Category Archives: Útsaumur

Hekl uppgjör 2015

Þegar ég var að hugsa um að skrifa þessa færslu fannst mér ég ekki hafa komið miklu í verk þetta árið – handavinnulega séð. En eftir að hafa flett í gegnum myndir ársins sá ég að ég tók upp á ýmsu.

Kláraði löber sem átti að vera jólagjöf.

IMG_9151 copy

Mágur minn varð þrítugur og fékk þessa mynd. Myndin var samvinnuverkefni fjölskyldunnar, unglingurinn hannaði kafbátinn og við hjónin saumuðum út.

 

IMG_20150117_204205

Lítill herramaður að nafni Daníel fæddist í janúar og fékk þetta teppi að gjöf.

IMG_9142 copy IMG_9138 copy

Jóhanna amma dó í febrúar. Hún fór reglulega með þessa bæn fyrir barnabörnin og fór þessi mynd með henni í kistuna.

IMG_20150219_112923

Við Guðmunda kisa eyddum mörgum stundum saman með handavinnuna.

IMG_20150330_112700

Fór í vettvangsnám sem kennaranemi og fék að kenna 5. bekkingum að vefa.

IMG_20150311_164833

Fór til Færeyja í apríl á Prjónafestival sem var vægast sagt æðislegt. Færeyingar eru höfðingar heim að sækja, landið fallegt og ég var barnlaus í heila viku. Þvílíkur lúxus!

IMG_20150417_180333

Í Færeyjum kenndi ég frændum mínum Pauli og Tóki að graffa. Þeir voru mun spenntari fyrir þessu en ég bjóst við og skreyttu garðinn sinn með hekli.

IMG_20150418_153911

IMG_20150418_152950

Ég prjónaði og labbaði á sama tíma…og fannst ég frekar töff.

IMG_20150418_231810

Fór á vinnustofu og lærði nýtt prjón. Notaði þessa nýju færni til þess að graffa fyrir utan húsið hjá Tínu frænku og Sigurd í Fuglafirði.

Graff1

Graff2

Graff4

Heklaði samt líka i Færeyjum og hannaði þetta teppi. Garnið er færeyskt og munstrið er fengið af færeyskri peysu. Nýji eigandinn er þó íslenskur herramaður að nafni Arnór sem fæddist í maí. Liturinn var sérstaklega valinn fyrir mömmu Arnórs.

IMG_20150505_190904

IMG_20150505_191233

IMG_20150505_191444

Jurtalitaði garn með lauk. Byrjaði að prjóna vettlinga en komst aldrei lengra en þetta.

IMG_20150531_185851

Keypti garnbúð með mömmu. Það er nokkuð merkilegt.

IMG_20150822_155631

Heklaði utan um steina.

IMG_20150510_180243

Skellti í Horna á milli púða sem var skemmtilega glitrandi.

IMG_20150527_163938

Heklaði mér Kríu sjal. Löngu á eftir öllum öðrum.

IMG_20150528_110514 IMG_20150908_230119

Átti margar góðar stundir úti í góða veðrinu með hekl, kaffi og krakkana.

IMG_20150626_002814

Byrjaði að hekla púða…er næstum því búin með hann.

IMG_20150815_151826

Byrjaði á mörgum öðrum verkefnum sem ég mun liklegast aldrei klára.

IMG_20150828_102320

Heklaði þessa peysu. Finnst hún frekar flott þótt ég segi sjálf frá.

20150702_134846

Heklaði nokkrar krukkur eins og vanalega.

20150911_191334

Heklaði skvísukraga fyrir Maíu og Aþenu. Maía var ekki alveg að vinna með mér í myndatökunni.

20150621_180144 20150621_131335

 

Áttaði mig á því að ég er með bómullarblæti.

IMG_20150706_230508

Heklaði þrjár mandölur til heiðurs heklara sem tók sitt eigið líf.

IMG_20150716_015525 IMG_20150716_015922 IMG_20150716_020029

Eiginmaðurinn fann einu sinni mynd af hekluðum typpum á netinu og sagði: “Þú mátt hekla svona handa mér”. Sem ég gerði og gaf honum í brúðkaupsafmælisgjöf.

IMG_20150731_223532

Prufaði ný munstur.

IMG_20150719_233327

Tók heklið oftar en ekki með mér á kaffihús.

IMG_20151011_213314

Kláraði fánalengju sem ég byrjaði á fyrir löngu síðan.

IMG_20151010_210019

Graffaði ljósastaur fyrir utan vinnuna.

IMG_20150821_160739

Bjó til “nýtt” garn úr afgöngum og prjónaði utan um herðatré.

IMG_20151009_172055

Fór til Köben og kenndi námskeið í tvöföldu hekli. Verð að játa að ég var frekar stressuð að kenna í fyrsta sinn á öðru tungumáli en íslensku. Að sjálfsögðu voru dönsku heklararnir ekkert nema almennilegir og námskeiðið gekk vonum framar.

IMG_20150926_163130 IMG_20150927_112400 IMG_20150927_115852 IMG_20150927_115725

Heklið var tekið með trompi í Köben. Meir að segja mamma lagði prjónana til hliðar og heklaði eins og vindurinn.

IMG_20150926_222242

Heklaði fyrsta teppið mitt með tvöföldu hekli. Var búin að steingleyma því. Á algerlega eftir að mynda það og monta mig.

IMG_20150923_174245

Byrjaði að hekla Vírussjalið sem tröllreið öllu. Var hálfnuð þegar ég rakti allt upp vegna villu. Mér til varnar þá var þetta frekar stór villa.

IMG_20151019_155524

Fyrir vikið var seinni útgáfa sjalsins einstaklega vel heppnuð.

IMG_20151029_122229

Heklaði sokkaleista sem eru víst meira tátiljur.

IMG_20151015_140642

Notaði mömmu sem fóta módel. Það fór henni bara vel.

IMG_20151015_140109

Heklaði þennan fína hálskraga úr Navia ullinni. Guli liturinn var í uppáhaldi hjá mér þetta árið.

20151018_164450

Byrjaði á OG kláraði teppið Hjartagull. Það er án efa eitt af því fallegasta sem eg hef heklað.

IMG_20150802_204521

IMG_20150830_174919

Heklaði vettlinga. Ekki bara eitt par heldur tvö.

IMG_20150903_142958 IMG_20150908_202209 IMG_20150908_202128

Jólaskraut er eitt af því sem ég elska að hekla. Byrjaði alltof seint að hekla fyrir jólin. Hefði þurft að byrja í september til að komast yfir allt sem mig langaði til að hekla. En það koma jól eftir þessi jól.

IMG_20151109_120619

Þessi stóra bjalla lifði ekki lengi. En það sullaðist yfir hana kaffi. Ég þarf að fara að læra að geyma kaffið mitt lengra frá kaffinu.

IMG_20151112_142203

Uppáhaldsverkefni ársins eru jólakúlurnar mínar. Þær eru alla vegana uppáhalds núna. Mér finnst þær fullkomnar og þær eru svo dásamlega fallegar á jólatrénu mínu.

IMG_20151228_103941 IMG_20151228_104001 IMG_20151228_104037 IMG_20151228_104049 IMG_20151228_104019

 

Nýja árið leggst vel í mig. Vona að það sama eigi við um þig.
Óska öllum gæfu, gleði og sköpunar á nýja árinu sem er að ganga í garð. Takk fyrir það gamla.

Elín

Ferðasaga hannyrðanörds

Ég fór í ferðalag um helgina sem gerist alltof sjaldan. Við hjónin skelltum börnunum upp í bíl og keyrðum austur fyrir fjall. Áfangastaðurinn var heilsárshús fjölskyldu vinar okkar, en umræddur vinur beið okkar þar. Amman og afinn byggðu húsið fyrir mörgum mörgum árum og ólu öll sín börn þar upp. Á meðan heimsókn okkar stóð sagði vinurinn okkur sögur af ömmu sinni og heimsóknum hans sem lítill strákur í sveitina til ömmu og afa. Afinn lést fyrir þónokkrum árum en amman lést í fyrra þá 88 ára gömul.

En hvað kemur þetta svo hannyrðum við? Jú amman var mögnuð hannyrðakona. Ég snérist í hringi yfir öllu þarna inni. Amman var húsmæðraskólagengin og hafði greinilega nýtt þá menntun sem hún fékk þar alla ævi. Á árum áður var það ekki eintómt fjör eða föndur að sinna hannyrðum, það snérist ekki allt um að hanna. Það var hreinlega nauðsyn. En amman tók hvoru tveggja með trompi – nauðsyn og sköpun.

Fyrsta sem ég rauk augun í voru svanirnir. Þeir voru frekar skemmtilegir.

20150809_170305 20150809_170318

Í fyrstu taldi ég að þetta veggteppi væri Glitsaumur. En eftir að hafa borið þetta undir sérfræðingana í FB hópnum Útsaumur/Krosssaumur var niðurstaðan að þetta væri Glitvefnaður. Sem sé glitsaumur ofinn í vefstól.

20150808_104109

Fann einnig þennan dúk með Augnsaumi. Mér finnst augnsaumur svo merkilegur því hann er alveg eins beggja megin. En þessi mynd sýnir einmitt réttuna og rönguna. Ég er svo veik fyrir íslenskum útsaum svo mér fannst þetta geggjað.

20150809_161636

Þessi lampi var inni í stofu. Amman hafði hnýtt skerminn. Birtan frá honum var ótrúlega skemmtileg.

IMG_20150809_013814

Ég hef oft verið að hugsa um hvað það væri gaman að hekla utan um glasamottur en aldrei fundið hentugar glasamottur til að hekla utan um. Amman var greinilega langt á undan mér, en hún hefur heklað þessar glasamottur fyrir mörgum árum.

20150809_170443

Ég fann heilan kassa af rúmfötum – með sögu – eins og kassinn var merktur. Rúmfötin voru dásamleg. Það var búið að setja í þau milliverk, dúllur og blúndur. Heklið svo fíngert að ég varð að rýna í það til að sjá hvort þetta væri ekki örugglega handgert en ekki búðarkeypt.

20150808_153007

20150808_153115

IMG_20150808_153506

Eftir því sem mér skilst voru amman og afinn með vinnuaðstöðu í kjallaranum. Afinn vann með tré og amman með ull. Kjallarinn er fullur af dýrgripum og mig hreinlega verkjaði mig langaði svo að taka margt af þessu með mér heim. Í kjallaranum voru vefstólar, rokkar, garnvindur, prjónavél, kambar, spunavélar, garn og ULL! Helling af ull.

20150809_162134

Rokkarnir. Tveir gamlir íslenskir og einn nýrri sem er af gerðinni Louet var mér sagt af öðrum hannyrðanörd.

20150809_161928

Vél sem kallast á ensku Lazy Kate og er “nútímagræja” til að spinna garn.

20150809_161510

Þetta borð er með fótstigi og einhverri vél og er að ég held nýtt til þess að spinna ull. En ég hef aldrei séð svona áður og hef því í raun enga hugmynd um hvað þetta er.

20150809_161458

Ýmsar hannyrðir. Útsaumur og vefnaður.

20150808_135007

20150809_162125

Í þessum kössum er ull og ekkert nema ULL. Í stóra brúna kassanum og hvítu fötunni er angóruull. Amman ræktaði kanínur og vann af þeim ullina, barnabörnin nutu svo góðs af að fá prjónaðar flíkur sem voru dásamlega mjúkar.

20150809_161056

Amman var í því að jurtalita ull. Ég þykist viss um að þessi ull sé lituð af henni.

20150809_160939

Í kjallaranum var að finna helling af ull. Ég var ekki klár á því hvað var spunnið af ömmunni og hvað ekki. En ég fann eitthvað af garni sem ég er viss um að sé litað og spunnið af ömmunni.

20150809_161340

20150809_161427

20150809_161441

Ég fann nokkrar stílabækur meðal prjónablaðanna. Amman hafði greinilega skrifað hjá sér minnispunkta um verkefnin sem hún gerði. Fannst þetta afskaplega dýrmætt.

IMG_20150809_155853

Ég eyddi nú ekki allri helginni í kjallaranum að snúast í hringi um ull. Ég átti góðar stundir með fjölskyldunni og vinum. Við Maía Sigrún tókum nokkra góða göngutúra á nærliggjandi sveitabæ að skoða kýrnar, hænurnar og hestana.

20150808_173024

Maía tók sig vel út í sveitinni í vaðstígvélum og færeysku peysunni sem amma hennar prjónaði á hana.
Það er sko gott að eiga góða ömmu!

Nördakveðjur
Elín

Jólin nálgast

Það eru að koma jól, ertu byrjuð/byrjaður að föndra fyrir jólin?

Jólasokkur hnífapör hvítmerkt og mHnífapörin taka sig vel út – frí uppskrift

Við mæðgur höfum mjög gaman af því að prjóna og hekla fíngerða hluti. Nú þegar jólin nálgast förum við að hugsa um hluti til að prjóna eða hekla hluti til skreytinga. Þegar ég legg á borð á aðfangadag þykir mér svo skemmtilegt að draga fram eitthvað sem ég nota bara um jólin. Nú í ár ætla ég að skreyta borðið með sokkum utan um hnífapörin.

Þessir sokkar eru ekki mín hugmynd en ég sá þessa mynd á netinu í fyrra og útbjó mína uppskrift af þeim og þykir þeir ansi krúttlegir og hlakka til að sjá þá á dekkuðu jólaborðinu. Servéttuhringir sem móðir mín gaf mér fyrir mörgum árum hafa verið mikið notaðir, þeir verða ekki gleymdir en fá hvíld nú um jólin. Þessir eru heklaðir af konu sem bjó í sama húsi og móðir mín, því miður veit ég ekki nafn hennar.

heklaður servéttuhringur merktur minnkaður

Árið 2012 hannaði ég þessar prjónuðu bjöllur á ljósaseríur. Þar sem ég er lítill heklari en hafði ég lengi horft á allar bjöllurnar sem voru heklaðar um allt og langaði líka í mína seríu. Flottar bjöllur og fallegar á ljósaseríu.

Bjöllur allar merkt minnkudUppskriftin af 4 prjónuðum bjöllum kostar kr 900 og þú getur keypt hana hérna

hekluð sería frá EKG merkt

Hún Elín er með svo margar útgáfur af bjöllum. Smelltu hér til að skoða úrvalið hennar.

Prjónað utan um jólakúlur var verkefni fyrir jólin 2013. Fíngert prjón höfðar mikið til mín og þessar kúlur eru prjónaðar á prjóna nr 2-2½ úr heklgarni nr 10. Þær taka sig vel út á jólatré, sem pakkaskraut, saman í skál eða hvar sem hugarflugið leiðir þær.

prjónadar allar merktAllar 3 tegundir saman komnar, uppskrift fæst hér

jólakúla á tre merktJólakúlan tekur sig vel út á jólatré

Heklaðar jólakúlur voru líka hannaðar af Elínu og gaman að blanda saman hekluðum og prjónuðum jólakúlum.

Heklaðar saman merkt minkud

Jólin eru skemmtilegur tími og það er virkilega gaman af því að hanna fyrir jólin. Ég á 4 dætur og hún Guðmunda mín hannar mikið smáhluti sem hún saumar. Flott handverk hjá henni og gaman að skreyta jólapakka með munum frá henni.

Gudrunardaetur merktKíktu á Facebook síðu hennar og skoðaðu úrvalið.

Við verðum með jólanámskeið þar sem bæði prjónað og heklað verður fyrir jólin:
Akureyri
Grindavík
Reykjavík

Skoðaðu uppskriftirnar okkar:
– Jólasokkur – frí uppskrift (.pdf)
Fríar prjónauppskriftir
Fríar hekluppskriftir
Seldar prjónauppskriftir
Seldar hekluppskriftir

Góða helgi til allra

– Prjónakveðja, Guðrún María

Tags: , , , , , ,

Handavinna & Endurvinnsla

Þar sem ég hef verið að kynna mér endurvinnslu betur síðast liðna mánuði og er farin að endurvinna meira heima þá fannst mér tilvalið að vinna verkefni í skólanum út frá endurvinnslu hugtakinu þegar það stóð til boða. Sjálfbærni, endurnýting og endurvinnsla spila stór hlutverk í nýrri aðalnámskrá í öllum fögum grunnskólans, líka Textílmennt. Eftir að ég byrjaði í námi hef ég komist að því að textíliðnaðurinn er svakalega mengandi, en ég hafði ekki hugmynd um það áður fyrr.

Þessar myndir eru af prufum sem ég gerði fyrir verkefnið. Hugsunin var að fá börn (og fullorðna) til þess að sjá notagildi úr verðlausum hlutum sem færu venjulega i ruslið. Hugsa út fyrir kassann og skapa eitthvað óvenjulegt. Þetta eru alls ekki flókin textílverk en duga til að æfa einföldustu handtökin í nokkrum textílþáttum og fingrafimi.

Ef þú setur músabendilinn yfir myndirnar sérðu hvaða efniviður var notaður.
Einnig er hægt að smella á myndirnar til þess að skoða þær stærri.

Handavinnukveðjur
Elín

Tags: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

Útsaumur er fyrir alla

Útsaumur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Í fyrra var ég í útsaumsáfanga í skólanum og skemmti mér konunglega. Gleði mín smitaðist til annarra heimilismanna og tóku maðurinn minn og sonur upp java og fóru að sauma krosssaum. Þessi verk voru saumuð af fjölskyldunni í vetur.

Mikael (12 ára)

Mikael teiknaði upp sín eigin mynstur. Annað er broskall og hitt er tölvuleikjafígúra sem heitir MegaMan. Mikael skortir ekki ímyndunaraflið né sköpunarhæfileika. Það vantar bara örlítið upp á þolinmæðina hjá honum svo hann hefur ekki enn fullklárað útsaumsverkefni ennþá.

20140326_103602MegaMan

20140326_103615Broskall

Gissur (31 árs)

059

Gissur minn fylgist samviskusamlega með því handverki sem ég vinn að og sýnir áhuga eftir bestu getu. Hann þekkir muninn á hekli og prjóni og hefur ágætis auga fyrir litasamsetningum. Gissur hefur séð myndir af krosssaumi hjá mér sem kallast Subversive Cross Stitch og fílaði í botn. Hann ákvað að teikna upp sínar eigin myndir og byrjaði sauma út. Hann skemmti sér svo vel við saumaskapinn að hann sat alveg stjarfur yfir því allt til enda…og byrjaði þá strax á nýju.

060Jón Þór húðflúrari fékk þessa mynd.
Textinn er víst úr Marilyn Manson lagi.

108Glódís vinkona Gissurar sem elskar Ozzy Osbourne
fékk þessa mynd.

Elín (31 árs)

Þegar Maía mín fæddist saumaði ég út mynd fyrir hana sem situr á hillu yfir skiptiborðinu hennar. Mig langaði að hafa myndina á íslensku en textinn kom bara ekki alveg nógu vel út þannig. Welcome tiny overlord gæti verið þýtt sem Velkominn liti yfirráður. Fyrirmyndina sá ég á netinu, textinn er eins og ég breytti borðanum um textann.

047

20140325_102313

Á þessari önn hef ég verið að vinna verkefni um íslenskan útsaum. Þessar prufur gerði ég út frá því. Tetris hjartað er saumað út með gamla krosssaumnum eða fléttusaum og nafnið Móri er saumað út með Glitsaum.

Eins gaman og ég hef af því að sauma út þá finnst mér enn meira gaman að hafa fengið stóru strákana mína með mér í saumaskapinn. Að lokum skelli ég inn mynd af honum Gissuri mínum að sauma út með Maíu sofandi á bringunni.

mægiss

Handavinnukveðjur Elín c”,)

Tags: , , , , , ,

Heimsókn í Boðann, félagsmiðstöð aldraðra

Ég var beðin um að koma og halda námskeið í félagsmiðstöðinni Boðinn sem er til húsa í Hrafnistu Kópavogi fyrir stuttu. Þar sem ekki var vitað hversu margir ætluðu að koma lagði ég til að ég kæmi í heimsókn og kynnti tvöfalda prjónið, sýndi nokkrar flíkur og sjá svo í framhaldi af því hversu margir hefðu áhuga á að læra þessa prjónatækni.

Konurnar voru virkilega áhugasamar og mætti ég í gær með fyrsta námskeiðið. Það var einstaklega gaman að hitta svona reyndar prjónakonur og gaman að spjalla við þær. Þær rúlluðu upp prufunni sem sett var fyrir og verður gaman að sjá hvað þær koma til með að prjóna í framhaldinu.

japanskur1

Áður en námskeiðið byrjaði sá ég 3 konur sem sátu og voru að sauma út með tækni sem ég hef aldrei séð áður. Þær kölluðu þetta japanskan pennasaum og var þetta annar veturinn sem þær voru í félagsmiðstöðinni með leiðbeinanda sér til aðstoðar að sauma þessar myndir. Þetta voru svakalega fallegar myndir hjá þeim og mjög áhugaverð tækni. Saumurinn líkist gamla íslenska flatsaumnum og garnið sem er teygjanlegt er þrætt í nál sem svipar til penna og er stungið er í gegnum léreftið og útkoman einstaklega skemmtileg. Ég sá að þarna var komið eitthvað sem mér gæti þótt gaman að læra. Ég fann hérna á netinu eina síðu með myndum af verkum ef þið viljið skoða fleiri myndir.

japanskur

Svo þegar ég var að fara rakst ég á fallegt handverk sem búið var að ramma inn og er þetta virkilega góð hugmynd og að mínu mati einstaklega fallegt að hengja upp 🙂 Ég mátti til með að mynda og sýna ykkur.

hrafnista kop3

 Þessi dúkur var einstaklega fíngerður og nýtur sín vel í rammanum

hrafnista kop4

Tveir litlir saman

hrafnista kop2

Annað fallegt stykki

hrafnista kop

Skemmtileg uppsetning að hafa tvo litla saman í ramma

hrafnista kop1

Algjört augnakonfekt þessi kragi

Kveð ykkur að sinni og vona að þið hafið gaman af því að skoða þetta handverk sem skreytir húsakynni Hrafnistu í Kópavogi 🙂

– Guðrún María

Heklaður dúkur

Ég heklaði þennan dúk í jólagjöf handa sænsku fósturforeldrum mannsins míns, en þau heimsóttu okkur yfir áramótin.

017

Uppskrift: Fann ég hér á Pinterest.
Garn: Heklgarn úr Litlu Prjónabúðinni
Nál: 1,75 mm

019

Þegar ég sá heklgarnið í Litlu Prjónabúðinni og litaúrvalið þá langaði mig til þess að kaupa dokku af hverjum lit.
Ég náði að hemja mig og varð þessi fallegi fjólublái litur fyrir valinu.

Mamma hló að mér og sagði að venjulega er verkefnið valið fyrst
en ég vel mér fyrst garn og finn svo út hvað ég get gert úr því.

185

Þegar ég var að hekla dúk í fyrsta sinn fór það alveg afskaplega í taugarnar
á mér að hann skildi vera svona krumpaður.
Ég hélt að jafnvel væri ég að gera eitthvað vitlaust.
En það er partur af programmet að strekkja og forma heklaða dúka.

186

Því langaði mig til að skella með myndum af því hvernig dúkurinn leit út fyrir…

187

…og á meðan hann var í mótun.
Til þess að móta hann notaði ég einfaldlega vatn og lét hann þorna.
Þannig heldur hann lögun sinni og er mjúkur.

022

Við hjónin saumuðum einnig út þessa mynd handa Svíunum.
Maðurinn minn komst að því fyrir jólin að hann hefði gaman af því að sauma út og er þetta þriðja myndin hans.
Hann saumaði út stafina en ég saumaði út borðana.

024

Þetta er sænska og myndi þýðast á íslensku: Þar sem rassinn hvílir þar er heimilið.
En sú setning er í uppáhaldi hjá mér.

Ef þig langar að sauma út þinn eigin texta þá mæli ég með þessari síðu Stitch Point.

Það verður svo að fylgja sögunni að Svíarnir voru hæstánægð með gjafirnar.

Elín c”,)

Tags: , , ,

Útsaumur og hugmyndavinna

Ég er í áfanga í skólanum þessa önnina sem ég er voða skotin í og hef mikið gaman af.

Eins og nafnið gefur til kynna þá er kenndur útsaumur. Við byrjum önnina á að sauma sem og á lita- og formfræði.  Ég er búin að gera nokkur verkefni sem ég ætla að deila með ykkur seinna en fyrst langar mig að deila með ykkur smá af hamingjunni í skólastofunni. Ég veit ekki með ykkur en efni, garn og litir gera mig afskaplega hamingjusama.

Fyrst er það efnið sem við saumum í:

imageÍslenskur ullarjavi

imageMisgróf javaefni fyrir þráðabundinn útsaum

imageMisjöfn efni, ekki þráðabundin fyrir frjálsan útsaum

 

Svo er það garnið. í öllum þessu litum:

imageÉg lærði að þekkja muninn á perlugarni og árórugarni

imageUllargarn

imageUllargarn

imageÁrórugarn

imageÁrórugarn

imageFínt perlugarn

imageFínt perlugarn

imageGróft perlugarn

imageGróft perlugarn

 

Í þessum áfanga munum við líka þrykkja á efni:

imageVinnuaðstaðan

imageÁhöld til að þrykkja.
Mér finnst svo yndislegt hvað það er hægt að nota hversdagslega hluti til þess að skapa eitthvað nýtt.

imageHér má sjá stálhring af heftiplástri, lok af kremi, lok af snyrtivörum og stút af kítti.
Allt hlutir sem færu í ruslið en eru í skólanum notaðir til að föndra.

 

Svo er það útsaumurinn sem kennarinn okkar, Fríður Ólafsdóttir, hefur sjálf gert og er með til sýnis:

imageSvartsaumur – mig langar svo að læra svona

imageHolbein saumur – hef aldrei séð svona áður en langar mikið að læra.

imageHerpisaumur – aldrei heyrt um þetta heldur

imageMjög töff bókamerki gert með þræðispori í java (held ég).

Það er í svona áföngum sem mér finnst ég svo sannarlega heppin að vera að læra það sem ég er að læra. Hlakka til að sýna ykkur meira eftir því sem líður á önnina.

Útsaumskveðjur
Elín c”,)

Þræðir sjónlista á Árbæjarsafni

Í Árbæjarsafni stendur yfir sýningin “Þræðir sjónlista”. Ég tók eftir peysum sem þar áttu að vera og dreif mig í kulda og rigningu dagsins í safnið að skoða herlegheitin. Öll munstur eru fengin úr hinni frábæru Sjónabók sem geymir íslensk munstur frá 17. 18. og 19. öld, geysilega skemmtileg og eiguleg bók fyrir okkur sem höfum áhuga á handavinnu hvers konar.

Greta Sörensen, prjónahönnuður sýnir 4 peysur sem eru vélprjónaðar og eru þær algjört augnakonfekt.

20130707_141904

20130707_141750

20130707_141740

Eftir síðustu heimsókn mína í Ömmu Mús hefur áhugi minn á að sauma út púða aftur vaknað. Á sýningunni eru púðarnir hennar Guðrúnar Kolbeins, listvefara eru virkilega fallegir. Þeir heita: Bláa blómið, Bleika blómið, Græna blómið og Afleggjari.

20130707_142002

Að lokum voru 2 myndir eftir Jóhönnu E. Pálmadóttur

20130707_141954

Það er svo alltaf gaman að skoða sig um í versluninni og sjá hvernig íslensk munstur eru framleidd á fleiri vörur hjá okkur eins og t.d. þessar fallegu servéttur og suðusúkkulaði.

20130707_142810

Guðrúnardætur komnar með vörur til sölu í safninu.

20130707_142832

Í dag var einnig í gangi sýning á gömlum bílum sem Fornbílaklúbbur Íslands stóð fyrir. Alltaf gaman að skoða bílana en þessir heilluðu mig mest, kannski af því að þegar ég var barn setti ég saman ófá módelin af þessum tegundum og málaði. Held samt að ég tæki mig afskaplega vel út í þessum bleika á götum borgarinnar 🙂

20130707_142212

20130707_142155

20130707_142400

20130707_142520

Góð ferð á safnið í dag og þrátt fyrir kulda og rigningu skemmtu börnin sér vel og var þessi lest mjög vinsæl hjá þeim.

Fleiri smekkir

Þegar við vorum á Spáni í sumar þá fann ég þessa smekki í Tælenskri “drasl” búð…þeir kostuðu ekki einu sinni eina evru hver ef ég man rétt. Við systur vorum nýlega óléttar báðar, komnar ca. 10-14 vikur, svo það hentaði fínt að það væru bara til gulir smekkir. 

Smekkirnir hafa svo legið niðrí skúffu þar til Aþena litla var skírð svo ég gæti saumað í þá.

Tók mér bækur á bókasafninu með fullt af útsaumssporum.
Smekkirnir voru kjörin vettvangur til að prufa e-ð nýtt.

Hér eru frændsystkinin svo með smekkina sína. Hvorugt var sérstaklega ánægt.
Myndirnar voru teknar í gær en þá var Aþena 8 vikna gömul og Móri 4ra vikna.
Það er voða gaman að eiga litla frænku sem er svona nálægt Móra í aldri,
mar fær svona tvíburaútrás í öllu föndri.

Handverkskúnst notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec
  • devicePixelRatio

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á handverkskunst.is

  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur