Category Archives: Leiðbeiningar

Að prjóna loftbólur eða sjømannsbobler

emelineskjort-navia-duo-2m

Ég rakst á mjög skemmtilega norska síðu síðast liðinn vetur en þar bloggar Vivian Tran um ýmislegt áhugavert. Hún hannar og prjónar mjög fallegar barnaflíkur og gefur uppskriftir af mörgum þeirra á síðunni. Ég er með nokkrar þeirra á lista hjá mér og lét verða af því að prjóna pilsið Emelineskjørt á ömmugullin mín Aþenu og Maíu í síðustu viku.

Pilsin eru prjónuð með einfaldri en skemmtilegri aðferð sem heitir á norsku sjømannsbobler – ég velti lengi fyrir mér hvort það væri til íslenskt heiti á þetta munstur en fann ekki svo ég kalla þetta loftbólur þar til einhver bendir mér á annað heiti.

Ég valdi mér garnið Navia Duo og eru pilsin létt og hlý fyrir gullin mín að nota í vetur á leikskólann. Aftur á móti er ég meira fyrir að hafa teygju í mittið á börnum og nota svona snúrur frekar sem skraut. Ég breytti því aðeins út af uppskriftinni og gerði tvöfaldan kant til að geta þrætt teygju í og setti svo kant neðan á pilsin í staðinn fyrir stroff bara til að hafa smá samræmi þarna á milli.

Ég fékk leyfi til að þýða uppskriftina yfir á íslensku og hér kemur hún.

emelineskjort-vivian-tran

Emelineskjørt

Stærðir: 1-2 (3-6) 7-10 ára
Prjónar: Hringprjónn 40-60 sm, nr 3 og 3,5
Garn: Ég notaði NAVIA DUO og Drops Merino Extra Fine kemur líka vel út
Supewash frá Europris ljósdrapp 50 (50) 100 og bleikt 50 (100) 150 gr
Prjónfesta: 22 lykkjur á prjóna nr 3,5 = 10 sm

Fitjið upp 105 (118) 131 lykkjur með ljósdrapp á prjóna nr 3, setjið prjónamerki og tengið í hring. Prjónið stroff (1 slétt, 1 brugðin) 2 (2,5) 3 sm, prjónið nú göt fyrir snúruna þannig: prjónið *8 lykkjur slétt, 2 lykkjur slétt saman, sláið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina. Prjónið síðan áfram stroff (1 slétt, 1 brugðin) þar til stykkið mælist um 4 (5) 6 sm.

Skiptið yfir á hringprjón nr 3,5 og slétt prjón en jafnið lykkjufjölda í fyrstu umferð í 116 (132) 148 lykkjur jafnt yfir umferðina.

*Prjónið nú með bleiku 4 umferðir slétt og nú er komið að loftbólum.
Skiptið yfir í ljósdrapp og prjónið þannig: *látið 1. lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp.

Prjónið 4 umferðir slétt með bleiku.
Prjónið með ljósdrapp þannig: 2 lykkjur slétt *látið næstu lykkju rakna niður 4 umferðir og prjónið þræðina 4 ásamt neðstu lykkjunni slétt saman, prjónið 3 lykkjur slétt* Endurtakið frá *-* út umferðina og endið á 1 lykkja slétt.
Prjónið 1 umferð slétt með ljósdrapp*

Endurtakið frá *-*  sem myndar loftbólumunstrið þar til stykkið mælist 20 (25) 30 sm eða sú lengd sem passar. Skiptið yfir á hringprjón nr 3 og prjónið storff (1 slétt, 1 brugðin) um 2 sm. Fellið af allar lykkjur.

Prjónið snúru til að þræða í mittið eða setjið borða.  HÉR og HÉR eru linkar á videró sem sýna hvernig á að prjóna loftbólur (sjømannsbobler).

Það kom sér aldeilis vel að eiga snúruvél frá PRYM ég var í 10 mínútur að gera i-cord snúru um 70 sm langa.

Eins og áður sagði gerði ég tvöfaldan kant þannig: fitjaði upp 118 lykkjur og prjónaði slétt prjón fram og til baka 5 sm, prjónaði 1 umferð brugðið, setti prjónamerki og tengdi í hring. Prjónaði slétt prjón 2,5 sm og gerði þá gataröðina eins og kemur fram í uppskriftinni og síðan slétt prjón aftur þar til komnir voru 5 sm. Nú prjónaði ég 1 umferð slétt en braut um leið kantinn inn og prjónaði með (má einnig sama hann niður eftir á).

taka-upp-lykkjur-a-steng           taka-upp-lykkjur-a-steng2

Hérna er ég búin að þræða lykkjur á aukaprjón, síðan prjóna ég 1 lykkju af hringprjón og 1 lykkju af                        aukaprjóni slétt saman

Ég prjónaði síðan 1 umferð þar sem ég jafnaði lykkjufjölda í 132 lykkjur og prjónaði pilsið að öðru leiti eins og uppskriftin segir til um en endaði á því að prjóna með ljósdrapp 2 sm slétt, 1 gataröð þannig: *2 slétt saman, sláið bandið uppá prjóninn* endurtakið frá *-* út umferðina, síðan tæpa 2 sm slétt og fellið af allar lykkjur. Brjótið faldinn inn og saumið niður.

Hnappagatateygja er mjög sniðug þar sem þá er ekkert mál að herða eða slaka á teygjunni. Þú getur keypt teygju HÉRNA

emelineskjort-vivian-tran-talam
Ég fór með 1 dokku af hvorum lit í hvort pils eða aðeins 1.260 kr og stelpurnar mjög ánægðar með þau.

Svo fyrst ég var farin að prjóna loftbólur þá ákvað ég að skella í endurskinshúfur á stelpurnar einnig. Uppskriftin fæst HÉRNA með keyptu garni.

endurskinshufur-boblur3m

Prjónakveðja

 • Guðrún María
Tags: , , , ,

Ég lærði nýtt prjón um helgina

Ég vafra mikið um netið og sé oft fallega prjónaða og heklaða hluti. Sumt af því kann ég ekki og annað hef ég ekki séð áður en ef það vekur áhuga minn set ég það á “to do” listann minn yfir eitthvað sem ég ætla mér að læra. Ég prjóna mikið en það er samt ótrúlegt hvað hægt er að rekast á sem maður hefur ekki séð áður. Eitt af því var þetta prjón “Daisy stitch eða Star Stitch Pattern” sem ég veit ekki íslenskt heiti á, en mér þykir þetta fallegt að sjá og ekki skemmir fyrir að þetta er einfalt að prjóna.

http://www.woollywormhead.com

http://www.woollywormhead.com

Munstrið prjónað fram og til baka: Margfeldi af 4 lykkjur + 1

Umferð 1 (réttan): slétt

Umferð 2: Prjónið 1 lykkju brugðið, *prjónið stjörnu, 1 lykkja brugðin* endurtakið *til* út umferðina

Umferð 3: slétt

Umferð 4: Prjónið 3 lykkjur brugðið, prjónið stjörnu, *1 lykkja brugðin,prjónið stjörnu* endurtakið *til* út umferðina

Stjarna: prjónið 3 lykkjur brugðið saman en ekki sleppa þeim af vinstri prjóni, sláið bandið uppá prjóninn og prjónið aftur brugðið í sömu 3 lykkjurnar.

Endurtakið þessar 4 umferðir sem mynda munstrið og ef þú prjónar með tveimur eða fleiri litum skiptir þú um lit í annarri hverri umferð (sléttu umferðinni)

Að prjóna í hring er aðeins öðruvísi en þá er munstrið margfeldi af 4. Vettlingarnir sem ég prjónaði eru á ca 4ra ára barn og prjónaði ég þá úr Sisu garni á prjóna nr. 2,5 og 3. Grófara garn gefur stærri vettlinga 😉

Vettlingauppskrift

Byrjaði á stroffinu og fitjaði upp 48 lykkjur á prjóna nr, 2,5 og prjónaði stroff 1 slétt og 1 brugðin 6sm. Skipti yfir á prjóna nr. 3 og prjónaði eina umferð slétt prjón og jók út í fyrstu umferð um 8 lykkjur = 1. umferð í munstri.

Munstrið prjónað í hring, margfeldi af 4:

Umferð 1; prjónið slétt

Umferð 2: *prjónið stjörnu, prjónið 1 lykkju brugðna* endurtakið *til* út umferðina

Umferð 3: prjónið slétt

Umferð 4: takið 1 lykkju óprjónaða, prjónið 1 lykkju brugðið *prjónið stjörnu, prjónið 1 lykkju brugðið* endurtakið *til* þar til 2 lykkjur eru eftir. Færið þá fyrstu lykkju umferðar yfir á prjóninn sem hefur þessar tvær lykkju eftir og prjónið stjörnu.

Færið síðustu lykkju á hægri prjóni aftur yfir á vinstri prjón þannig að hún er nú fyrsta lykkja næstu umferðar (þessi lykkja er prjónuð tvisvar sinnum, einu sinni sem síðasta lykkja fyrri umferðar og aftur sem fyrsta lykkja næstu umferðar).

Stjarna: prjónið 3 lykkjur slétt saman en ekki sleppa þeim af vinstri prjóni, sláið bandið uppá prjóninn og prjónið aftur slétt í sömu 3 lykkjurnar.

Ég notaði 2 liti, bleikan og hvítan til skiptis og skipti um lit í hverri sléttri umferð

sýna prjónið

 prjóna 3 slétt saman, ekki sleppa þeim af vinstri prjóni, slá bandið uppá prjóninn og

og aftur 3 saman

prjóna aftur slétt í sömu 3 lykkjurnar

passa að þær raðist rétt copy

Þegar stjarnan er prjónuð passið að lykkjurnar haldist í réttri röð, þannig að bandið sem slegið er uppá prjóninn verði á milli lykkjanna.

sýna hvernig næsta umferð er prjónuð copy

Stjarnan í næstu umferð myndast með því að prjóna saman lykkjurnar 3 þe. síðustu lykkju úr stjörnu, brugðnu lykkjuna og fyrstu lykkju og næstu stjörnu. Þannig koma þeir í zik zag upp vettlinginn.

Þetta er eins og ég sagði smá seinlegt þar sem færa þarf fyrstu lykkju umferðar fram og aftur á samskeytum en gekk samt vel 🙂

Ég prjónaði 9,5 rendur og merkti ég fyrir þumli í sömu umferð og ég gerði stjörnur (umferð 4 í munstri), á prjóni nr. 3. Prjónaði 1 lykkju, sleit þráðinn frá, prjónaði síðan 11 lykkjur á aukaband, hélt síðan áfram að prjóna umferðina.

þumallykkjur prjónaðar

 

Næsta umferð á eftir var slétt og prjónaði ég þá yfir lykkjurnar sem voru á aukaþræði.  Prjónaði síðan vettlinginn áfram upp þar til hann mældist 11 sm frá stroffi og hófst þá úrtaka.

Þumalmerking

Þegar kom að úrtöku ákvað ég að hafa hana einlita en með stjörnumunstri áfram. Prjónaði þannig:

Prjónn 1: 1 lykkja slétt, 2 lykkjur snúið slétt saman, prjónaði stjörnumunstur út prjóninn

Prjónn 2: prjónið stjörnumunstur þar til 3 lykkjur eru eftir, prjónið 2 lykkju slétt saman, 1 lykkja slétt

Prjónn 3: eins og prjónn nr. 1

Prjónn 4: eins og prjónn nr. 2

Þegar ég átti 22 lykkjur eftir þótti mér vettlingurinn orðinn nógu langur og hætti hér. Sleit bandið frá og dró í gegnum lykkjurnar sem eftir voru.

Þumall: Ég ákvað að hafa hann einlitan en með munstri.

lykkjur í þuma

Þræðið prjón í lykkjurnar sitthvoru megin við afgangsgarnið sem notað var. Það er smá erfitt að sjá lykkjurnar fyrir ofan en þegar þær eru komnar á prjón einnig þræðið þá afgangsgarnið úr. Prjónið 1 umferð slétt og takið upp 1 lykkju í hvoru viki = 24 lykkjur á þumli. Prjónið munstur þar til þumallinn er 4 sm.

Úrtaka á þumli: prjónið 2 lykkjur slétt saman út umferðina, prjónið 1 umferð án úrtöku, prjónið 2 lykkjur slétt saman út umferðina. Slítið bandið frá og dragið í gegnum lykkjurnar sem eru eftir.

tilbúnir fyrir þumal

Vettlingarnir tilbúnir og næsta skref er að ganga frá endum og þvo þá.

tilbúnir

Sátt við þessa vettlinga og sem eiga eftir að sóma sér vel á litlum höndum einhverrar stúlku 🙂

Hér er uppskriftin á pdf formi

Prjónakveðja

– Guðrún María

 

 

Tags: , , ,

Lambhúshetta – frí uppskrift

Þessa lambhúshettu prjónaði ég fyrst í kringum 1995 á dætur mínar.
Flott húfa til að nota garnafganga í og fer einstaklega vel innan undir hettur t.d. á snjógöllum.
Ég veit ekki hvaðan uppskriftin er upphaflega en hún var mikið prjónuð
á þeim vinnustað sem ég vann á, á þessum tíma.

lambúshetta

Garn: Lanett 100% ull, Dale garn 100% ull
Prjónar: nr. 2,5
Ummál húfu: 46 cm

Fitja upp 60 lykkjur og prjóna 2 slétt og 1 brugðin á réttunni en 2 brugnar og 1 slétt á röngunni. Prjónið 40 umferðir. Geymið stykkið og prjónið annað eins. Sameinið stykkin á hringprjón og prjónið áfram 2 slétt og 1 brugðin í hring 25 umferðir.

Prjónið þá slétt og byrjið á mynstri 1, síðan mynstur 2 og 3. Því næst eru prjónaðir garðar svona: Ein umferð slétt í lit nr. 1 og önnur umferð brugðin. Síðan ein umferð slétt í lit nr. 2 og önnur umferð brugðin. Svo ein umferð slétt með lit nr. 1 og þegar farið er að prjóna seinni umf þá fella af 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur brugðið, felllið 38 lykkjur af mjög laust og prjónið rest brugðið. Nú eru komnir 3 garðar. Í næstu umferð er fitjað upp aftur þessar 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur slétt með lit nr. 1, fitjið upp 38 lykkjur mjög laust með öðru bandi og prjónið þær slétt með í hringinn og svo áfram út prjóninn, síðan einn hring brugðið. Síðan einn hring slétt í lit nr. 2 og önnur brugðin. Prjónið svo áfram mynstur og byrjið á mynstri nr. 4, svo nr. 2 og loks nr. 1. Prjónið þá einn garð í lit nr. 1 og annan garð í lit nr. 3 á sama hátt og fyrr í húfunni. Síðan mynstur nr. 1 en víxla litum, svo mynstur nr. 2 og enda á mynstri nr. 3.

Úrtaka: Prjónið með aðallit *2 lykkjur saman og 10 lykkjur slétt* prjónið frá * að * allann hringinn. Fellið svona af í annarri hverri umferð með 1 lykkju færri á milli þar til 6-8 lykkjur eru eftir prjóna þá nokkrar umferðir. Slétt slítið frá og dragið bandið í gegn.

Lambhúshetta_mynstur

Þið getið einnig sótt ykkur uppskriftina í pdf skjali með því að smella hér.

Mbk
Guðrún María

Hekla saman ferninga #3


Fastapinnar að framan
Þessi aðferð er frábær til þess að tengja saman ferninga 
sem eru ekki allir í sama lit. Þessi aðferð hentar best 
ef allir ferningarnir hafa jafn margar lykkjur.


Leggið ferningana saman með réttuna út á við. 
Stingið nálinni í aftari hluta lykkjunar í hvorum ferning.
Gerið fastapinna.Í hornunum geri ég fastapinna utan um loftlykkjurnar en ekki ofan í þær.
Ef hornið er 3 loftlykkjur þá geri ég 2 fastapinna þegar ég fer í hornið í fyrsta sinn. Í annað sinn geri ég 1 fastapinna og geri 1 loftlykkju svo það myndist ekki tog þegar ég fer yfir fastapinnana sem eru þar fyrir.
(smellið á myndirnar til þess að stækka þær)Nokkrar myndir af ferningum
sem eru tengdir saman með þessari aðferð: 
Brúnirnar á tengingunni eru frekar upphleyptar fyrst um sinn. 
Með tímanum minnkar það því það teygist úr teppinu þegar það er notað.


Stundum getur verið erfitt að koma orðum að einföldum hlutum.
Ef þér finnst leiðbeiningarnar ekki nógu skiljanlegar 
eða þú rekst á villur endilega láttu mig vita svo ég geti gerti betur

Hekla saman ferninga #2

Keðjulykkjur að framan

Þetta er hin fínasta aðferð, einföld og þægileg. 
Ég hef ekki notað hana lengi en nota hana stundum
þegar ég er að hekla saman ferninga sem hafa allir sama litinn
í síðustu umferð líkt og Sarafiu ferningarnir hafa.


Leggið ferningana saman með réttuna út á við. 
Stingið nálinni í aftari hluta lykkjunar í hvorum ferning.
Gerið keðjulykkju.

Í hornunum eru líka gerðar keðjulykkjur í loftlykkjurnar.
Þegar þú ferð yfir hornið í annað sinn 
er gott að gera eina loftlykkju svo það myndist ekki tog 
þegar farið er yfir keðjulykkjurnar sem eru þar fyrir.
(smellið á myndirnar til þess að stækka þær)

Hér sérðu hvernig þetta kemur út með öðrum lit
en aðallitnum. 
Hér sérðu hvernig þetta lítur út þegar aðalliturinn
er notaður til þess að tengja saman ferningana. 

Brúnirnar á tengingunni eru frekar upphleyptar fyrst um sinn.
Með tímanum minnkar það því það teygist úr teppinu þegar það er notað.


Stundum getur verið erfitt að koma orðum að einföldum hlutum.
Ef þér finnst leiðbeiningarnar ekki nógu skiljanlegar 
eða þú rekst á villur endilega láttu mig vita svo ég geti gerti betur

Hekla saman ferninga #1


Keðjulykkjur að aftan

Þetta er ein uppáhalds aðferðin mín
og ég nota hana mest af öllum til að tengja saman ferninga.
Hún hentar best þegar allir ferningar hafa jafnmargar lykkjur allan hringinn.


Leggið ferningana saman með rönguna út á við.
Stingið nálinni í aftari hluta lykkjunar í hvorum ferning.
Gerið keðjulykkju.

Í hornunum eru líka gerðar keðjulykkjur í loftlykkjurnar.
Þegar þú ferð yfir hornið í annað sinn
er gott að gera eina loftlykkju svo það myndist ekki tog
þegar farið er yfir keðjulykkjurnar sem eru þar fyrir.
(smellið á myndirnar til að stækka þær)


Hér sést blái liturinn aðeins í gegn.
En þegar notaður er sami litur og er í ferningnum sést ekkert.


Hér sést hvernig fremri hlutar lykkjanna leggjast saman á réttunni
og gera tenginguna svo fallega.Stundum getur verið erfitt að koma orðum að einföldum hlutum.
Ef þér finnst leiðbeiningarnar ekki nógu skiljanlegar
eða þú rekst á villur endilega láttu mig vita svo ég geti gerti betur
handodi.heklarinn@gmail.com

5 góð ráð þegar stífa á hekl eða prjón


Á að fara að stífa snjókorn eða dúka? Þá er gott að hafa eftirfarandi í huga:

 1. Veldu rétta gerð af stífelsi fyrir þitt verkefni.
  Ef þú ert ekki viss þá getur þú athugað þessa bloggfærslu um stífelsi.
 2. Veldu undirlag.
  Hægt er að nota kork, frauðplast, pappa og ýmislegt annað. Mæli með því að þú setjið smjörpappír undir snjókornið því annars festist það við undirlagið.
 3. Veldu rétta títuprjóna.
  Þú verður að nota ryðfría títuprjóna, væri frekar svekkjandi ef títuprjónarnir lita frá sér. Mæli með því að nota títuprjóna með haus, fingurgómarnir verða ansi aumir ef verið er að næla mikið niður. Ef verkið er smátt og nota þarf marga títuprjóna getur verið gott að hafa stutta títuprjóna því það verður ansi þröngt á þingi.
 4. Notaðu mæliskífu.
  Til þess að verkið þitt sé beint og fallegt verður að nota mæliskífu. Hægt er að teikna hana upp sjálf en ég prenta út mæliskífur af einni frábærri síðu. Á bloggi A Stitch in Time er hægt að hlaða niður mæliskífum með allt frá 5 örmum upp í 24. Hægt er að afrita myndina í Word skjal og minnka hana og stækka eftir hentugleika.
 5. Passaðu að hafa hreina fingur.
  Ekki skemmtilegt að káma út fallega hvíta verkið sitt.
Ef svo allt fer á versta veg og þú ert ekki sátt með stífaða verkið þitt þá er hægt að setja verkið í þvottavél (í svokölluðu brjóstarhaldarapoka) og byrja upp á nýtt. Flest heklgarn er bómullargarn og því ætti það ekki að skemmast neitt í þvotti.

Að stífa hekl…og líka prjón

Ég hef verið að gera nokkrar tilraunir með það að stífa hekl og ákvað að taka saman niðurstöðurnar hérna. Ég hef ekki prufað allt sem er í boði svo ég mun uppfæra þessa blogfærslu þegar ég hef prufað e-ð nýtt.

 • Sykurvatn:
  Ég nota lang oftast sykurvatn, blandað til helminga. Sykurvatnið er tilvalið þegar á að stífa snjókorn og bjöllur og allt annað sem á að verða alveg glerhart. Ég lendi þó oft í vandræðum því sykurvatnið virðist stundum hafa sinn eigin vilja, því jafnvel þótt ég sé að nota sömu blönduna af sykurvatni þá stífast stykkin ekki eins, veit ekki alveg hvað málið með það er. Einn ókosturinn við sykurvatnið er að það vill koma hvít slikja yfir stykkin ef verið er að nota litað garn. Það hins vegar gerist ekki alltaf heldur.
 • Flórsykurvatn:
  Flórsykurvatnið er blandað eins og sykurvatnið, til helminga. Þegar ég notaði flórsykur þá fannst mér eins og stykkin mín væru lengur að þorna en þegarf ég notaði sykurvatn. Stykkin verða vel stíf en þau verða ekki alveg glerhörð. Það jákvæða við flórsykurinn er að hann skilur ekki eftir sig svona slikju á litaða garninu.
 • Kartöflumjöl:
  Ég fann uppskrift að því hvernig ætti að blanda stífelsi úr kartöflumjöli á blogginu hjá Katý. Sú blanda er 1 msk kartöflumjöl og 1 dl kalt vatn hrist saman, 1/2 l af sjóðandi vatni blandað við.
  Snjókornið sem ég stífaði með þessari blöndu varð ekki glerhart en það hélt löguninni. Égg tel að þessi blanda sé mjög góð til þess að stífa dúka. Á eftir að prufa það.
 • Undanrenna:
  Ég prufaði að stífa eitt snjókorn með óblandaðri undanrennu. Það sjókorn varð ekki glerhart en hélt þó lögun sinni. Undanrennan væri því einnig tilvalin til þess að stífa dúka með. Spurningin er þó hvort það sé ekki mikil sóun í því að nota undanrennu því mar notar ekki mikið af henni til að stífa einn dúk og restin fer bara í ruslið – ef mar drekkur hana ekki það er að segja.
 • Stífelsi í spreyformi:
  Ég fór í Föndurlist og keypti svona stífelsi í spreybrúsa. Prufaði að stífa bjöllu með því og það gekk alls ekki upp. Eins og áður þá hélt stykkið löguninni en varð alls ekki hörð. Það væri svo sem hægt að hafa bjöllurnar svona mjúkar í sér en ég vill frekar hafa þær harðar. Þetta er þó prýðilegt til þess að strekkja ferninga sem eru ójafnir og ætti að henta vel þegar verið er að stífa dúka.
Ef þið hafið ábendingar um fleiri aðferðir til þess að stífa þá endilega látið mig vita.

Stör teppi – uppskrift

Það er svo einfalt að hekla þetta teppi.

Þrátt fyrir einfaldleika sinn er hægt að gera teppið mjög svo flott með því að velja skemmtilega liti. Og áferðin er svo skemmtileg.

Uppskrifin:
Ath: Notið stærri heklunál en þið mynduð vanalega nota með því garni sem þið veljið. Mynstrið í þessu teppi er frekar þétt og ef teppið er heklað of fast þá verður það of þykkt í sér og ekkert sérstaklega þægilegt.
Fitjið upp margfeldið af 3, bætið svo við 2 ll.
1. umferð: 1 hst í 3. ll frá nálinni, 1 st í sömu lykkju, *hoppið yfir 2 ll, 1 fp, 1 hst, 1 st allt í 3. ll frá nálinni*, endurtakið frá * til * þar til 3 ll eru eftir af upphafslykkjum, hoppið yfir 2 ll, 1 fp í seinustu ll.
2. umferð: Snúið við. 1 ll, 1 hst, 1 st í fyrstu lykkju (eða seinasta fp fyrri umf), *hoppið yfir 2 lykkjur, 1 fp, 1 hst, 1 st í 3. lykkju frá nálinni (fp fyrri umf)*, endurtakið frá * til * þar til 3 lykkjur eru eftir af umf, hoppið yfir 2 lykkjur, fp í 1. ll fyrri umferðar. (Það er stundum smá vesen að ná í þessa ll en það kemst fljótt upp í vana).
Endurtakið 2. umferð þar til teppið er orðið eins langt og þið viljið hafa það.

 


Kannturinn:
Áður en ég hekla kannt á Stör teppið geri ég eina til tvær um ferðir af fp. Svo geri ég þann kannt sem heillar mig þann daginn.
Blúndukanntur
Hnútakanntur

Gangi ykkur vel og góða skemmtun c”,)

Ofið hekl – leiðbeiningar

Upphafslykkjur: Heklið loftlykkjur þar til þið eruð komin með þá breidd sem þið viljið. Endatalan verður að vera deilanleg með 2. Bætið svo 1 ll við.
1. umf: Heklið 5 ll (telst sem 1 st og 1 ll), 1 st í 6. ll frá nálinni, *1 ll, hoppið yfir 1 ll, 1 st í næstu ll*, endurtakið út umferðina.
2. umf: Heklið 4 ll (telst sem 1 st og 1 ll), 1 st í næsta st fyrri umf, *1 ll, 1 st í næsta stuðul*, endurtakið út umferðina.

Endurtakið 2. umf þar til þið eruð komin með þá lengd sem þið viljið.
– Það kemur vel út að skipta óreglulega um lit þá verður köflótta mynstrið mun skemmtilegra.

Stykkið ykkar ætti þá að líta svona út. Eins konar netamynstur.
Þá er bara að ganga frá endum og byrja á að hekla lengurnar.

Lengjurnar eru einstaklega auðveldar. Þær eru ekkert annað en loftlykkjur. En það tekur lúmskt langan tíma að hekla þær.
– Ég gerði hverja lengju aðeins lengri en trefilinn því það er jú auðveldara að rekja upp en að bæta við eftir á.

Þegar lengjurnar eru tilbúnar þá er komin tími til að þræða þær í gegnum netið.
Til þess notið þið stoppunál og farið sitt á hvað í gegnum götin.

Þegar allar lengjurnar eru komnar í þarf aðeins að tosa til og laga lengjurnar svo þær séu allar jafn strekktar.
– Það mun líklegast snúast aðeins upp á þær. Ég lét það bara vera þannig.
Mér fannst flóknast að ganga frá endunum. En endaði með því að ganga frá endunum þannig að ég þræddi þá upp með lengjunni og festi þannig í leiðinni lengjuna við netið.
– Ég ákvað að hafa neðstu línuna auða/opna til þess að hafa pláss fyrir kögrið.


Einstaklega auðvelt ekki satt c”,)

(Endilega ef þið hafið spurningar eða ábendingar ekki hika við að hafa samband)

Handverkskúnst notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

 • wordpress_test_cookie
 • wordpress_logged_in_
 • wordpress_sec
 • devicePixelRatio

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á handverkskunst.is

  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur