Mars og apríl prjón

Ég gaf mér ekki tíma til að taka saman í blogg það sem ég prjónaði í mars og ákvað því að setja saman mars og apríl. Það gekk eitthvað á „to do“ listann minn sem er langur samt sem áður en gaman að eyða út af honum og líka mjög spennandi að bæta á hann verkefnum sem mig langar eða ætla mér að prjóna 🙂

Pixie húfan hefur lengi verið á listanum og bara spurning hvenær ég gæfi mér tíma til að prjóna hana. Ég keypti sumarjakka á Maíu í Kaupmannahöfn um daginn og þá vantar að sjálfsögðu húfu við jakkann. Ég prjónaði húfuna úr Dale baby ull og fann uppskriftina í Prjónablaðinu Ýr númer 37.

Maía pixie merkt

Skemmtileg húfa og þið getið fundið uppskrift af henni á netinu á ensku með því að leita á Google að Pixie hat.

Þessa fallegu peysu sá ég í garnversluninni Anita Garn & Strikk í Kaupmannahöfn. Hugsaði mig ekki tvisvar um, keypti garn, Drops Baby Merino á staðnum í þessa peysu og prjónaði handa Aþenu og Maíu. Aþena hefur mjög gaman af því að þær frænkur séu eins klæddar.

kaðlapeysa á maíu og aþenu1 merkt

 Framhliðin

kaðlapeysa á maíu og aþenu2 merkt

 Bakhliðin

kaðlapeysa á maíu og aþenu3

 Maía kát með nýju peysuna sína

Á rölti mínu um garndeildina í A4 rakst ég á nýtt blað, Dale Garn Barn nr. 281. Þar sá ég þessar leggings og kolféll fyrir þeim. Uppskriftin er gerð fyrir garnið Daletta en þar sem það er ekki selt í A4 keypti ég Dale Baby ull. Prjónfestan er ekki sú sama þannig að ég þurfti að endurreikna til að fá rétta stærð miðað við garnið. Ég prjónaði þær á prjóna nr. 3 og er mjög ánægð með þær.

Leggings1 merkt

 Nærmynd af mynstri á leggings

Í sama blaði var einnig falleg peysa  prjónuð úr Royal Alpakka frá Dale en ég ákvað að prjóna vesti á við þessar leggings og notaði sama garn. Uppskriftin er í Ungbarnablaði Tinnu nr. 12 frá árinu 2009.

vesti1 merkt

 Einfalt vesti og fljótlegt að prjóna með munsturbekk efst

Það stóð á garndokkunni að þetta garn mætti fara í þvottavél en ég var ekki alveg sátt þegar vestið kom úr vélinni, finnst eins og flíkin hafi þæfst aðeins. Aþena á eftir að taka sig vel út í þessu dressi 🙂

leggings og vesti merkt

Ég var lengi búin að leita að uppskriftinni af kjólnum Clara og langaði svo afskaplega mikið til að prjóna hann. Fann loksins uppskriftina á netverslun í Bandaríkjunum.

clara dress

Ég ákvað að prjóna hann úr garni sem ég átti til en…

clara dress1

Svo er ég ekki viss þannig að ég lagði hann til hliðar og ætla aðeins að fara rúnt í garnverslanir og sjá hvort ég finni garn sem mér líkar betur í þennan fallega kjól sem ætlaður er Maíu minni.

Doddahúfurnar sá ég á Facebook prjónasíðu og fór strax að kaupa garn og uppskrift í þær. Þetta eru fyrstu húfurnar sem Aþena og Móri nota sem ekki hafa eyrnaskjól. Þau eru alsæl með þessar húfur sem þau skella sjálf á höfuðið og enginn þarf að hjálpa þeim.

Doddahúfur merkt

Uppskriftina fékk ég á íslensku í Storkinum og ég notaði Baby Cashmerino frá Debbie Bliss í þær. Mæli með þessum húfum þær eru rosalega skemmtilegar og fljótprjónaðar.

úti í garði minnkuð

Ég á 5 börn og prjónaði alltaf á þau peysu á vorin, sumarpeysu og síðan aðra þykkari fyrir veturinn. Ég ákvað að taka upp þennan sið með barnabörnin litlu sem nú eru 3.  Móri og Aþena hafa fengið að njóta sín hér á blogginu og er prjónað mikið á þau. Mæðurnar hafa nánast ekkert um það að segja, amma bara prjónar og prjónar 🙂

Ég ætlaði að prjóna á þau einlitar peysur fyrir sumarið í ár og hafa þær með köðlum. Ég prjónaði fyrst þessa bleiku kaðlapeysu úr Dale Baby ull á prjóna nr. 3 en var svo ekki neitt upprifin yfir henni þannig að hún verður notuð sem aukaflík heima hjá ömmu og afa.

Bleika kaðlapeysan merkt

Ákvað þá að prjóna á þau aðra peysu og varð norska peysan Marius fyrir valinu. Ég hef prjónað nokkuð margar peysur eftir þessari uppskrift og þykir hún alltaf jafnfalleg. Í þetta sinn ákvað ég að setja inn munstur á þær sem höfða meira til Aþenu og Móra en láta munstrið að öðru leiti halda sér eins. Hér getur þú nálgast nokkrar hugmyndir til að nota í peysur.

Ég notaði Sisu garn í báðar peysurnar og uppskriftin mín kom úr prjónablaðinu Norske Ikoner tema 34 frá Sandnes Garn. Ég var nokkra stund að velta fyrir mér litum í peysurnar en endaði á því að hafa þær ljósgráar í grunninn. Litaglaða konan ég var ekki viss með litavalið fyrr en flíkurnar voru fullkláraðar en ég er aftur á móti alsæl með báðar peysurnar sem og mæður barnanna og þau stuttu auðvitað líka.

hk f aþenu merkt

 Hérna sést hvernig Hello Kitty leit út áður en ég saumaði svart í kringum hana, gerbreytir útlitinu þegar peysan er fullkláruð

Marius Hello Kitty merkt

Móri er mikill bílakarl og ákvað ég því að hafa gröfur hjá honum þar sem hann fékk húfu í vetur með traktór.

Mórapeysa vor merkt

 Gröfurnar að koma í ljós og allt lofar góðu

Marius grafa merkt

Hann verður svakalega flottur í sumar í þessari fallegu peysu

Eina helgina í apríl var ég svona á milli verkefna og vantaði eitthvað að prjóna svo þá prjónaði ég þessi þrjú pör af vettlingum. Það vantar jú alltaf vettlinga.

Vettlingar apríl merkt

Spiderman vettlingarnir féllu vel í kramið hjá Móra en uppskriftina af þeim fann ég hér en ég notaði garnafganga af Baby garni og notaði prjóna nr. 3. Gráu vettlingana prjónaði ég og saumaði síðan fílinn eftir á í þá, fílinn fann ég á netinu. Að lokum þessir fallegu vettlingar úr einhvers konar stjörnuprjóni sem ég bloggaði um hér og setti inn uppskrift af þeim.

Auðvitað prjónaði ég smávegis tvöfalt prjón í apríl, ekki hægt að vera lengi án þess að hafa það með 🙂 Ég hafði svo oft fengið beiðni um húfu með uglum á námskeiðum hjá mér í Föndru. Úr varð þessi ugluhúfa sem er prjónuð úr Drops Baby Merino á prjóna nr. 3,5.

Ugluhúfa Drops merkt

Uppskriftin kostar kr. 600 og er húfan í þremur stærðum: (1-2 ára) 3-4 ára (5-7 ára). Uppskrift fyrir 1-2 ára er með eyrnaskjólum en hinar án.

Að lokum þá eru hér tvær prjónabækur sem bættust í safnið mitt.

SOKKABÓKIN

Sokkabókin hennar Bitta Mikkelborg hafði lengi heillað mig og pantaði ég mér hana frá Noregi. Þú getur skoðað Facebook síðuna hennar og séð eitthvað af sokkunum þar.

Síðan er ég svo heppin að Ellý systir er alveg komin í gírinn með það að skoða prjónabækur og -blöð á ferðum sínum erlendis. Um daginn var hún í Færeyjum og rakst á þessa frábæru bók sem er stútfull af fróðleik og uppskriftum.

SOKKABÓKIN2

Ekki skemmdi fyrir að þessi bók var á óskalista mínum yfir bækur sem ég vil eignast 🙂

Læt þetta blogg enda hér og held að ég hafi ekki gleymt neinu sem ég prjónaði þessa tvo mánuði….

Prjónakveðja

– Gurún María

 

Skildu eftir svar