Af hverju endurskinsgarn?

Í dag eru 2 ár síðan elsta barnabarnið mitt lagði af stað í myrkrinu á leið í skólann. Hann stoppaði við gangbrautarljós og beið eftir að græni karlinn birtist svo hann kæmist yfir hina umferðaþungu Miklubraut. Ekki vildi betur til en svo að strætisvagn keyrði á hann (strákurinn á grænu, strætó á rauðu ljósi)….hörmulegt slys og mikið áfall. Þetta er símtal sem enginn vill fá; Mikael varð fyrir strætó. Amma og mamma voru þennan daginn uppi á gjörgæslu þar sem hann fékk mikið höfuðhögg.

mikael slys

Hann slapp ótrúlega vel og eyddi nóttinni ásamt móður og systur á Barnaspítalanum en fór heim daginn eftir. Stokkbólgið og marið andlit og fótbrotinn.

mikael slys1

Mikael eins og margir unglingar var dökkklæddur og strætisvagnabílstjórinn sá hann ekki en keyrði yfir á rauðu ljósi.

Við erum svo heppin hér á Íslandi að við erum allmargar mæður, ömmur, frænkur, systur og jú karlpeningur líka sem kunnum að prjóna. Þegar Facebook handavinnusíður eru skoðaðar er mikið af fallegri handavinnu póstað þar okkur til ánægju og gleði. Húfur og vettlinga eru margir að prjóna nú í haust og vetur.

Litlu barnabörnin mín eru engin undantekning þar og fengu þau öll sína kaðlahúfu fyrir haustið.

Hjartakaðall6m Kaðlahúfan Matti3m Kaðlahúfan Polku Myssy3
Aþena Hjartakaðlahúfa, Móri kaðlahúfan Matti og Maía kaðlahúfan Polku Myssy

Aftur á móti þegar ég kynntist Glühwürmchen endurskinsgarninu var ekki aftur snúið. Ullarblandað garn með miklu öryggisatriði; endurskinsþráður! Þráðurinn er vafinn í garnið svo börn og fullorðnir sem bera flík úr þessu garni eru vel sýnilegir í myrkrinu.

Það er því miður oft þannig að endurskinsmerki þykir ekki „smart“ hjá sumum aldurshópum en endurskinsþráðurinn í garninu sést varla í birtu en í rökkri/myrkri skín hann skært ef að ljósi er beint að honum.

Mitt litla fólk hefur fengið húfur prjónaða úr endurskinsgarni.

Endurskinshúfur5 Endurskinshúfur7
Maía í dagsbirtu og myrkri, sjáið hvernig húfan lýsist upp þegar ljós fellur á hana í myrkri

Endurskinshúfur4 Endurskinshúfur6
Móri í dagsbirtu og myrkri, sjáið hvernig húfan lýsist upp þegar ljós fellur á hana í myrkri

Zebrafisken rave Zebrafisken rave1
Garðaprjónshúfa (mynd fengin að láni frá Zebrafisken á Ravelry) með kaðli, í dagsbirtu og myrkri

trixiebacon

Þessi húfa er prjónuð úr gulu endurskinsgarni og bleiku garni í svipuðum grófleika
(mynd fengin að láni frá trixiebacon á Ravelry)

 

hundur endursk 1 dokka

Fyrir hunda og jafnvel hálsól fyrir ketti = fyrir alla
(mynd fengið að láni frá marasp á Ravelry)

Elín dóttir mín hefur pantað legghlífar handa sér, unglingurinn vettlinga og bóndinn húfu.

Húfan Kertalogi er næst á prjónana hjá mér í jólapakka. 1 dokka af þessu garni dugar í fullorðinshúfu, á prjóna nr 6-7mm. Ég hef séð nokkrar útfærslur af húfum og koma þær vel út sem kaðlahúfur, perluprjón, garðaprjón bara hvað langar þig að prjóna?

Að sjálfsögðu færðu þetta frábæra garn færðu hjá okkur í Handverkskúnst og Gallery Spuna í Grindavík. Uppskrift af húfu eða vettlingum fylgir jafnframt með keyptu garni. 13 fallegir litir og allir ættu að finna sér lit við hæfi, smelltu hérna til að skoða litaúrvalið eða kíktu til okkar í verslunina.

Smelltu hérna til að kaupa þér endurskinsgarn eða komdu til okkar á Nýbýlaveg 32, Dalbrekkumegin.

Prjónaöryggiskveðja

  • Guðrún María