsbobler – ég velti lengi fyrir mér hvort það væri til íslenskt heiti á þetta munstur en fann ekki svo ég kalla þetta loftbólur þar til einhver bendir mér á annað heiti.

Ég valdi mér garnið Navia Duo og eru pilsin létt og hlý fyrir gullin mín að nota í vetur á leikskólann. Aftur á móti er ég meira fyrir að hafa teygju í mittið á börnum og nota svona snúrur frekar sem skraut. Ég breytti því aðeins út af uppskriftinni og gerði tvöfaldan kant til að geta þrætt teygju í og setti svo kant neðan á pilsin í staðinn fyrir stroff bara til að hafa smá samræmi þarna á milli.

Ég fékk leyfi til að þýða uppskriftina yfir á íslensku og hér kemur hún.

emelineskjort-vivian-tran

Emelineskjørt

Stærðir: 1-2 (3-6) 7-10 ára
Prjónar: Hringprjónn 40-60 sm, nr 3 og 3,5
Garn: Ég notaði NAVIA DUO og Drops Merino Extra Fine kemur líka vel út
Supewash frá Europris ljósdrapp 50 (50) 100 og bleikt 50 (100) 150 gr
Prjónfesta: 22 lykkjur á prjóna nr 3,5 = 10 sm

Fitjið upp 105 (118) 131 lykkjur með ljósdrapp á prjóna nr 3, setjið prjónamerki og tengið í hring. Prjónið stroff (1 slétt, 1 brugðin) 2 (2,5) 3 sm, prjónið nú göt fyrir snúruna þannig: prjónið *8 lykkjur slétt, 2 lykkjur slétt saman, sláið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina. Prjónið síðan áfram stroff (1 slétt, 1 brugðin) þar til stykkið mælist um 4 (5) 6 sm.

Skiptið yfir á hringprjón nr 3,5 og slétt prjón en jafnið lykkjufjölda í fyrstu umferð í 116 (132) 148 lykkjur jafnt yfir umferðina.

*Prjónið nú með bleiku 4 umferðir slétt og nú er komið að loftbólum.
Skiptið yfir í ljósdrapp og prjónið þannig: *látið 1. lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp.

Prjónið 4 umferðir slétt með bleiku.
Prjónið með ljósdrapp þannig: 2 lykkjur slétt *látið næstu lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina og endið á 1 lykkja slétt.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp*

Endurtakið frá *-*  sem myndar loftbólumunstrið þar til stykkið mælist 20 (25) 30 sm eða sú lengd sem passar. Skiptið yfir á hringprjón nr 3 og prjónið storff (1 slétt, 1 brugðin) um 2 sm. Fellið af allar lykkjur.

Prjónið snúru til að þræða í mittið eða setjið borða.  HÉR og HÉR eru linkar á videró sem sýna hvernig á að prjóna loftbólur (sjømannsbobler).

Það kom sér aldeilis vel að eiga snúruvél frá PRYM ég var í 10 mínútur að gera i-cord snúru um 70 sm langa.

Eins og áður sagði gerði ég tvöfaldan kant þannig: fitjaði upp 118 lykkjur og prjónaði slétt prjón fram og til baka 5 sm, prjónaði 1 umferð brugðið, setti prjónamerki og tengdi í hring. Prjónaði slétt prjón 2,5 sm og gerði þá gataröðina eins og kemur fram í uppskriftinni og síðan slétt prjón aftur þar til komnir voru 5 sm. Nú prjónaði ég 1 umferð slétt en braut um leið kantinn inn og prjónaði með (má einnig sama hann niður eftir á).

taka-upp-lykkjur-a-steng           taka-upp-lykkjur-a-steng2

Hérna er ég búin að þræða lykkjur á aukaprjón, síðan prjóna ég 1 lykkju af hringprjón og 1 lykkju af                        aukaprjóni slétt saman

Ég prjónaði síðan 1 umferð þar sem ég jafnaði lykkjufjölda í 132 lykkjur og prjónaði pilsið að öðru leiti eins og uppskriftin segir til um en endaði á því að prjóna með ljósdrapp 2 sm slétt, 1 gataröð þannig: *2 slétt saman, sláið bandið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina, síðan tæpa 2 sm slétt og fellið af allar lykkjur. Brjótið faldinn inn og saumið niður.

Hnappagatateygja er mjög sniðug þar sem þá er ekkert mál að herða eða slaka á teygjunni. Þú getur keypt teygju HÉRNA

emelineskjort-vivian-tran-talam
Ég fór með 1 dokku af hvorum lit í hvort pils eða aðeins 1.260 kr og stelpurnar mjög ánægðar með þau.

Svo fyrst ég var farin að prjóna loftbólur þá ákvað ég að skella í endurskinshúfur á stelpurnar einnig. Uppskriftin fæst HÉRNA með keyptu garni.

endurskinshufur-boblur3m

Prjónakveðja

  • Guðrún María