Jólagjafaprjónið

Nú þegar allir hafa opnað jólagjafirnar er óhætt að setja inn á netið myndir af því sem prjónað var. Ég prjónaði nánast allar gjafirnar fyrir jólin í fyrra en í ár prjónaði ég bara 4 gjafir. Þær féllu vel í kramið og ég er alltaf glöð þegar ég sé að rétt var valið hjá mér fyrir viðkomandi einstakling og gjöfin verður notuð 🙂

Ég sá á einni norskri Facebook síðu um daginn spurningu sem ein kona setti inn. Hún spurði hópinn hvort þær héldu nú ekki að ættingjar þeirra væru orðnir þreyttir á að fá þessar handprjónuðu gjafir frá þeim? Ég vona að mínir ættingjar og vinir láti mig nú vita ef þeim þykir nóg um en það er bara að mínu mati alltaf gott að fá hlýja húfu eða vettlinga svo ég tali nú ekki um gjöf sem er handprjónuð og unnin með gleði og hlýju frá frænku, ömmu eða mömmu til viðkomandi aðila. Eða hvað finnst ykkur?

Tengdasonur minn er mikill unnandi þungarokks og hauskúpna. Þannig að þegar ég sá þetta munstur hjá Jordis mønsterbutikk kom ekki annað til greina en að prjóna vettlingana handa honum. Uppskriftin er sögð passa á lítinn karlmann þannig að ég prjónaði þá úr Dale Falk garni og á prjóna nr. 3,5 og pössuðu þeir þá fínt á Gissur minn sem er hávaxinn karlmaður,

Gissurs vettlingar Dale falk prjónar nr. 3.5 copy

Framhliðin er með gítar og fleira en bakhliðin hauskúpur. Gissur var alsæll með þá 🙂

Ingibjörg frænka fékk húfu. Ég var búin að sýna frænkum mínum mynd af húfu sem mér þótti svo falleg en hún var bara afleit þegar ég hafði prjónað hana. Þá sá ég þessa fallegu húfu á Facebook og fékk ég uppskriftina Kertalogi og garnið Semilla grosso í Litlu Prjónabúðinni. Ég prjónaði lengri útgáfuna og frænka alsæl með hlýja og flotta húfu )

Ingibjorg prjónar nr 5 copy

Húfan Kertalogi frá Litlu prjónabúðinni

Ég prjónaði sokka eftir uppskrift frá Bittamis Design handa Aþenu minni fyrir veturinn. Þeir eru virkilega fallegir og ég ánægð með þessa sokka. Svo ég ákvað að prjóna eina handa Maíu minni sem er 5 vikna og fékk hún þá í jólagjöf frá frænda sínum.

Hjertejente barnesokker fyrir Aþenu copy

Aþenu sokkar prjónaðir úr Dale Falk, flottir á 2ja ára skottuna mína.

Sokkar f Maíu 2013 copy

Maíu sokkar eru prjónaðir úr Dale Baby á prjóna nr. 2,5 og passa þeir þá fínt á ca. 2-5 mánaða.

Sofia frænka í Köben er mikill heklari en þykir líka afskaplega gaman að vera með fallega vettlinga á höndunum. Hún hefur fengið nokkur pör hjá mér en þegar hún sá þessi annars ágætu hreindýr á einhverri prjónasíðu hér á netinu vildi hún ólm eignast svona vettlinga. Ég er persónulega ekki til í að eiga flík með þessari tegund munsturs af hreindýrunum og bara gat ekki sent henni í jólagjöf vettlinga með þessu munstri. Átti í þó nokkurri innri baráttu við sjálfa mig vegna þessarar bónar hennar. Á endanum ákvað ég að prjóna vettlinga úr tvöföldu prjóni þannig að hún gæti snúið vettlingunum við og fengið aðra fallega í staðinn, Setti því saman þessa vettlinga prjónaða úr Yaku ull frá Litlu Prjónabúðinni (ég hljóma næstum eins og auglýsing en þessi búð er bara í miklu uppáhaldi hjá mér)

Sofiu vettlingar Yuku garn prjónar nr 2.5 copy

Eitt par af vettlingum: hlið A (hreindýrin góðu) og  hlið B er hægra megin

Svona í lokin þá prjónaði ég vettlinga á Maíu á meðan ég sat yfir jólasteikinni á aðfangadag. Einfaldir en skemmtilegir á litlar hendur og ég fékk tækifæri til að prjóna uglu sem ég hef svo oft séð á prjónasíðunum. Læt hér fylgja með uppskrift ef einhver vill prjóna svona vettlinga. Einfalt að prjóna úr grófara garni til að fá eitthvað stærri vettlinga en þessir eru sennilega uppí ca. 4ra mánaða.

maíu vettlingar copy

Ungbarnavettlingar

Garn: Dale Baby, Lanett eða annað garn með svipaðan grófleika
Prjónar: Sokkaprjónar nr, 2,5
Aðferð:
Fitjið upp 38 lykkjur og prjónið stroff  1 slétt, 1 brugðin alls 16 umferðir. Prjónið síðan samkvæmt teikningu en aukið út í fyrstu umferð um 6 lykkjur = 44 lykkjur á prjónunum. Skiptið lykkjum jafnt á prjónana þannig að það eru 11 lykkjur á hverjum prjóni. Munstur er bara prjónað á framhlið vettlings þ.e. 12 miðlykkjurnar þannig að allar lykkjur þar fyrir utan eru prjónaðar slétt.

Umferð 1-20 er prjónuð þannig: prjónið 5 lykkjur slétt, 12 lykkjur samkvæmt teikningu, 27 lykkjur slétt

Uglumunstur maíu vettlingar íslenskt_stækkaður

Þegar munstri lýkur er komið að úrtöku þannig:
Umferð 21: 1 lykkja slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman
Umferð 22: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman
Umferð 23: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman
Umferð 24: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman
Umferð 25:: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman
Umferð 26: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman

Setjið nú lykkjurnar sem eftir eru saman á 2 prjóna 10 lykkjur á hvorn prjón. Snúið vettlingnum við, rangan snýr út og fellið af með því að prjóna lykkjurnar 20 saman eða lykkið þær saman með nál.

Uppskriftin á PDF formi

Prjónakveðja,
Guðrún María

Skildu eftir svar