Lambhúshetta – frí uppskrift

Þessa lambhúshettu prjónaði ég fyrst í kringum 1995 á dætur mínar.
Flott húfa til að nota garnafganga í og fer einstaklega vel innan undir hettur t.d. á snjógöllum.
Ég veit ekki hvaðan uppskriftin er upphaflega en hún var mikið prjónuð
á þeim vinnustað sem ég vann á, á þessum tíma.

lambúshetta

Garn: Lanett 100% ull, Dale garn 100% ull
Prjónar: nr. 2,5
Ummál húfu: 46 cm

Fitja upp 60 lykkjur og prjóna 2 slétt og 1 brugðin á réttunni en 2 brugnar og 1 slétt á röngunni. Prjónið 40 umferðir. Geymið stykkið og prjónið annað eins. Sameinið stykkin á hringprjón og prjónið áfram 2 slétt og 1 brugðin í hring 25 umferðir.

Prjónið þá slétt og byrjið á mynstri 1, síðan mynstur 2 og 3. Því næst eru prjónaðir garðar svona: Ein umferð slétt í lit nr. 1 og önnur umferð brugðin. Síðan ein umferð slétt í lit nr. 2 og önnur umferð brugðin. Svo ein umferð slétt með lit nr. 1 og þegar farið er að prjóna seinni umf þá fella af 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur brugðið, felllið 38 lykkjur af mjög laust og prjónið rest brugðið. Nú eru komnir 3 garðar. Í næstu umferð er fitjað upp aftur þessar 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur slétt með lit nr. 1, fitjið upp 38 lykkjur mjög laust með öðru bandi og prjónið þær slétt með í hringinn og svo áfram út prjóninn, síðan einn hring brugðið. Síðan einn hring slétt í lit nr. 2 og önnur brugðin. Prjónið svo áfram mynstur og byrjið á mynstri nr. 4, svo nr. 2 og loks nr. 1. Prjónið þá einn garð í lit nr. 1 og annan garð í lit nr. 3 á sama hátt og fyrr í húfunni. Síðan mynstur nr. 1 en víxla litum, svo mynstur nr. 2 og enda á mynstri nr. 3.

Úrtaka: Prjónið með aðallit *2 lykkjur saman og 10 lykkjur slétt* prjónið frá * að * allann hringinn. Fellið svona af í annarri hverri umferð með 1 lykkju færri á milli þar til 6-8 lykkjur eru eftir prjóna þá nokkrar umferðir. Slétt slítið frá og dragið bandið í gegn.

Lambhúshetta_mynstur

Þið getið einnig sótt ykkur uppskriftina í pdf skjali með því að smella hér.

Mbk
Guðrún María

Skildu eftir svar