Ljósgráu vetrarpeysurnar sem breyttu um lit

Þegar ég fór að huga að vetrarpeysum á ömmugullin fékk ég þá hugmynd að þau myndu öll vera í peysum sem væru ljósgráar í aðallit og svo myndu þau velja sér sinn munsturlitinn hvert en ég hafði þegar peysur í huga sem yrðu prjónaðar.

Ég lagði upp með ljósgrátt Navia Trio og tók nokkra liti með mér heim til að leyfa Aþenu, Móra og Maíu að velja sinn munsturlit á peysuna sína. Það er skemmst frá því að segja að þau voru nú ekki lengi að henda ljósgráa litnum hennar ömmu út og velja sjálf tvo liti fyrir sína peysu. Það er mjög gaman að því hvað börn eru ákveðin í litavali og vita alveg hvað þeim þykir fallegt.

Peysurnar á Aþenu og Maíu eru eftir sömu uppskrift sem fæst á Ravelry.com og heitir Bohéme Sweater for kids eftir Randi Hjelm Debes. Stílhrein og falleg peysa.


Aþena valdi fjólublátt og hvítt


Maía valdi fjólublátt og bleikt

Peysan hans Móra er heitir Truls úr bókinni Kærlighed på pinde eftir Lene Holme Samsøe


Móri valdi karrýgult og dökkgrátt

Hálsmálið á peysunum:
Ullargarn stingur suma og er að nú kannski einna helst í hálsmáli og þar sem hún snertir hörundið beint. Til þess að forðast það að peysurnar væru að pirra þau eða valda kláða í hálsmálinu prjónaði ég tvöfalt hálsmál á peysurnar. Ég prjónaði fyrst með Navia Trio um ½ sm styttra en uppgefið hálsmál uppskriftar segir til um og síðan með Drops Karisma eða Drops Merino Extra Fine þar til réttri lengd er náð. Síðan prjóna ég áfram þá lengd sem dugir til að bretta inn og hafa hálsmálið tvöfalt. Þannig er mjúkt garn við háls barnanna og  ég veit að engin hætta er á að þau fari að kvarta undan því að peysan stingi 🙂

Sokkar á þau eru líka tilbúnir og notaði ég 4-þráða sokkagarn frá Regia eftir þá Arne & Carlos og Kaffe FassettGarnið er til í mörgum fallegum litum og fleiri grófleikum.

Móra sokkar prjónaðir úr Regia Pairfect. Skóstærð 31 og fékk ég 2 pör úr 1 dokku. Uppskrift fylgir með kaupum á garni.

Aþenu sokkar prjónaðir úr Kaffe FassettSkóstærð 29 og það fóru 50 gr í sokkana. Uppskrift fylgir með kaupum á garni.

Maíu sokkar prjónaðir úr Arne & Carlos garniSkóstærð 28 og það fóru 47 gr í sokkana. Uppskrift fylgir með kaupum á garni.

Við skelltum okkur í myndatöku í góða veðrinu í dag og þegar vetur konungur heilsar okkur eru þau klár með fallegar peysur og hlýja sokka á leikskólann og í skólann.

Prjónakveðja,
Guðrún María