Saumar eins og vindurinn

Móri kallinn minn virðist ætla að verða eyrnabólgubarn. Fær rör eftir nokkra daga. Það hefur því verið mun minna um svefn en ég vildi óska og minna um handavinnu en vanalega.

Það kom ein stelpa á námskeið til mín og sagðist vita óþægilega mikið um mig án þess að þekkja mig því hún les bloggið mitt. Mér fannst það soldið fyndið.


Ég er búin að vera að sauma fyrir skólann. Á saumavél. Ég! Finnst það frábært. Ég er búin að óttast saumavélina mína síðan ég fékk hana í jólagjöf í fyrra. Hef ekki snert hana fyrr en nú.

Verkefni fyrir skólann var að sauma 4 mismunandi útfærslur af dýri. Ég má til með að deila með ykkur fyrstu 3 uglunum mínum.

Þetta er Randver
Hann er soldið skrítinn. Hann er röndóttur og rangeygður.
Hann er stundum ringlaður enda hringlar í honum þegar hann er hristur.


Þetta er Uxi
Eins og allar aðrar gallabuxur er hann slitsterkur og þægilegur.
Hann er mjúkur að innan sem utan. Í frístundum sínum yrkir hann ljóð.


Þetta er Linda
Linda er rólynd enda næturugla.
Þó henni lyndi vel við hinar uglurnar þá er hún ekkert sérlega félagslynd.

Fyrir vanar saumakonur þá eru þessi tuskudýr mín ekki mikið fyrir augað. En ég er svo ánægð með þær. Fyrst þegar ég byrjaði að sauma langaði mig að gefast upp og taldi ekki séns í helvíti að ég gæti þetta.
En ég gat og ég er glöð! Mar á alltaf að vera ánægður með það sem mar gerir ekki satt?


Uglurnar eru allar saumaðar úr fötum sem hætt var að nota og átti að henda. Svo þær eru ekki bara sætar heldur endurunnar líka. Og endurvinnsla er mjög svo móðins.

Smábörn og saumavélar eru ekki góð blanda. Ég reyndi að loka mig af til að fá frið og læra. Móri var heldur betur móðgaður og var ekki sáttur með þessa óþekktar hegðun í mömmu sinni. Hann var heldur ekki lengi að koma sér í gegnum rennihurðina.

Skildu eftir svar