Sælir séu einfaldir…

…því þeir munu hamingjuna finna.

Ég átti alveg hreint frábæran dag í dag. Í dag var fyrsti dagurinn sem Móri minn var einn á leikskólanum og átti ég því smá frí. Við Móri höfum verið heima saman síðan í lok júní og þó við höfum átt margar góðar stundir saman þá er stundum fínt að fá smá pásu. Þið sem eruð foreldrar þekkið hvað það er nauðsynlegt að eiga reglulega fullorðins tíma.

image

En fríið frá Móra mínum var nú ekki það sem gerði daginn svona rosalega skemmtilegan. Eftir að hafa skutlað honum á leikskólann og kíkt í kaffi til mömmu þá fór ég heim. Heima lögðumst við Mikael í litun. Litun á garni. Ég litaði garn með bláberjum sem á að nota í sjal. Mikael litaði garn með matarlit og stendur til að nota það garn í sokka handa litlu systur.

image

Næst skellti ég mér í Góða Hirðinn sem er algerlega uppáhalds búðin mín. Svona allavega þegar ég finn flotta hluti þar. Í dag fann ég tvo útsaumaða púða sem eru hreint út sagt frábærir. Mynstrin og litirnir eru mér að skapi. Þeir kostuðu bara 1000 kall saman.

image

Ég sá líka flotta heklaða pottaleppa. En um leið og ég rak augun í þá greip konan við hliðin á mér þá. Henni hefur litist jafn vel á þá og mér því hún ákvað að kaupa þá. Hún var þó svo almennileg að leyfa mér að skoða þá og mynda. Ég hef aldrei séð svona áður og elska að sjá nýtt hekl.

image

Til að toppa daginn þá áskotnaðist okkur mæðgum gamalt þýskt heklblað og eintak af Færeysku Prjónamynstursbókinni. Gömlu útgáfunni sem kom út 1949. Amma á svona bók og ég hef flett henni og dáðst af mynstrunum síðan ég var unglingur. Þessi bók er alger dýrgripur.

image

Eftir langan og góðan dag er mín svo sest niður fyrir framan sjónvarpið með yoyo ís og sjalið sem ég er að hekla. Svona er mar fjölhæfur.

image

Vona að þið hafið átt góðan dag líka
Elín c“,)

Skildu eftir svar