Prjónaklúður

Verð ég ekki að deila sorgum mínum jafnt og sigrum á þessi bloggi mínu.

Ég hef ekkert sérstaklega mikla þolinmæði þegar kemur að því að prjóna kannski vegna þess að ég er alger fullkomnunarsinni. En samt sem áður ákvað ég að skella í eitt stykki prjónavettlinga handa kærastanum. Fann þessa hreindýravettlinga á Ravelry (hef séð svona húfur á bland áður) og honum fannst þeir æðislegir. 

Þetta gekk sæmilega hjá mér fram að mynstrinu þá fóru hlutirnir svo sannarlega í klúður. Mynstrið varð alls ekki fallegt, sumar lykkjur voru hólkvíðar á meðan aðrar voru svo strekktar að þær næstum hurfu. Vettlingurinn varð mun þrengri þar sem mynstrið var og mér fannst þetta hreinn og beinn hroðbjóður. Eftir tvær tilraunir þá gafst ég upp og ákvað að þetta verk mitt yrði ekki klárað.



Það er alls ekkert nýtt að ég gefist upp á prjónaverkefnum. Eins og ég segi þá er ég með stuttan þolinmæðisþráð og fullkomnunaráráttu.

Þegar ég var ólétt af Mikael (fyrir rúmum 11 árum síðan) prjónaði ég handa honum peysu. Ég setti þó aldrei tölur í peysuna né notaði hana því þegar peysan var fullgerð tók ég eftir því að ég hafði ekki gert mynstrið alveg rétt. Veit ekki hvernig þetta fór framhjá mér á meðan ég prjónaði gripinn en eftir á þá sá ég ekkert annað en þetta. Ég hef þó aldrei tímt að henda peysunni. Enda er ég með ‘væga’ söfnunaráráttu.



Ég hef byrjað á tveimur öðrum peysum handa honum Mikael mínum en í bæði skiptin gefist upp þegar kom að því að gera ermar. Ég byrjaði á þessari fallegu norsku peysu þegar Mikael var 2ja ára. Tókst vel upp með búkinn en þegar kom að því að gera mynstur og auka út í ermunum þá gafst ég upp. Þessi peysa hefur legið inní skáp í 9 ár. Spurning hvort ég klári hana handa Móra.


Þó svo að ég sé prjónaklúðrari þá eru færar prjónakonur í fjölskyldunni. 

Mamma er alger snillingur þegar kemur að því að prjóna og langar mig mest að vera öflugur prjónari þegar ég sé hvaða verkefni hún er að galdra fram. Heimferðardressið hans Móra er gott dæmi um hæfileikana hennar.


Svo á ég par af sokkum sem mamma prjónaði á mig þegar ég var lítil. Þykir mjög svo vænt um að eiga þá og nota á strákana mína.


Ég á líka prjónaða nærboli sem Færeyska ömmusystir mín prjónaði á Mikael þegar hann fæddist. Mér finnst þeir einstaklega sætir en ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við þá. Móri er samt voða sætur í þeim.





Að lokum þá fann ég þennan æðislega prjónaða fíl í Góða Hirðinum á 10 kr og ég fann þennan heklaða apa á grindverki þegar ég var í göngutúr. Eftir snúning í þvottavélinni hafa þeir fengið að verða félagar í bangsasafni Móra.


Móri er mjög hrifinn af þessum bleika lit og fílar það fínt að spjalla við þennan fína fíl.



Bráðum. Bráðum. Bráðum mun ég halda áfram að æfa mig að prjóna.


Skildu eftir svar