Teppið hennar Emilíu Mist

Ég hef gert aragrúa af barnateppum og flest þeirra strákateppi. Því verð ég alltaf sérstaklega spennt þegar ég fæ að gera stelputeppi.

Í haust kom í ljós að litlasta systir mín væri ólétt og fór hausinn á mér á fullt að hugsa um allt sem ég gæti og ætlaði að hekla handa litla barninu. Húfur, vettlinga, sokka, skó, peysur, auðvitað teppi – og já bara heilan helling! Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að hekla handa litlum börnum ekki satt.

Þegar leið á meðgönguna kom í ljós að það var ekki allt eins og það ætti að vera. Og litla barnið var mjög veikt. Við héldum lengi í vonina að allt myndi vera í lagi…en þegar tíminn leið þá kom það betur í ljós að það var því miður alls ekki í lagi.

Því fæddist litlasta frænka mín andvana langt fyrir sinn tíma.

Emilía Mist
f. 17. desember 2010
Hún var svo pinku ponsu lítil, bara 24 cm og 1 mörk, en hún var samt svo sæt.
Alveg ótrúlega smá en samt alveg tilbúin og ótrúlega fullkomin.


Hún fékk samt sem áður teppið sitt – það bara mjög sætt þótt ég segi sjálf frá – og fékk teppið að fara með henni í kistuna þegar hún var jörðuð í dag.

Skildu eftir svar