Síðbúinn hannyrðaannáll 2014

Þegar ég byrjaði að blogga 2010 undir nafninu Handóð var ég afskaplega dugleg að blogga. Ég bloggaði stundum daglega. Og stundum oft á dag. Nú rúmum 4 árum seinna – nær 5 árum i raun – blogga ég alltof sjaldan. Eða mér finnst það alla vega. Ég hef voða gaman af því að tala um hekl og handavinnu og sýna það sem ég er að vesenast. En það að blogga er merkilega tímafrekt.

Lífið hefur breyst svo mikið síðan 2011. Þá var ég að vinna frá 8-16, kom heim til einkasonarins sem var 10 ára gamall og sjálfstæður. Við mæðgin höfðum það oftar en ekki kósý saman á kvöldin yfir sjónvarpinu og ég hafði nægan frítíma til að hekla og blogga. Ég átti meir að segja heilagan-hekl-tíma. Eftir vinnu kom ég heim, horfði á Dr. Phil og heklaði áður en ég fór að sinna heimilisstörfum. Bloggaði meir að segja um það.

Í dag er lífið allt öðrvísi. Einkasonurinn er ekkert einkabarn lengur, hann er tæplega 14 ára sjálfstæður unglingur. Í hópinn hafa bæst við tvö afkvæmi, Móri 3 ára og Maía 1 árs, og eitt stykki eiginmaður. Vinnan hefur breyst og er ekki lengur afmörkuð við 8-16. Fyrirtækið Handverkskúnst færir manni alls konar spennandi verkefni tengd handavinnu og svo er ég í háskóla líka. Heilagi-hekl-tíminn er orðinn eftir-leikskóla-chill. Á kvöldin eftir að börnin fara að sofa fer orkan í að læra eða að slappa af fyrir framan sjónvarpið með handavinnu. Það er mikið að gera, en það er afskaplega gaman af þessu.

Ég sakna þess að blogga. Finnst svo gaman að líta yfir gömul blogg og sjá hvað ég var að gera. Þetta er svona eins og eins konar hannyrðadagbók. Ég hef sett mér það markmið að vera duglegri að blogga árið 2015. Ætla að reyna að blogga amk á 2ja vikna fresti. Só far er ég ekki alveg á áætlun. En hey þannig er það bara.

Markmið ársins 2014 var að vera duglegri að klára það sem ég byrja á og hekla meira eftir uppskriftum frá öðrum. Það gekk barasta vel. Ég get ekki sagt að ég hafi klárað allt sem ég byrjaði á – en það gekk betur. Síðustu ár hef ég verið vön að gera samantekt á því sem ég hef gert yfir árið. Þar sem ég var svo óskipulögð í að taka saman hannyrðirnar á síðasta ári verður annállinn í formi mynda. Sumar myndirnar rötuðu á bloggið aðrar ekki.

Þar til næst.
Hekl-kveðjur Elín

Skildu eftir svar