Eitt leiðir af öðru

Um daginn var ég að lesa færslu a blogginu hennar Lucy Attic24 um litasamsetningar út frá því viltist ég inn á aðra færslu hjá henni (sem ég finn ekki aftur) þar sem hún hafði raðað saman litum út frá náttúrunni.

Í kjölfarið fór ég að pæla mikið í litasamsetningum náttúrunnar og horfa í kringum mig eftir innblæstri. Upp á síðkastið hefur verið svo ljómandi gott veður og það er einhvern veginn allt fallegra þegar það er sól. Og í göngutúrum með börnunum hef ég myndað alla þá liti sem grípa augað.

Ég er með ponsu blæti fyrir bómullargarni og á því smávegis (lesist slatta) af bómullargarni í skúffunum hjá mér. Mér finnst ég samt aldrei eiga nógu marga liti og við vorum að kaupa nýtt bómullargarn í búðina svoooo ég bara varð að bæta nokkrum litum við. Svona er þetta bara…sumir kaupa föt, sumir kaupa tónlist, ég kaupi garn c“,)

IMG_20150706_230508

Mitt í þessum pælingum mínum um garn og liti fékk ég FB skilaboð frá Sofiu frænku minni þar sem hún spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki sorglegt með Wink eða Marinke. Ég kveikti ekki á perunni hver þetta væri svo frænka mín sendi mér slóð á bloggið hennar Marinke – A Creative Being. Þegar ég fór að skoða bloggið hennar sá ég að þótt ég þekkti ekki nafnið hennar þá þekkti ég strax myndirnar af heklinu hennar. Finnst það soldið magnað hvernig mar þekkir heklara oft ekki í sjón en mar þekkir stílinn þeirra.

Þegar þú kemur inn á bloggið hennar Marinke þá blasir við færsla sem systir hennar skrifar þar sem hún lætur lesendur bloggsins og aðdáendur Marinke vita að hún sé látin. Marinke tók sitt eigið líf. Þrátt fyrir að þekkja þessa stelpu ekki neitt þá helltist yfir mig gífurleg sorg og ég hef hugsað mikið til hennar síðustu vikur. Ég veit samt að ástæða þess að ég tek þetta svona mikið inn á mig er að ég missti sjálf vin fyrir nokkrum mánuðum. Hann var ungur og hæfileikaríkur og hann tók sitt eigið líf líkt og Marinke.

Það er svo mikið sem hefur farið í gegnum huga minn síðan ég las um sjálfsvíg Marinke. Eitt sem mér finnst svo dásamlegt og dýrlegt er hversu opin Marinke var með andleg veikindi sín. Hún skrifaði reglulega um erfiðleika sína á blogginu sínu – algerlega án skammar – og fær ekkert nema stuðning, kærleika og hvatningu frá lesendum sínum. Þegar hún fellur frá skrifar systir hennar inn og færslu og segir frá sjálfsvígi hennar – algerlega án skammar – og það sama gerist, lesendur bloggsins sýna samhug, sorg, kærleika.

Í kjölfarið fór af stað einstök keðjuverkun. Heklarar um allan heim vottuðu Marinke virðingu sína með því að hekla Mandölur og pósta á samfélagsmiðlum með tögunum #MandalasForMarinke og #MandalasForWink. Marinke var sjálf mikið fyrir að hekla Mandölur og er hægt að nálgast uppskriftir frá henni á blogginu hennar.

Hvað er Mandala? Orðabókin segir: „man-da-la n. (í austrænni heimspeki) táknmynd, oftast áttstrent mynstur innritað í hring, sem stendur fyrir alheiminn sem heild“.

mandalas-for-marinke-600x362

wink

Ég hafði séð Spoke Mandöluna hennar Marinke fyrir löngu síðan og lengi langað til að prufa. Og fannst kjörið tækifæri að nýta náttúrumyndirnar sem ég hafði verið að taka sem innblástur í litavali. Það eru 9 umferðir í þessari mandölu svo ég raðaði saman nokkrum litasamsetningum þar sem voru 9 litir.

Útkoman er svo þessi. Þrjár Spoke Mandalas. Ég er að hugsa um að hengja þær upp heima hjá mér. Mér finnst þær fallegar og þær eru mér áminning um að lífið er ekki sjálfsagt og hversu mikilvægt er að vera þakklát fyrir fólkið mitt.

IMG_20150715_204424

IMG_20150716_015525 IMG_20150716_015922 IMG_20150716_020029

Það er oft áhugavert að skoða ferilinn að verkefnum. Sum verkefni verða til vegna margra ólíkra atburða sem tengjast saman á einhvern hátt og þörfin fyrir að skapa myndast. Önnur verkefni verða til afþví bara.

PhotoGrid_1436385228633

Takk fyrir að innlitið á bloggið og lesturinn.
Heklkveðjur Elín

Skildu eftir svar