Prjón að hekli

Ég er gjörsamlega ástfangin af ótrúlega fallegri prjónabók sem mamma keypti sér. Bókin er Rósaleppaprjón eftir Hélène Magnússon. En vandamálið mitt er það að ég hef bara ekki svo gaman af því að prjóna. Hvað er þá til ráða? Jú breyta prjóni í hekl.

Ég keypti mér túníska/rússneska heklunál nr. 3,5 og tók saman nokkra afganga sem ég og mamma áttum til. Þetta er Lanett og Lyppa garn.
Svo var bara byrjað að hekla.Það var mjög skemmtilegt að hekla svona. Mér finnst túníska/rússneska heklið koma mjög vel út. En það var soldið tímafrekt og krefjandi að skipta svona oft um lit. Uppskriftin sem ég valdi mér að hekla eru ferningar með mismunandi áttblaðarósum sem eru svo heklaðir saman í teppi. Mér finnst uppskriftin koma vel út svona hekluð. En ég er ekki alveg viss hvort ég meika að gera heilt teppi úr þessu. Ég er auðvitað ekki heldur búin að ganga frá endunum – sem eru alveg helling. Ég ætla að sjá til hvernig ég er stemmd eftir jól hvort ég nenni að gera fleiri ferninga.
Túnískt – rússneskt – túnískt. Hver er munurinn? Well munurinn er enginn. Ég pældi heillengi í þessu þar til ég komast að því að þetta er það sama. Á Íslandi er þetta kallað rússneskt en úti er þetta kallað túnískt. Það skiptir svo sem engu máli hvað þetta er kallað. En ef ykkur langar að prófa túnískt/rússneskt hekl og ætlið að Googla uppskriftir eða e-ð þá vitið þið af því að þetta kallast Tunisian Crochet.

Rússneskt hekl er í raun ekki til. Og ekki heldur rússneskt prjón. Rússneska leiðin er alveg ótrúlega merkileg. Hjá þeim er þetta bara kallað Stitching og annað hvort er það með prjónum eða nál. Ég fann merkilega töff myndband á youtube sem sýndi gellu sem var að Stitch-a með prjónum og heklunál á sama tíma. Finn það því miður ekki aftur.

Hér er Grúppa á Ravelry þar sem talað er um Rússneskt prjón/hekl og myndir af því.

Og svo ein mynd af henni Guðmundu minni sem er aldrei langt í burtu þegar garn er annars vegar…og gerir mér stundum smá erfitt fyrir þegar ég er að reyna að taka myndir.

Skildu eftir svar