Tag Archives: frí uppskrift

Ég datt í ungbarnaprjón….

Það er eitthvað við þessar litlu flíkur á nýfæddu krílin, það er svo gaman að prjóna þau. Ekki af því að maður er svo snöggur heldur þau eru svo krúttleg. Yngsta barnabarnið mitt er 4ra ára en einhverja þörf fékk ég í byrjun ársins á því að prjóna nokkrar flíkur á lítið kríli.

Ég er svo heppin að geta svalað prjónaþörf minni og prjónað fyrir búðina ef enginn er í kringum mig að prjóna á það sem mig langar að gera. Ég var á leið í aðgerð á hné og vissi að ég þyrfti að vera heima nokkuð lengi svo ekki mátti vanta prjónaverkefni. Ég fékk hana Maríu lánaða til að vera módel fyrir mig á flíkur ætlaðar 3 mánaða aldri eða svo.

Fyrsta verkefnið var þessi fallegi kjóll.

Tilda kjolebody – úr bókinni Klompelompe Sommerbarn
Stærð: 0-1 mánaða
Garn: Drops BabyAlpaca Silk – litur nr 1760

Næsta peysa var búin að vera í kollinum á mér í um 2 ár en ég hafði aldrei komið því í verk að prjóna hana og skrifa niður uppskrift. En þar sem ég var föst heima var ekkert annað í stöðunni en að koma sér að verki.

Emilía, ungbarnapeysa og -húfa
Stærðir: (0-1) 3 (6) 9 (12) mánaða
Garn: Drops Baby Merino
– litir: púður nr 44 og ametyst nr 40

Fallega María (2,5 mán) sem ég fékk lánaða sem módel

Svo kom að því að Drops birti nýjar ungbarnauppskriftir og féll ég alveg fyrir húfunni í þessari uppskrift og bara varð að prjóna eitt stykki.

Gula settið – samsuða úr Drops uppskriftum héðan DROPS BABY / 29
Stærðir: 0 mánaða til 4 ára
Garn: Drops Baby Merino
– litir: sítrónupunch nr 45 og dökkgrár nr 20

Þessi guli litur er nýr hjá þeim og ákvað ég að prjóna peysu og buxur við húfuna. Úr varð þetta sett:

Uppskriftina af peysunni fékk ég á Garnstudio en skipti út kaðlinum og setti inn falskan kaðal eins og í húfunni.


María krútt komin í settið

Baby Merino garnið er yndislegt að prjóna úr og hentar mjög vel í ungbarnafatnað. Ég held einnig mikið uppá Drops Cotton Merino.

Það er mjög vinsælt að prjóna skriðbuxur á lítil börn (e. romper). Þessi uppskrift er ekki mjög grípandi á síðunni hjá Garnstudio en uppskriftin er auðveld og skemmtilegt að prjóna þessar skriðbuxur.

Petit Lutin – romper
Stærðir: 1/3 – 6/9 – 12/18 mánaða
Garn: Drops Cotton Merino

Verð að láta þessa mynd með. María blessunin var mynduð í buxunum öfugum 🙂 Að sjálfsögðu á smekkurinn að vera framan á barninu, en falleg er flíkin.

Svo fann ég þessa uppskrift fría á netinu, tilvalið að nota afganga í þessa. Aþena ömmugull sá minna parið hjá mér og bað mig um að prjóna á litlu systur sína vettlinga líka. Fjólublátt og hvítt þykir Aþenu svo fallegt saman og valdi þá liti handa litlu systur sinni.

Miniselbu eftir Tinu Hauglund
Stærðir: 3-6 (6-9 m) 9-12 mánaða
Garn: Drops Baby Merino

Svo komu nú gleðifréttir til mín um miðjan mars – mitt 6. barnabarn er á leiðinni – mikil gleði en foreldrarnir ætla ekki að fá að vita kynið. Svo ég, amman, get nú aldeilis farið að láta mig hlakka til og prjóna eins og vindurinn á væntanlegt ♥ ömmugull ♥

Strákur eða stelpa – kemur í ljós

Prjónakveðja,
Guðrún María

Tags: , , , ,

Að prjóna loftbólur eða sjømannsbobler

emelineskjort-navia-duo-2m

Ég rakst á mjög skemmtilega norska síðu síðast liðinn vetur en þar bloggar Vivian Tran um ýmislegt áhugavert. Hún hannar og prjónar mjög fallegar barnaflíkur og gefur uppskriftir af mörgum þeirra á síðunni. Ég er með nokkrar þeirra á lista hjá mér og lét verða af því að prjóna pilsið Emelineskjørt á ömmugullin mín Aþenu og Maíu í síðustu viku.

Pilsin eru prjónuð með einfaldri en skemmtilegri aðferð sem heitir á norsku sjømannsbobler – ég velti lengi fyrir mér hvort það væri til íslenskt heiti á þetta munstur en fann ekki svo ég kalla þetta loftbólur þar til einhver bendir mér á annað heiti.

Ég valdi mér garnið Navia Duo og eru pilsin létt og hlý fyrir gullin mín að nota í vetur á leikskólann. Aftur á móti er ég meira fyrir að hafa teygju í mittið á börnum og nota svona snúrur frekar sem skraut. Ég breytti því aðeins út af uppskriftinni og gerði tvöfaldan kant til að geta þrætt teygju í og setti svo kant neðan á pilsin í staðinn fyrir stroff bara til að hafa smá samræmi þarna á milli.

Ég fékk leyfi til að þýða uppskriftina yfir á íslensku og hér kemur hún.

emelineskjort-vivian-tran

Emelineskjørt

Stærðir: 1-2 (3-6) 7-10 ára
Prjónar: Hringprjónn 40-60 sm, nr 3 og 3,5
Garn: Ég notaði NAVIA DUO og Drops Merino Extra Fine kemur líka vel út
Supewash frá Europris ljósdrapp 50 (50) 100 og bleikt 50 (100) 150 gr
Prjónfesta: 22 lykkjur á prjóna nr 3,5 = 10 sm

Fitjið upp 105 (118) 131 lykkjur með ljósdrapp á prjóna nr 3, setjið prjónamerki og tengið í hring. Prjónið stroff (1 slétt, 1 brugðin) 2 (2,5) 3 sm, prjónið nú göt fyrir snúruna þannig: prjónið *8 lykkjur slétt, 2 lykkjur slétt saman, sláið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina. Prjónið síðan áfram stroff (1 slétt, 1 brugðin) þar til stykkið mælist um 4 (5) 6 sm.

Skiptið yfir á hringprjón nr 3,5 og slétt prjón en jafnið lykkjufjölda í fyrstu umferð í 116 (132) 148 lykkjur jafnt yfir umferðina.

*Prjónið nú með bleiku 4 umferðir slétt og nú er komið að loftbólum.
Skiptið yfir í ljósdrapp og prjónið þannig: *látið 1. lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp.

Prjónið 4 umferðir slétt með bleiku.
Prjónið með ljósdrapp þannig: 2 lykkjur slétt *látið næstu lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina og endið á 1 lykkja slétt.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp*

Endurtakið frá *-*  sem myndar loftbólumunstrið þar til stykkið mælist 20 (25) 30 sm eða sú lengd sem passar. Skiptið yfir á hringprjón nr 3 og prjónið storff (1 slétt, 1 brugðin) um 2 sm. Fellið af allar lykkjur.

Prjónið snúru til að þræða í mittið eða setjið borða.  HÉR og HÉR eru linkar á videró sem sýna hvernig á að prjóna loftbólur (sjømannsbobler).

Það kom sér aldeilis vel að eiga snúruvél frá PRYM ég var í 10 mínútur að gera i-cord snúru um 70 sm langa.

Eins og áður sagði gerði ég tvöfaldan kant þannig: fitjaði upp 118 lykkjur og prjónaði slétt prjón fram og til baka 5 sm, prjónaði 1 umferð brugðið, setti prjónamerki og tengdi í hring. Prjónaði slétt prjón 2,5 sm og gerði þá gataröðina eins og kemur fram í uppskriftinni og síðan slétt prjón aftur þar til komnir voru 5 sm. Nú prjónaði ég 1 umferð slétt en braut um leið kantinn inn og prjónaði með (má einnig sama hann niður eftir á).

taka-upp-lykkjur-a-steng           taka-upp-lykkjur-a-steng2

Hérna er ég búin að þræða lykkjur á aukaprjón, síðan prjóna ég 1 lykkju af hringprjón og 1 lykkju af                        aukaprjóni slétt saman

Ég prjónaði síðan 1 umferð þar sem ég jafnaði lykkjufjölda í 132 lykkjur og prjónaði pilsið að öðru leiti eins og uppskriftin segir til um en endaði á því að prjóna með ljósdrapp 2 sm slétt, 1 gataröð þannig: *2 slétt saman, sláið bandið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina, síðan tæpa 2 sm slétt og fellið af allar lykkjur. Brjótið faldinn inn og saumið niður.

Hnappagatateygja er mjög sniðug þar sem þá er ekkert mál að herða eða slaka á teygjunni. Þú getur keypt teygju HÉRNA

emelineskjort-vivian-tran-talam
Ég fór með 1 dokku af hvorum lit í hvort pils eða aðeins 1.260 kr og stelpurnar mjög ánægðar með þau.

Svo fyrst ég var farin að prjóna loftbólur þá ákvað ég að skella í endurskinshúfur á stelpurnar einnig. Uppskriftin fæst HÉRNA með keyptu garni.

endurskinshufur-boblur3m

Prjónakveðja

  • Guðrún María
Tags: , , , ,

Hafmeyjuteppi

Hafmeyjuteppi hafa verið vinsæl um tíma og flest hafa þau verið hekluð. Ég er lítill heklari svo ég var alltaf að hugsa um að prjóna hafmeyjuteppi. Lét loksins verða af því í sumar að setja saman teppi.

Ég gerði nokkrar tilraunir og endaði á því að nota Kartopu Basak og hafa það tvöfalt. Garnið er mjög hentugt í teppi þar sem það þvælist vel og má henda beint í þvottavél svo það er ekkert stress þó svo að það sullist á teppið.

hafmeyjuteppi

Stína frænka var að koma í heimsókn frá Kaupmannahöfn svo það var tilvalið að hafa teppi tilbúin og mynda hana og sjá hvernig til hefði tekist. Stína sem er 9 ára var alsæl með þetta teppi og pantaði sér eitt stykki í sínum uppáhalds lit.

hafmeyjuteppi1

Aþena ömmugull mátaði minna teppið fyrir mig og að sjálfsögðu pantaði hún fjólublátt, sem er hennar uppáhalds litur núna.

Teppið kemur vel út einlitt sem tvílitt og um að gera að leika sér með litasamsetningar og/eða leyfa börnunum að velja sjálf litina. Teppið sem Stína er í er prjónað úr Basak og Kar-Sim en Aþena er í teppi sem er prjónað úr Basak

Í Bændablaðinu í dag á bls. 49 er uppskriftin af teppunum í þremur stærðum en það er ekkert mál að minnka eða stækka teppin ef maður vill.

Endursöluaðila víða um land má finna HÉR

Prjónakveðja
– Guðrún María

Tags: , , , ,

Rákir herrapeysa – uppskrift í Bændablaðinu

Uppskrift að skemmtilegri herrapeysu er í Bændablaðinu í dag. Peysan er prjónuð úr nýju garni frá okkur, Ketenli Yün sem er blanda af ull, líni og akrýl. Yndislega mjúkt og kósý garn sem svipar til grófleika léttlopa.

Rákir

Það var alveg kominn tími á að hafa eitthvað fyrir karlmenn í blaðinu þar sem ég hef einblínt mikið á barnaföt….kannski meira á stelpur en stráka 🙂

Ég persónulega hef alltaf valið “vandað” ullargarn í mín verkefni og helst þannig að þau þoli þvott í vél. Er ein af þessum sem leiðist þessi handþvottur. Eftir að barnabörnin mín komu til sögunnar sá ég að það sem prjónað var á þau úr garni sem mátti eingöngu handþvo voru bara ekki þvegin nema amma færi með flíkurnar heim og framkvæmdi verkið. Þetta gerði það að verkum að ég einblíni alltaf á þvotta-leiðbeiningar garns.

Elín var spennt fyrir þessu garni og vildi prófa að panta það inn í verslun okkar en ég dró lappirnar en samþykkti síðan að prófa. Það kom mér virkilega á óvart hversu gott það er að prjóna úr og vinna með Ketenli garnið okkar, sem og t.d. Basak sem ég hef einnig verið að prjóna töluvert úr. Eins og margir viðskiptavinir okkar segja akrýl er ekki sama og akrýl, þ.e. akrýlgarn eða akrýlblandað garn er jafn misjafnt að mýkt og gæðum og ullargarn ýmis konar.

Rákir2

Uppskriftin er eins og áður segir á bls 41 í Bændablaðinu í dag en hana getur þú einnig nálgast frítt hjá okkur hér

Garnið fæst einnig hjá Heilsubúðinni Grænumörk í Hveragerði og hjá Draumaland Tjarnargötu 3 í Reykjanesbæ.

Prjónakveðja
Guðrún María

 

Tags: , , ,

Lopavettlingar á leikskólabörnin

Lopavettlingar3_m

Eins og ég hef áður talað um hér á blogginu þá er stutt síðan ég byrjaði að prjóna úr íslenska lopanum. Ég hef ekki neina sérstaka skýringu á því aðra en að hann stingur og mig klæjar undan honum. Ég er aftur á móti alveg forfallin þegar kemur að börnum og Disney get endalaust prjónað eitthvað sem tengist Disney fígúrum og prinsessum.

Barnabörnin mín njóta í dag góðs af því og þegar hún Ása Hildur (Buffaló-Ása) kom með Frozen lopavettlingana í fyrra bara varð ég að heimsækja hana í prjónakaffið í Krika og prjóna eina handa Aþenu. Veit ekki hvor var spenntari fyrir þeim amman eða barnabarnið 🙂

Frozen vettlingar AR merkt

Til að gera langa sögu stutta þá voru þessir vettlingar notaðir í allan vetur og héldu höndum Aþenu hlýjum í kuldanum. Leikskólakennararnir á leikskólanum hennar sögðu mér að þetta væru albestu vettlingar fyrir  börnin þ.e. prjónaðir vettlingar úr lopa. Háir upp á handlegginn og svo þæfist lopinn við notkun í snjó og bleytu þannig að þeir eru afskaplega hlýir.

Það þurfti ekki að sannfæra ömmu meira og prjónaði ég nú í vikunni nýja vettlinga fyrir næsta vetur handa yngstu barnabörnunum mínum. Ég nota áfram uppskriftina hennar Ásu þar sem hún er einstaklega góð að prjóna eftir og smellpassar á litlar hendur. Í ár breytti ég um mynd á þeim eiginlega bara svo Aþena verði ekki aftur með Frozen vettlinga næsta vetur.  Móri fékk Batman vettlinga, Maía fær kanínu (er með fílavettlinga á myndinni en ég þarf að minnka þá aðeins fyrir hana) og Aþena fékk útgáfu af áttablaðarós.

Munstrin eru ekki mín heldur fann ég þau frí á netinu og læt þau fylgja hér með ef þið viljið prjóna þessa góðu vettlinga í fleiri útgáfum.

Lopavettlingar_m

 

Þó svo að það sé ekki kalt í dag þá held ég að Móri verði með vettlingana á höndunum, hann var himinlifandi með þessa Batman vettlinga. Aþena kallar sína Frozen þó svo þeir séu bleikir en Maía er bara glöð að vera með í liðinu.

Lopavettlingar2_m

Aþena Rós, Maía Sigrún og Mattías Móri, þrjú yngstu ömmugullin mín

Hérna finnur þú .pdf skjal

– með munstrunum

– uppskrift af vettlingunum

Prjónakveðja
Guðrún María

Tags: , , , , , , ,

Heklaður skvísu kragi – uppskrift í Bændablaðinu

Ég var að taka til og fara í gegnum alls kyns dót í nýju vinnunni minni (aka nýju búðinni okkar) og fann heklaðann kraga. Mér finnst svona kragar svo flottir og í hvert sinn sem ég sé mynd af svona kraga þá langar mig að hekla svoleiðis. Finnst svo sætt að sjá litlar stelpur í fínum fötum með svona kraga. Og finnst svo töff að sjá flottar týpur með svona kraga.

skvísukragi8

Ég hugsaði með mér að yngri stelpum gæti fundist flott að eiga kraga úr svona glimmer garni og ákvað því að hekla kraga á Maíu dóttir mína og Aþenu systurdóttur. Og þannig varð þessi skvísukragi til. Uppskriftin er í raun sú sama nema ég fækkaði umferðum.

skvísukragi3

skvísukragi1

Aþenu fannst kraginn sem ég heklaði handa henni æðislegur. Hún elskar allt sem er bleikt svo kannski var það nóg…en ég held að henni hafi fundist kraginn flottur líka. Maía kippti sér ekkert sérstaklega upp við sinn kraga, sem er ekkert óeðlilegt þar sem hún er bara 20 mánaða.

Aþena mín var meira en til í að pósa fyrir mig á nokkrum myndum.

skvísukragi5 skvísukragi4

Fröken Maía Sigrún var ekki alveg jafn liðleg og vildi bara borða sand. Myndirnar urðu mjög skemmtilegar fyrir vikið…en ekki alveg myndir sem eiga heima í Bændablaðinu.

skvísukragi6 skvísukragi7

Uppskriftin birtist í Bændablaðinu í dag á bls. 49, einnig er hægt að sækja hana rafrænt hérna á síðunni okkar.

Njótið vel c”,)
Heklkveðjur Elín

Tags: , , ,

Heklað utan um steina – uppskrift í Bændablaðinu

Síðasta sumar heklaði ég utan um stóran stein (sjá blogg) og hefur hann fegrað stigapallinn hjá mér í að verða ár. Í síðustu viku ákvað ég að hekla utan um litla steina svona í tilefni þess að það er að koma sumar aftur og tími til kominn að skreyta aðeins í garðinum. Útkoman varð þessi og er ég barasta sátt. Það væri gaman að gera fleiri steina með ólíkum mynstrum og stilla upp saman. Hef séð myndir af svoleiðis á netinu og það er frekar töff.

IMG_20150510_180243

Bleiki “steinninn” er heklaður með Heklgarni nr. 10 og nál nr. 2,5 (ég hekla mjög fast)

IMG_20150510_180152

 

Gula “steininn” heklaði ég með Kartopu saumatvinna og nál nr. 1,5. Þráðurinn er úr polýester og mikill glans í honum svo hann var soldið “sleipur” en þegar ég var orðin vön að hekla með tvinnanum þá var þetta ekkert mál.

IMG_20150510_175744

Hvíti “steinninn” er svo heklaður með Perlugarni og nál nr. 1,75. Mjög þægilegt að nota perlugarn í þetta verk og væri hægt að hekla marga steina úr einni 10 gr dokku.

IMG_20150510_180130

Þegar er verið að hekla utan um steina er ómögulegt að gera eina ákveðna uppskrift sem gildir yfir alla steina. Síðustu umferðirnar verður að spila af fingrum fram því steinar eru svo ólíkir í lögun. En góðu fréttirnar eru að síðustu umferðirnar er undir steininum og þurfa því ekki að vera fallegar. Ef stykkið tollir utan um steininn þá er allt í góðu.

IMG_20150510_180140
Hinar góður fréttirnar eru að uppskriftina að þessum steinum er að finna í Bændablaðinu sem kom út 13. maí (bls. 49) og hér á síðunni okkar. Garnið sem ég notaði er hægt að kaupa í verslun Handverkskúnstar og er á útsölu á meðan birgðir endast.

Vona að þið hafið jafn gaman af því að hekla utan um steina og ég.
Hekl kveðjur Elín c”,)

 

 

Tags: , , ,

Norskur barnakjóll – frí uppskrift

Clara dress á norska blogginu mynd1

Þegar Maía Sigrún fæddist var ég alveg ákveðin í að nú skyldi ég prjóna fallega kjólinn Clara fyrir eins árs afmælið hennar. Eftir mikið brölt á netinu fann ég loksins leið til að kaupa hann í gegnum netverslun í Bandaríkjunum. Ég varð hins vegar að kaupa garn með til að fá uppskriftina. Þegar garnið kom langaði mig ekki að prjóna kjólinn úr því svo ég ákvað að prjóna úr Drops Baby Alpaca Silk. Kjóllinn reyndist hins vega smellpassa á hana 7 mánaða gamla svo ekki varð þetta afmæliskjólinn hennar.  Þessi fallegi kjóll bíður inni í skáp hjá mér eftir nýjum eiganda og Maía fékk annan afmæliskjól fyrir fyrsta afmælisdaginn sinn 🙂

Clara dress Maía minnkud merkt

Ég fylgist með prjónasíðum á Facebook og þar sá ég stundum umræðu um hvar uppskrift af þessum fallega kjól fengist. Eitt sinn kom fram ábending á norska síðu þar sem uppskrift af honum var birt frítt. Ég hafði samband við Tone sem heldur úti blogginu misemors-hobbyrom.blogspot.no og fékk leyfi hjá henni til þess að þýða kjólinn yfir á íslensku.

aþenu kjoll saman minnkadur

Kjólarnir saman og eins og þið sjáið þá er lítill munur á uppskriftum

Þegar ég las yfir uppskriftina sá ég í raun mjög litla breytingu á uppskriftinni sem ég hafði keypt frá þessari upprunalegu. Uppskriftin er eins að öllu leiti nema úrtaka í hálsmáli er aðeins öðruvísi. Kjóllinn er gefinn upp í stærðum 6-9 mánaða og 1½ árs. Mig langaði ennþá að prjóna kjólinn á Maíu og Aþenu svo ég ákvað að stækka hann upp í stærðir 2 og 4 ára.

Ég valdi mér garnið Sera frá Filatura Di Crosa í kjólana þeirra, fallegt garn með smá glitri í sem hæfir prinsessunum mínum. Garnið keypti ég hjá Bjarkarhól en einnig er hægt að versla það á www.garn.is. Kjólinn hennar Maíu er prjónaður alveg eftir norsku uppskriftinni, á prjóna nr. 4. Ég stækkaði hann ekki að öðru leiti en því að ég síkkaði pilsið á kjólnum og passar hann fyrir 2 ára.

aþenu kjoll minnkadur

Aþenu kjóll er prjónaður eftir uppskriftinni Clara dress á prjóna nr. 4. Ég jók lykkjufjöldann hjá henni og hækkaði berustykki aðeins svo hann smellpassar á 3-4 ára.

aþenu kjoll saman1 minnkadur

Kjólarnir eru gullfallegir, stelpurnar glæsilegar í þeim og amma sátt þar sem nú hefur hún prjónað hinn margumtalaða kjól á þær. Hvort sem við köllum hann Clara dress eða norskur barnakjóll skiptir ekki máli þeir eru 97% eins 🙂

Kjólinn í stærðum 6-9 mánaða og  1½ árs prufuprjónaði Bergey vinkona mín og notaði garnið Dale Baby Ull  á prjóna nr 2,5. Já Bergey gerði prjónfestuprufu og þá kom í ljós að hún þurfti að nota minni prjona en uppskriftin segir til um.  Endilega gerið prjónfestuprufu áður en lagt er af stað í svona fallegan kjól 🙂

Linda Bergey

Dale Baby Ull klikkar ekki og er kjólinn mjög fallegur eins og sjá má á fallegu Lindu Bergey.

 

Norskur barnakjóll, uppskrift – .pdf

Prjónakveðja
– Guðrún María

Tags: , , , , , ,

Hello Kitty teppið

Hello kitty teppi saman partur klippt merkt

Ég ákvað í janúar 2014 að prjóna 3 teppi með tvöfalt prjón aðferðinni. Ömmugullin mín Aþena Rós, Maía Sigrún og Mattías Móri áttu að fá þessi teppi í jólagjöf. Ég hófst handa 8. janúar og ætlaði að prjóna teppin svona inn á milli verkefna fram að jólum 2014. Það kom svo í ljós að ég er aldrei verkefnalaus svo teppið hennar Aþenu varð ekki langt árið 2014. Kláraði eingöngu 54 umferðir af 306 🙂

Hello kitty teppi partur 0 merkt minnkud

2. janúar 2015: Ég  sá að með þessu áframhaldi yrðu teppin seint tilbúin svo ég ákvað að ég mætti ekki prjóna neitt annað fyrr en þetta teppi yrði tilbúið.

Hello kitty teppi partur 1 merkt minnkud

Hello kitty teppi partur 2 merkt

5. janúar: Prjónaskapurinn gengur bara vel. Hér er komið að því að teikna upp nafnið og prjóna. Teppið farið að þyngjast en það var ekki verst heldur var mér orðið ansi heitt að sitja með það í fanginu og prjóna. Vitandi að hitinn ætti bara eftir að aukast dugði ekkert annað en að bíta á jaxlinn og halda áfram. Jú ég mátti ekki byrja á öðru prjónaverkefni fyrr en teppið væri klárt og ég var með svo margt á verkefnalistanum 🙂

Hello kitty teppi partur 3 merkt

7. janúar: Nafnið komið og þá var stór partur búinn. Ég sá fram á að Hello Kitty sjálf færi að myndast hjá mér.

Hello kitty teppi partur 5 merkt minnkud

10. janúar: Aþena er mikill aðdáandi Hello Kitty og fylgdist vel með framvindu mála í prjónaskapnum en þótti amma ansi lengi með teppið

Hello kitty teppi partur 4 merkt minnkud

10. janúar: Hello Kitty tilbúin og ég farin að sjá fyrir endann á teppinu, búin með 206 umferðir og bara 87 umferðir eftir 🙂

Hello kitty teppi saman merkt18. janúar: Teppið tilbúið og nú átti ég bara eftir að hekla kant hringinn í kringum það. Ég sá fyrir mér hvernig kant ég vildi hafa og þar sem ég bý svo vel að eiga heklsnilling, leitaði á náðir hennar Elínar 🙂

Hello kitty teppi partur 9 hekl minnkud

25. janúar: Kanturinn klár og teppið þvegið

Hello kitty teppi partur 8 bleikt merkt minnkad

Hlið A

Hello kitty teppi partur 8 hvítt merkt minnkad

Hlið B

Stærð:
103×142 án heklaða kantsins

Garn:
Special Aran with Wool (keypt í Nettó)
Stóru dokkurnar úr A4 og Hagkaup hafa sömu prjónfestu
Bleikur nr. 3347 – 2 dokkur
Hvítur nr. 3366 – 2 dokkur

Prjónar:
80 sm hringprjónn nr. 5½

Prjónfesta:
16 lykkjur og 22 umferðir = 10×10 sm

Þegar Móri sá teppið tilbúið sagði hann “amma ég vil Spiderman teppi” svo nú er ég að teikna það upp og svo verður hafist handa við prjónaskapinn. Teppið hennar Maíu Sigrúnar er ég búin að teikna upp en þar sem hún er yngst (14 mánaða) verður hún síðust í röðinni 🙂 Teppin þeirra verða þó prjónuð á þessu ári. En nú ætla ég að leyfa mér að prjóna nokkur stykki áður en ég fer í teppaprjón aftur 🙂

Uppskrift af teppinu má nálgast hérna (verður að smella á HK teppi vinstra megin, til að hlaða því niður í Excel formi).

Prjónakveðja – Guðrún María

Tags: , , ,

Októberprjón og frí sokkauppskrift

Aldrei slegið slöku við í prjónaskapnum á þessum bæ, listinn yfir óprjónaða hluti styttist þó ekki þar sem ég er sífellt að fá nýjar hugmyndir og finna uppskriftir af einhverju sem mig langar til að prjóna….eða eins og ég segi: ég bara verð að prjóna þetta. Það kannast nú örugglega fleiri prjónakonur við þetta vandamál mitt 🙂

ZigZag sokkar saman_merkt2Frí uppskrift af þessum fallegu sokkum í þessu bloggi

 

Ég er Disney aðdándi og hef mikið gaman af því að prjóna eitthvað sem tengist þeim teiknimyndum sem eru í gangi hverju sinni. Núna er það teiknimyndin um Frozen prinsessuna Elsu sem flæðir um allt og prjónaðar eru margar flíkur henni til heiðurs. Glitrið í flíkunum er sennilega það sem heillar litlu stelpurnar sem ljóma í flíkum prjónuðum af mömmu, ömmu, frænku eða vinkonu.

Frozen peysa:
Frænka mín hún Þórdís Halla fékk þessa peysu í 7 ára afmælisgjöf.
Uppskriftin er úr Óveðursblaðinu og heitir Bylur, einnig er hægt að kaupa uppskriftina beint frá höfundi á netfangið steinunnbirna@gmail.com
Garn: Easy Care Big og Kartopu Kar-sim
Prjónar: númer 5

Frozen Þórdís2 merkt minnkudFallega Þórdís Halla

Frozen Þórdís merkt minnkud

 

Frozen kjóll:
Aþena ömmugull er einnig mikill aðdánandi að Frozen og fékk hún kjól sem hún er alsæl með.

Uppskrift: kjóllinn er uppúr mér en munstrið úr peysunni Byl er notað.
Garn: Sunseek garn frá handprjón.is
Prjónar: númer 4½

sameinud_minnkud merkt
Aþena kát í kjólnum

Frozen kjóll Aþena merkt minnkud

 

Frozen vettlingar:
Ég átti afgang af Easy Care garninu og prjónaði því eina Frozen klukkuprjónsvettlingar á prjóna nr 5.

Frozen vettlingar Easy Care Big merkt minnkud


Ljónahúfa Móra
Móri ömmugull hefur gaman af gröfum og ljónum. Ég teiknaði þessa húfu fyrr á þessu ári og var ákveðin í að prjóna handa honum ljónahúfu fyrir veturinn. Hann var alsæll með húfuna og tekur hana nánast ekki niður. Aþena fékk Hello Kitty húfu. Báðar prjónaðar með tvöfalt prjón tækninni, hlýjar og góðar húfur í vetur.

Uppskrift sem ég setti saman í kringum ljónið sem ég fann á netinu.
Garn: Heritage sock frá handprjón.is
Prjónar: nr 3½

ljónahúfa og Hello KittyMóri og Aþena sæl með nýju húfurnar sínar

Ljónahúfa sameinuð merkt minnkud

Gíraffa vettlingar:
Rakst á þessa skemmtilegu vettlinga á síðunni hennar Jorid. Þessa bara varð ég að prjóna en ég átti garn sem gekk af þegar ég prjónaði ljónahúfuna þannig að Gíraffa vettlingar urðu fljótprjónaðir.

Uppskrift: Jorids mønsterbutikk
Garn: Heritage sock frá handprjón.is
Prjónar: nr 3½

 Gíraffavettlingar merkt minnkud

 

Jólasokkar fyrir hnífapörin
Svona sokka sá ég á netinu í fyrra en þar sem ég fann ekki uppskrift prjónaði ég mína eigin. Þeir eiga eftir að taka sig vel út með hnífapörunum á  jólaborðinu í ár.

Uppskrift: Jólasokkar, frí uppskrift frá Handverkskúnst
Garn: Kartopu Kar-Sim, frá garn.is

Jólasokkur hnífapör hvítmerkt og m

 

Um miðjan október ákvað ég að fara með Guðmundu dóttur minni á Jólahandverksmarkað í Sjóminjasafninu þann 16. nóvember. Ég hef ekki farið áður á svona sölumarkað en þar sem ég á eitthvað af prjónavörum og hef prjónað smávegis til viðbótar verður þetta bara skemmtilegt.  Nokkrir vettlingar og sokkar hafa verið prjónaðir í þeim tilgangi að selja í nóvember.

Kanínuvettlingar 3-4 ára
Ég er svona að móta vettlinga fyrir þau yngstu sem ná aðeins uppá handlegginn. Þægilegir vettlingar á leikskólann og rólóvöllinn.

Uppskrift: Ég að fikta
Garn: Kambgarn
Prjónar: nr 3

Kanínuvettlingar merkt minnkud

 

Tilbrigði við “Litríku vettlingana”
Þessa vettlinga er að finna í bókinni Vettlingaprjón eftir Guðrúnu S. Magnúsdóttur. Ég notaði stroffið á þeim en ákvað að hafa þá einlita og setja kaðal á framhlíð til að skreyta þá aðeins.

Stærð: 7-8 ára
Garn:  Kambgarn
Prjónar: nr 3,25

tilbrigði við litríku vettlingana merkt minnkud

 

Miðfell 2
Rauðir/orange/bláir vettlingarnir, úr bókinni Hlýjar hendur eftir Ágústu Þóru Jónsdóttur

Uppskrift: Miðfell 2
Stærð: 6-7 ára
Garn: Kambgarn
Prjónar: nr 3

Miðfell 2 Kambgarn merkt minnkud

 

Leikskólavettlingar:
Þægilegir vettlingar, háir upp og renna ekki léttilega af litlum höndum.

Uppskrift: Fikt í mér
Stærðir: 1-2 og 3-4 ára
Garn: Smart
Prjónar: nr 3½

Smart vettlingar merkt minnkud

 

Barnasokkar
Þessir voru prjónaðir eftir uppskrift frá Bitta Mikkelborg. Það eru fullorðinssokkar en ég notaði fínna garn og fékk þessa fínu barnasokka

Uppskrift: Ryggesokker
Skóstærð: 26-27
Garn: Lane Cervinia Strømpegarn
Prjónar: nr 3½

Ryggesokker merkt minnkud

 

Vilje sokkar
Þessa sokka er að finna í bókinni hennar Bitte Sokker – strikkning hele året . Mér þykja þessir sokkar afskaplega fallegir og hef prjónaða þá áður.

Uppskrift: Vilje
Skóstærð: 37-38
Garn: Tove ullargarn frá Sandnes
Prjónar: nr 3½

Vilje sokkar merkt minnkud

Fallegt munstur á þessum sokkum

Vilje sokkar nærmynd merkt minnkud

Zig-Zak sokkar
Þetta zig-zak munstur kemur skemmtilega út á sokkum. Ég sá sokka á Ravelry með þessu munstri og prjónaði þessa bláu. Prjónaði síðan aðra á grófari prjóna ogsá þá að þessa uppskrift er hægt að nota í margar stærðir af sokkum. Þú stýrir stærðinni með misgrófu garni og prjónum, lengd á fæti er síðan eftir því hver verðandi eigandi er.

Uppskrift: Zig-Zak sokkar, frí uppskrift frá Handverkskúnst
Skóstærð: 26-28 /36-38
Aldur: (3-5 ára) / (8-10 ára)
Garn: Smart frá Sandness eða Dale Falk
Prjónar: nr 3,25 (bláu sokkarnir) eða nr 4 (bleiku sokkarnir)

Zig-Zag sokkar Smart merkt minnkud2Smart garn á prjóna nr 3,25

ZigZag sokkar Dale Falk_merktDale Falk á prjóna nr 4

Sokkauppskriftin:

Garn: Ég notaði Smart í bláu sokkana og Dale Falk fyrir bleiku sokkana, 2 dokkur í báðar stærðir
Prjónar: Sokkaprjónar nr 3 fyrir minni sokkana,  sokkaprjónar nr 4 fyrir stærri sokkana.
Prjónfesta:
28 lykkjur á prjóna nr 3 = 10 sm
24 lykkjur á prjóna nr 4 = 10 sm
Stærðir:
Bláu sokkarnir eru í skóstærð: 26-28 (3-5 ára)
Bleiku sokkarnir eru í skóstærð: 36-38 (8-10 ára)

Útskýringar á skammstöfunum:
v: prjónið framan og aftan í lykkjuna
4S: prjónið 4 lykkjur slétt
1Ó+2Ss+STY: ein lykkja tekin óprjónuð, tvær lykkjur prjónaðar sléttar saman, óprjónuðu lykkjunni steypt yfir
sm: sentimetrar
B: prjónið bruðið
S: prjónið slétt
s: saman
2Szs: prjónið 2 lykkjur slétt saman í gegnum aftir lykkjuboga á báðum lykkjum
Sz: prjónað slétt aftan í lykkjuna; í aftari lykkjubogann

ZigZak munstur:
Umferð 1: prjónið slétt
Umferð 2: prjónið *v, 4S, 1Ó+2Ss+STY, 4S, v* endurtakið *-* út umferðina.


Aðferð:
Fitjið upp 52 lykkjur og prjónið stroff 2 slétt, 2 brugðið, 2½ sm. Skiptið yfir í ZigZag munstur og prjónið þar til stykkið mælist 16-17 sm

Hællstykki:
Hællstykkið er prjónað yfir 26 lykkjur á prjóni 3 og 4 en lykkjur á prjóni 1 og 2 eru geymdar á meðan; snúið við og prjónið:

Umferð 1 (frá röngunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið brugðið út umferðina = 26 lykkjur
Umferð 2 (frá réttu): *takið 1 lykkju óprjónaða, prjónið 1 lykkju slétt* endurtakið frá *-* út umferðina. = 26 lykkjur

Endurtakið þessar tvær umferðir þar til;
Minni sokkur: 20 umferðir hafa verið prjónaðar, endið á umferð frá réttunni.
Stærri sokkur: 24 umferðir hafa verið prjónaðar, endið á umferð frá réttunni.

Hælúrtaka:
Umferð 1 (frá röngunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið 14B, 2Bs, 1B, snúið við
Umferð 2 (frá réttunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið 5S, 2Szs, 1S snúið við
Umferð 3: Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið brugðið þar til 1 lykkja er að gatinu, 2Bs, 1B, snúið við
Umferð 4: Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið slétt þar til 1 lykkja er að gati, 2Szs, 1S, snúið við
Endurtakið umferðir 3 og 4 þar til allar lykkjur hafa verið prjónaðar = 16 lykkjur

Skiptið þeim á 2 prjóna og takið upp á hlið hælsins:
Minni sokkur: 10 lykkjur
Stærri sokkur: 14 lykkjur

Umferðin byrjar nú á miðjum hæl (undir il) og er prjónað slétt yfir prjón 1 og 4 en munstur yfir lykkjur á prjóni 2 og 3.
Minni sokkur: nú eru 18 lykkjur á prjóni 1 og 4 en 13 lykkjur á prjóni 2 og 3
Stærri sokkur: nú eru 22 lykkjur á prjón 1 og 4 en 13 lykkjur á prjóni 2 og 3.

Prjónið eina umferð slétt á prjóni 1 og 4, ATH: prjónið lykkjur á hælstykki Sz og munstur á prjóni 2 og 3.

Úrtaka á aukalykkjum:
Prjónn 1: prjónið þar til 3 lykkjur eru eftir á prjóninum, 2Ss, 1S,
Prjónn 2: prjónið munstur
Prjónn 3: prjónið munstur
Prjónn 4: 1S, 2Szs, prjónið slétt út prjóninn

Prjónið 1 umferð án úrtaka (prjónið slétt á prjónum 1 og 4 en munstur yfir prjóna 2 og 3)
Endurtakið þessar tvær umferðir þar til 13 lykkjur eru eftir á prjóni 1 og 4.
2Szs: prjónið 2 lykkjur slétt saman í gegnum aftir lykkjuboga á báðum lykkjum
Sz: prjónað slétt aftan í lykkjuna; í aftari lykkjubogann

ZigZak munstur:
Umferð 1: prjónið slétt
Umferð 2: prjónið *v, 4S, 1Ó+2Ss+STY, 4S, v* endurtakið *-* út umferðina.

Sokkur:
Fitjið upp 52 lykkjur og prjónið stroff 2 slétt, 2 brugðið, 2½ sm. Skiptið yfir í ZigZak munstur og prjónið þar til stykkið mælist 16-17 sm

Hællstykki:
Hællstykkið er prjónað yfir 26 lykkjur á prjóni 3 og 4 en lykkjur á prjóni 1 og 2 eru geymdar á meðan; snúið við og prjónið:

Umferð 1 (frá röngunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið brugðið út umferðina = 26 lykkjur
Umferð 2 (frá réttu): *takið 1 lykkju óprjónaða, prjónið 1 lykkju slétt* endurtakið frá *-* út umferðina. = 26 lykkjur

Endurtakið þessar tvær umferðir þar til;
Minni sokkur: 20 umferðir hafa verið prjónaðar, endið á umferð frá réttunni.
Stærri sokkur: 24 umferðir hafa verið prjónaðar, endið á umferð frá réttunni.

Hælúrtaka:
Umferð 1 (frá röngunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið 14B, 2Bs, 1B, snúið við
Umferð 2 (frá réttunni): Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið 5S, 2Szs, 1S snúið við
Umferð 3: Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið brugðið þar til 1 lykkja er að gatinu, 2Bs, 1B, snúið við
Umferð 4: Takið fyrstu lykkju óprjónaða, prjónið slétt þar til 1 lykkja er að gati, 2Szs, 1S, snúið við
Endurtakið umferðir 3 og 4 þar til allar lykkjur hafa verið prjónaðar = 16 lykkjur

Skiptið þeim á 2 prjóna og takið upp á hlið hælsins:
Minni sokkur: 10 lykkjur
Stærri sokkur: 14 lykkjur

Umferðin byrjar nú á miðjum hæl (undir il) og er prjónað slétt yfir prjón 1 og 4 en munstur yfir lykkjur á prjóni 2 og 3.
Minni sokkur: nú eru 18 lykkjur á prjóni 1 og 4 en 13 lykkjur á prjóni 2 og 3
Stærri sokkur: nú eru 22 lykkjur á prjón 1 og 4 en 13 lykkjur á prjóni 2 og 3.

Prjónið eina umferð slétt á prjóni 1 og 4, ATH: prjónið lykkjur á hælstykki Sz og munstur á prjóni 2 og 3.

Úrtaka á aukalykkjum:
Prjónn 1: prjónið þar til 3 lykkjur eru eftir á prjóninum, 2Ss, 1S,
Prjónn 2: prjónið munstur
Prjónn 3: prjónið munstur
Prjónn 4: 1S, 2Szs, prjónið slétt út prjóninn

Prjónið 1 umferð án úrtaka (prjónið slétt á prjónum 1 og 4 en munstur yfir prjóna 2 og 3)
Endurtakið þessar tvær umferðir þar til 13 lykkjur eru eftir á prjóni 1 og 4.

Prjónið nú áfram án úrtaka þar til lengd á sokk er 4 sm styttri en rétt lengd á að vera.

Úrtaka á tá:
Nú er prjónað slétt yfir allar lykkjur, prjónið úrtökuumferð þannig:

Prjónn 1: prjónið slétt þar til 3 lykkjur eru eftir 2Ss, 1S
Prjónn 2. 2Sz, prjónið slétt út prjóninn
Prjónn 3: prjónið slétt þar til 2 lykkjur eru eftir 2Ss
Prjónn 4: 1S, 2Szs, prjónið slétt út prjóninn

Prjónið 3 umferðir án úrtöku
Prjónið úrtökuumferð
Prjónið 2 umferðir án úrtöku
Prjónið úrtökuumferð
Prjónið 1 umferð án úrtöku
Takið nú í hverri umferð þar til 16 lykkjur eru eftir, prjónið þá 2 lykk jur slétt saman út umferðina = 8 lykkjur eftir. Slítið bandið frá og dragið í gegnum þær sem eftir eru.

Gangið frá endum, þvoið sokkana og leggið til þerris.

 

Zig-Zag sokkar Smart nærmynd_merktNærmynd af munstri sokkanna
ZigZag sokkar Dale Falk nærmynd_merkt

Sokkauppskriftina á pdf formi má nálgast hér

Eigið góða helgi

– Prjónakveðja frá Guðrúnu Maríu

Tags: , , , , , , , , , , , , ,

Handverkskúnst notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec
  • devicePixelRatio

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á handverkskunst.is

  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur