Ferðasaga hannyrðanörds

Ég fór í ferðalag um helgina sem gerist alltof sjaldan. Við hjónin skelltum börnunum upp í bíl og keyrðum austur fyrir fjall. Áfangastaðurinn var heilsárshús fjölskyldu vinar okkar, en umræddur vinur beið okkar þar. Amman og afinn byggðu húsið fyrir mörgum mörgum árum og ólu öll sín börn þar upp. Á meðan heimsókn okkar stóð sagði vinurinn okkur sögur af ömmu sinni og heimsóknum hans sem lítill strákur í sveitina til ömmu og afa. Afinn lést fyrir þónokkrum árum en amman lést í fyrra þá 88 ára gömul.

En hvað kemur þetta svo hannyrðum við? Jú amman var mögnuð hannyrðakona. Ég snérist í hringi yfir öllu þarna inni. Amman var húsmæðraskólagengin og hafði greinilega nýtt þá menntun sem hún fékk þar alla ævi. Á árum áður var það ekki eintómt fjör eða föndur að sinna hannyrðum, það snérist ekki allt um að hanna. Það var hreinlega nauðsyn. En amman tók hvoru tveggja með trompi – nauðsyn og sköpun.

Fyrsta sem ég rauk augun í voru svanirnir. Þeir voru frekar skemmtilegir.

20150809_170305 20150809_170318

Í fyrstu taldi ég að þetta veggteppi væri Glitsaumur. En eftir að hafa borið þetta undir sérfræðingana í FB hópnum Útsaumur/Krosssaumur var niðurstaðan að þetta væri Glitvefnaður. Sem sé glitsaumur ofinn í vefstól.

20150808_104109

Fann einnig þennan dúk með Augnsaumi. Mér finnst augnsaumur svo merkilegur því hann er alveg eins beggja megin. En þessi mynd sýnir einmitt réttuna og rönguna. Ég er svo veik fyrir íslenskum útsaum svo mér fannst þetta geggjað.

20150809_161636

Þessi lampi var inni í stofu. Amman hafði hnýtt skerminn. Birtan frá honum var ótrúlega skemmtileg.

IMG_20150809_013814

Ég hef oft verið að hugsa um hvað það væri gaman að hekla utan um glasamottur en aldrei fundið hentugar glasamottur til að hekla utan um. Amman var greinilega langt á undan mér, en hún hefur heklað þessar glasamottur fyrir mörgum árum.

20150809_170443

Ég fann heilan kassa af rúmfötum – með sögu – eins og kassinn var merktur. Rúmfötin voru dásamleg. Það var búið að setja í þau milliverk, dúllur og blúndur. Heklið svo fíngert að ég varð að rýna í það til að sjá hvort þetta væri ekki örugglega handgert en ekki búðarkeypt.

20150808_153007

20150808_153115

IMG_20150808_153506

Eftir því sem mér skilst voru amman og afinn með vinnuaðstöðu í kjallaranum. Afinn vann með tré og amman með ull. Kjallarinn er fullur af dýrgripum og mig hreinlega verkjaði mig langaði svo að taka margt af þessu með mér heim. Í kjallaranum voru vefstólar, rokkar, garnvindur, prjónavél, kambar, spunavélar, garn og ULL! Helling af ull.

20150809_162134

Rokkarnir. Tveir gamlir íslenskir og einn nýrri sem er af gerðinni Louet var mér sagt af öðrum hannyrðanörd.

20150809_161928

Vél sem kallast á ensku Lazy Kate og er „nútímagræja“ til að spinna garn.

20150809_161510

Þetta borð er með fótstigi og einhverri vél og er að ég held nýtt til þess að spinna ull. En ég hef aldrei séð svona áður og hef því í raun enga hugmynd um hvað þetta er.

20150809_161458

Ýmsar hannyrðir. Útsaumur og vefnaður.

20150808_135007

20150809_162125

Í þessum kössum er ull og ekkert nema ULL. Í stóra brúna kassanum og hvítu fötunni er angóruull. Amman ræktaði kanínur og vann af þeim ullina, barnabörnin nutu svo góðs af að fá prjónaðar flíkur sem voru dásamlega mjúkar.

20150809_161056

Amman var í því að jurtalita ull. Ég þykist viss um að þessi ull sé lituð af henni.

20150809_160939

Í kjallaranum var að finna helling af ull. Ég var ekki klár á því hvað var spunnið af ömmunni og hvað ekki. En ég fann eitthvað af garni sem ég er viss um að sé litað og spunnið af ömmunni.

20150809_161340

20150809_161427

20150809_161441

Ég fann nokkrar stílabækur meðal prjónablaðanna. Amman hafði greinilega skrifað hjá sér minnispunkta um verkefnin sem hún gerði. Fannst þetta afskaplega dýrmætt.

IMG_20150809_155853

Ég eyddi nú ekki allri helginni í kjallaranum að snúast í hringi um ull. Ég átti góðar stundir með fjölskyldunni og vinum. Við Maía Sigrún tókum nokkra góða göngutúra á nærliggjandi sveitabæ að skoða kýrnar, hænurnar og hestana.

20150808_173024

Maía tók sig vel út í sveitinni í vaðstígvélum og færeysku peysunni sem amma hennar prjónaði á hana.
Það er sko gott að eiga góða ömmu!

Nördakveðjur
Elín

Skildu eftir svar