Category Archives: Dúkar

Fjölskyldusteinar

Eftir að hafa lengi hugsað um að blogga þá ákvað ég loks í kvöld að setjast niður og blogga. Það eru ekki nema 9 mánuðir síðan ég bloggaði síðast. Ég hugsa reglulega til þess hversu oft ég bloggaði hér á árum áður. Fyrir um 7 árum (vá hvað tímanum líður) byrjaði ég að blogga undir nafninu Handóð. Hvatinn þá til að blogga var að ég þekki fáa sem enga heklara og var oft einmana þegar það kom að heklinu. Ég hafði mikla þörf fyrir að ræða allar þær vangaveltur sem ég hafði um heklið en flest allar samræður voru einhliða þar sem viðmælendur mínir höfðu engan áhuga á hekli. Man alltaf eftir því þegar ein sem vann með mér sagði: “Æj Elín, þegar þú byrjar að tala um þetta hekl þá líður mér eins og þegar kærastinn minn er að tala um fótbolta”.

Því eins og fyrr segir byrjaði ég að blogga um heklið mitt og uppskar heilmikið úr því – meðal annars að kynnast fleiri heklurum. En fyrir 7 árum var tíðin önnur og aðstæður allt aðrar. Eftir vinnu á hverjum degi tók við heilagur “Dr. Phil og hekl” tími áður en nokkuð annað var gert á heimilinu. Ég var þá einstæð með einn 9 ára gutta sem var ekkert ósáttur þótt hann fengi smá frið fyrir mömmu sinni á meðan hún bloggaði. Og því var ég gífurlega öflug í blogginu. Í dag eru aðstæður töluvert öðruvísi, börnin orðin þrjú og það eru margar vikur ef ekki mánuðir síðan ég horfði á Dr. Phil.

Þar sem ég er enn einstæð þá er ég oftar en ekki gífurlega þreytt í lok dags og ég verð bara að játa að ég er alveg núll spennt fyrir því að blogga. En ég hekla, það breytist aldrei. Eftir að börnin eru komin í rúmið og unglingurinn flúinn inn í herbergi byrjar heilagur “sjónvarpsgláp og hekl” tími. Nú orðið hekla ég oftar en ekki með tilgang, ég er að hekla til þess að búa til uppskrift eða ég er að hekla eftir uppskrift sem hægt er að benda öðrum á. En inn á milli koma verkefni þar sem ég er bara að hekla til að skapa og útkoman er það eina sem skiptir máli. Það besta samt við það er að ég slaka svo vel á, ég er bara í núinu að skapa og mér líður svo vel.

Og þar komum við að titli þessarar bloggfærslu. Því þessir steinar, sem ég kalla Fjölskyldusteinana okkar, eru einmitt þannig verkefni. Einn daginn greip mig þessi sterka þörf til að skapa og útkoman varð þessi. Undanfarinn var þó töluvert lengri í raun og veru, ég skal útskýra mál mitt frekar:

  • Ég dýrka að fara á Nytjamarkaði og sanka að mér alls konar dóti þaðan. Mikið af þessum gersemum tengjast að sjálfsögðu hannyrðum og þá oftar en ekki hekli. Ég kaupi rosalega mikið af gömlum hekluðum dúllum og dúkum ef ég sé munstur í þeim sem ég held að ég geti notað. Þetta geymi ég svo á víð og dreif um heimilið og gríp í þegar þörf er á. Eins og í þetta verkefni.
  • Fyrir rúmu ári síðan hætti verslunin Erla á Snorrabraut rekstri og var því með rýmingarsölu. Ég keypti mér fullt fullt af útsaumsgarni í alls konar litum sem hefur svo legið ofan í skúffu síðan þá.
  • Ég á það til að týna upp steina sem mér þykja fallegir og geyma ef ég skyldi vilja hekla utan um þá. Því átti ég nokkra steina heima sem ég gat notað til verksins.

Þennan dag sem þessi sterka löngun til að skapa greip mig fékk ég börnin mín með mér í lið. Fyrst valdi hvert sér dúk með munstri sem þeim þótti flott, dúkinn notaði ég svo sem innblástur fyrir munstrið í þeirra stein. Næst völdu þau sér útsaumsgarn í lit sem þeim þótti fallegur. Ég gerði slíkt hið sama. Næstu kvöld á eftir sat ég svo og heklaði og rakti upp, heklaði og rakti upp, heklaði og rakti upp. Þar til ég var sátt með steininn að hverju sinni. Ég fór með eina hespu af DMC útsaumsgarni í hvern stein, hafði tvöfaldan þráð og notaði heklunál nr. 1,25 til verksins.

Minn steinn: Ég (34 ára) byrjaði á mínum stein og valdi mér því nokkuð einfalda dúllu til að fara eftir. Dúlluna keypti ég í Genbrug verslun í Köben 2016 (já þetta man ég).

Mikaels steinn: Mikael (16 ára) var í valáfanga í Tækniskólanum þar sem hann var að læra að hnýta og vildi að munstrið í steininum sínum væri eins og net. Ég er sérstaklega ánægð með steininn hans Mikaels því munstrið í miðjunni minnir mig á atóm og Mikael er alger vísindanörd. Dúkinn erfði ég frá Jóhönnu ömmu minni þegar hún lést 2015.

Móra steinn: Móri (5 ára) barðist hart fyrir því að fá þennan fjólubláa lit. Systir hans var fyrri til að grípa hann en rak svo augun í bleikt og skipti um skoðun. Fjólublár er í uppáhaldi hjá honum um þessar mundir, enda er það liturinn á uppáhalds Turtles kallinum hans. Dúkurinn er keyptur í Genbrug versluninni í Köben.

Maíu steinn: Maía (3,5 ára) er bleik út í gegn. Það kom mér því ekkert á óvart að hún skyldi velja bleikt garn og bleikan dúk. Hún á ekki langt að sækja það því ég er ansi hrifin af bleiku sjálf. Dúkurinn er keyptur í Genbrug verslun í Lundi 2014.

Áður en ég byrjaði að hekla þá var ég eitthvað að hugleiða það að láta steinana vera úti á tröppum til skrauts. En ég tími því alls ekki eftir að hafa klárað þá. Í dag eru þeir til skrauts inn í stofu hjá okkur og gleðja okkur fjölskylduna. Ég er nokkuð viss um að þessi steinar eigi eftir að fylgja mér lengi.

 

Takk fyrir innlitið á bloggið og þúsund þakkir fyrir lesturinn. Ég mæli hiklaust með því fyrir alla að hekla utan um steina. Ef þig langar að skella þér í eitt stykki “heklaðan stein” þá erum við með eina uppskrift hér á síðunni sem þú getur sótt þér og prufað.

Heklkveðjur
Elín

Heklað gluggaskraut

Ég er mis ánægð með þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur. Þetta verkefni er eitt af þeim sem ég er fáránlega ánægð með og get ekki annað en brosað í hvert skipti sem ég labba fram hjá því.

heklað_gluggaskraut (12)

heklað_gluggaskraut (1)

Ég heklaði 10 dúllur úr bómullargarni, ekki heklgarni samt heldur grófara garni með heklunál nr. 4. Gulur er í uppáhaldi og ég hikaði ekki við að velja gult garn í verkefnið.

Sinnepsgulu dúllurnar eru heklaðar úr Cotton8

heklað_gluggaskraut (14)

Sóleyjargulu dúllurnar eru líka heklaðar úr Cotton8

heklað_gluggaskraut (13)

Gulsprengdu dúllurnar eru úr Sunkissed

heklað_gluggaskraut (15)

Dúllurnar hengdi ég svo upp í glugganum niðrí vinnu.

heklað_gluggaskraut (16)

Eins og fyrr segir þá er ég ótrúlega ánægð með dúllurnar og þreytist aldrei á að dást að þeim.

heklað_gluggaskraut (17)

Það er svo auka bónus að þegar sólin skín inn þá varpa dúllurnar fallegum skugga á vegginn í versluninni.

heklað_gluggaskraut (18)

Þetta eru dúllurnar. Níu af tíu voru heklaðar eftir munsturmyndum sem ég fann á Pinterest…ein var svona næstum því eftir uppskrift. Þær voru svo allar stífaðar með sykurvatni og eins og alltaf notaði ég skapalón af blogginu A Stitch in Time til þess að allt væri beint og fallegt.

Set inn link á hverja dúllu, eina sem þarf að gera er að smella á myndina og uppskriftin er þín.

heklað_gluggaskraut (11)

heklað_gluggaskraut (10)

heklað_gluggaskraut (9)

heklað_gluggaskraut (8)

heklað_gluggaskraut (7)

heklað_gluggaskraut (5)

heklað_gluggaskraut (4)

heklað_gluggaskraut (3)

heklað_gluggaskraut (2)

Þessi geggjaða hugmynd er fengin af blogginu hjá Kirsten sem er hollenskur Scheepjes bloggari.
Mæli með því að þið kíkið við hjá henni því hún er með fullt af flottu hekli á síðunni sinni.

Ta-dah and free crochet pattern: Summer mandala’s

Tags: , , , ,

Ferðasaga hannyrðanörds

Ég fór í ferðalag um helgina sem gerist alltof sjaldan. Við hjónin skelltum börnunum upp í bíl og keyrðum austur fyrir fjall. Áfangastaðurinn var heilsárshús fjölskyldu vinar okkar, en umræddur vinur beið okkar þar. Amman og afinn byggðu húsið fyrir mörgum mörgum árum og ólu öll sín börn þar upp. Á meðan heimsókn okkar stóð sagði vinurinn okkur sögur af ömmu sinni og heimsóknum hans sem lítill strákur í sveitina til ömmu og afa. Afinn lést fyrir þónokkrum árum en amman lést í fyrra þá 88 ára gömul.

En hvað kemur þetta svo hannyrðum við? Jú amman var mögnuð hannyrðakona. Ég snérist í hringi yfir öllu þarna inni. Amman var húsmæðraskólagengin og hafði greinilega nýtt þá menntun sem hún fékk þar alla ævi. Á árum áður var það ekki eintómt fjör eða föndur að sinna hannyrðum, það snérist ekki allt um að hanna. Það var hreinlega nauðsyn. En amman tók hvoru tveggja með trompi – nauðsyn og sköpun.

Fyrsta sem ég rauk augun í voru svanirnir. Þeir voru frekar skemmtilegir.

20150809_170305 20150809_170318

Í fyrstu taldi ég að þetta veggteppi væri Glitsaumur. En eftir að hafa borið þetta undir sérfræðingana í FB hópnum Útsaumur/Krosssaumur var niðurstaðan að þetta væri Glitvefnaður. Sem sé glitsaumur ofinn í vefstól.

20150808_104109

Fann einnig þennan dúk með Augnsaumi. Mér finnst augnsaumur svo merkilegur því hann er alveg eins beggja megin. En þessi mynd sýnir einmitt réttuna og rönguna. Ég er svo veik fyrir íslenskum útsaum svo mér fannst þetta geggjað.

20150809_161636

Þessi lampi var inni í stofu. Amman hafði hnýtt skerminn. Birtan frá honum var ótrúlega skemmtileg.

IMG_20150809_013814

Ég hef oft verið að hugsa um hvað það væri gaman að hekla utan um glasamottur en aldrei fundið hentugar glasamottur til að hekla utan um. Amman var greinilega langt á undan mér, en hún hefur heklað þessar glasamottur fyrir mörgum árum.

20150809_170443

Ég fann heilan kassa af rúmfötum – með sögu – eins og kassinn var merktur. Rúmfötin voru dásamleg. Það var búið að setja í þau milliverk, dúllur og blúndur. Heklið svo fíngert að ég varð að rýna í það til að sjá hvort þetta væri ekki örugglega handgert en ekki búðarkeypt.

20150808_153007

20150808_153115

IMG_20150808_153506

Eftir því sem mér skilst voru amman og afinn með vinnuaðstöðu í kjallaranum. Afinn vann með tré og amman með ull. Kjallarinn er fullur af dýrgripum og mig hreinlega verkjaði mig langaði svo að taka margt af þessu með mér heim. Í kjallaranum voru vefstólar, rokkar, garnvindur, prjónavél, kambar, spunavélar, garn og ULL! Helling af ull.

20150809_162134

Rokkarnir. Tveir gamlir íslenskir og einn nýrri sem er af gerðinni Louet var mér sagt af öðrum hannyrðanörd.

20150809_161928

Vél sem kallast á ensku Lazy Kate og er “nútímagræja” til að spinna garn.

20150809_161510

Þetta borð er með fótstigi og einhverri vél og er að ég held nýtt til þess að spinna ull. En ég hef aldrei séð svona áður og hef því í raun enga hugmynd um hvað þetta er.

20150809_161458

Ýmsar hannyrðir. Útsaumur og vefnaður.

20150808_135007

20150809_162125

Í þessum kössum er ull og ekkert nema ULL. Í stóra brúna kassanum og hvítu fötunni er angóruull. Amman ræktaði kanínur og vann af þeim ullina, barnabörnin nutu svo góðs af að fá prjónaðar flíkur sem voru dásamlega mjúkar.

20150809_161056

Amman var í því að jurtalita ull. Ég þykist viss um að þessi ull sé lituð af henni.

20150809_160939

Í kjallaranum var að finna helling af ull. Ég var ekki klár á því hvað var spunnið af ömmunni og hvað ekki. En ég fann eitthvað af garni sem ég er viss um að sé litað og spunnið af ömmunni.

20150809_161340

20150809_161427

20150809_161441

Ég fann nokkrar stílabækur meðal prjónablaðanna. Amman hafði greinilega skrifað hjá sér minnispunkta um verkefnin sem hún gerði. Fannst þetta afskaplega dýrmætt.

IMG_20150809_155853

Ég eyddi nú ekki allri helginni í kjallaranum að snúast í hringi um ull. Ég átti góðar stundir með fjölskyldunni og vinum. Við Maía Sigrún tókum nokkra góða göngutúra á nærliggjandi sveitabæ að skoða kýrnar, hænurnar og hestana.

20150808_173024

Maía tók sig vel út í sveitinni í vaðstígvélum og færeysku peysunni sem amma hennar prjónaði á hana.
Það er sko gott að eiga góða ömmu!

Nördakveðjur
Elín

Heklaðar jólagjafir 2014

Ég var svo á seinasta séns þessi jól að það var glatað. Ég kláraði að kaupa gjafirnar á Þorláksmessu og sat svo á Aðfangadag að pakka inn. Ég var engan veginn að fíla allt þetta stress sem fylgdi þessu svo ég ætla ekki að endurtaka leikinn næstu jól. Afþví að ég var svona sein þá náði ég ekki að hekla mér neitt nýtt jólaskraut…og ég elska að hekla jólaskraut. En ég náði að hekla nokkrar jólagjafir.

Eins og fyrr segir var ég að leggja lokahönd á gjafirnar á Þorláksmessu. Ég var búin að sitja lengi að títa niður dúk og var farin að fá í bakið. Kemur þá ekki herramaðurinn minn Mikael og tekur við. Það er ekki allra að títa svona niður því þetta er jú nákvæmnis vinna en Mikael minn kláraði verkið með glæsibrag.

IMG_8930 copy

Á Aðfangadagsmorgun fékk ég svo hjálp frá Móra við að plokka upp alla títuprjónanna. Svona er ég rík.

IMG_8931 copy

Þótt það hafi verið stress á mér að klára jólagjafirnar þá verð ég að segja að þær heppnuðust þær vel.

Gjöf #1
Ég heklaði þennan stóra fallega dúk handa ömmu minni. Ég hef aldrei heklað svona stóran dúk áður, ég klikkaði á að mæla hann en hann er stór. Ferskjubleiki liturinn er æðislegur, mun flottari en myndin sýnir. Ég gerði síðustu umferðina svo með gylltu glitri því amma er svo glysgjörn. Amma þjáist af minnistapi og það er ekki margt nýtt sem hún man, en þegar ég talaði við hana daginn eftir mundi hún eftir dúknum og sagðist kunna að meta að ég hefði gert hann sjálf. Að hún skyldi muna eftir dúknum er mér  dýrmætt.

Garn: Heklgarn nr. 10 og glimmergarn í kantinn.
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: af Pinterest.
Stífað: Með Undanrennu

IMG_8934 copy

IMG_8938 copy

Gjöf #2
Ég sá mynd af þessum dúk á Pinterest og ég bara VARÐ að hekla hann. Mynstrið er einfalt en samt svo geggjað.

Garn: Heklgarn nr. 10.
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: af Pinterest.
Stífað/mótað: með vatni

IMG_8942 copy

Gjöf #3
Þessa dúka átti ég reyndar til. Ég heklaði þá fyrir einhverju síðan eftir gömlum dúk sem ég keypti í Góða.

Garn: Heklgarn no. 10.
Heklunál: 2 mm
Uppskrift: Ekki til
Stífað/mótað: með vatni.

IMG_8946 copy

Gjöf #4
Stjúpamma mín fékk þennan dúk í jólagjöf. Mynstrið er geggjað en eg hélt að þetta yrði dúkur en ekki dúlla. Engu að síður falleg dúlla.

Garn: Heklgarn no. 10.
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: af Ravelry.
Stífað/mótað: með vatni.

IMG_8948 copy

Gjöf #5
Þessar þrjár dúllur fékk svilkona mín. Upprunalega átti bara að vera ein dúlla eeeen þegar ég var búin að gera eina með tveimur litum VARÐ ég að gera aðra…og svo aðra. Ég er extra stolt af þessum dúllum/dúkum því þetta er uppskrift eftir mig, fyrsta dúka uppskriftin sem ég geri en alls ekki sú seinasta.

Garn: Heklgarn no. 10.
Heklunál: 2,5 mm
Uppskrift: Rósíða úr Heklfélaginu.
Stífað/mótað: með vatni.

IMG_8949 copy

Ein hópmynd af öllum dúllunum saman. Finnst þetta soldið flott sko.

IMG_8953 copy

Gjöf #6
Hin svilkona mín fékk þessar glasamottur…sem eru já kattarassar. Ég sá þessar glasamottur fyrir löngu í Handóðum Heklurum á FB og þar sem svilkonan elskar ketti þá kom þetta strax upp í hugann. Hún brosti og hló þegar hún opnaði pakkann. Vonandi koma motturnar að góðum notum. Ég bætti þó við einni umferð þar sem glasamotturnar voru of litlar samkvæmt uppskriftinni.

Garn: Bómullargarnið í pínulitlu dokkunum, haft tvöfalt.
Ein dokka dugði í eina glasamottu.
Heklunál: 5 mm
Uppskrift: Af blogginu My Yarn Spot.
Stífað: með Mod Podge lími.

IMG_8958 copy
IMG_8959 copy

Gjöf #7
Aþena Rós systurdóttir mín fékk þessa gjöf. Ég var pínu sein með hana svo þetta varð gamlársgjöf en ekki jólagjöf. Ég keypti þetta tímaritabox (eða hvað sem þetta heitir) í Góða fyrir lööööngu og ætlaði alltaf að mála það. Mig hefur lengi langað til að mála stöff en ekki komið mér af stað í það, verið hálf rög við að prufa og komast að því að ég er léleg í því. En ég sló loks til og þetta kom bara vel út.

IMG_8929 copy

Frekar mikill munur ha?!

IMG_9010 copy

Þessi fánalengja fór líka með í pakkann. Ég var að hekla þessa þríhyrninga um daginn þegar Aþena sá til og bað hún mig um að hekla svona handa sér. Eða hún hoppaði á öðrum fæti á meðan hún hló og galaði “Jájájá bleika handa mér!” Ég ætlaði að gera stafi en það var að flækjast svo mikið fyrir mér í hvaða lit þeir ættu að vera. Því fóru bara þessir spottar með sem litaprufur og mamman fær að velja hvort það verði stafir eða ekki.

IMG_9006 copy

Ég fékk auðvitað jólagjafir líka og þetta árið voru nokkrar gjafir handavinnutengdar…svona eins og fyrri ár.

Gjöf til mín #1 – Garn frá mömmu.

IMG_9018 copy

Gjöf til mín #2 – Við Gissur fengum SAMAN þessa skemmtilegu bók frá móðursystur minni. Hekl fyrir karlmenn. Bók eftir karlmann með uppskriftum sem henta karlmönnum. Gissur minn er að taka vel í að læra að hekla, það er nefninlega ein uppskrift í bókinni af nipplu-nælum.

IMG_9020 copy

Gjöf til mín #3 – Clover heklunálar og 100 stk af prjónamerkjum frá vinnunni aka Handverkskúnst. Ekki amalegt að geta keypt sjálfur jólagjöfina sína.

IMG_9021 copy

Gjöf til mín #4 – Hippe Hullen þýska útsaumsbókin sem Guðmunda systir tók þátt í að gera…gjöf frá Guðmundu systur.

IMG_9037 copy

Heklkveðjur Elín 

Litlar jóladúllur – uppskrift

 

Þessar litlu jóladúllur eru með klassísku sniði. Eins og svo oft áður þá sótti ég innblástur i gamalt hekl. Ég elska að finna gamlar dúllur á nytjamörkuðum og nota mynstrin úr þeim til þess að skapa eitthvað nýtt.

IMG_8894 copy

Það er ótrúlega einfalt að hekla þessar dúllur og í raun svo einfalt að það varð erfitt að skrifa uppskriftina niður. Það vill oft verða þannig að erfiðast er að útskýra það einfaldasta. Þið kannist kannsi við það?

IMG_8896 copy

IMG_8900 copy

 

Eftir að dúllan hefur verið hekluð má títa hana niður og móta. Bæði er hægt að hafa hana sexhyrnda og hringlótta. Ég var ekkert að stífa dúllurnar mínar, notaði bara hreint vatn.

IMG_8899 copy

Ég nota dúllurnar mínar undir kertastjaka. En það mætti einnig tengja þær saman og gera stærri dúk.

IMG_8902 copy

Þið getið sótt uppskriftina í pdf skjali eða bara hér fyrir neðan.

Skammstafanir
á hekli:

LL – loftlykkja
LLbogi – loftlykkjubogi
FP – fastapinni
HST – hálfstuðull
ST – stuðull
sl. – sleppa

Fitjið upp 10 LL eða gerið töfralykkju

1. umf: Heklið 3 LL (telst sem ST), 23 ST í hringinn.

2. umf: Heklið 9 LL (telst sem ST og 6 LL), [ST í næstu 4 ST, 6 LL] x 5, ST í síðustu 3 ST, lokið umf með KL í 3ju LL af þeim níu sem heklaðar voru í byrjun umf.

3. umf: Heklið KL yfir í næstu LL, 3 LL (telst sem ST), 10 ST í sama LLboga, [11 ST í næsta LLboga] x 5, lokið umf með KL í 3ju LL af þeim þrem sem heklaðar voru i byrjun umf.

Hér eftir er eingöngu heklað í aftari lykkju stuðlanna.

4. umf: Heklið KL yfir í næsta ST, 3 LL (telst sem ST), ST í næstu 8 ST, 2 LL [sl. 2 ST, ST í næstu 9 ST, 2 LL] x 5, lokið umf með KL í 3ju LL af þeim þrem sem heklaðar voru í byrjun umf.

5. umf: Heklið KL yfir í næsta ST, 3 LL (telst sem ST), ST í næstu 6 ST, 4 LL, FP í LLboga, 4 LL, sl. ST, [ST í næstu 7 ST, 4 LL, FP í LLboga, 4 LL, sl. 1 ST] x 5, lokið umf með KL í 3ju LL af þeim þrem sem heklaðar voru í byrjun umf.

6. umf: Heklið KL yfir í næsta ST, 3 LL (telst sem ST), ST í næstu 4 ST, 4 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LL boga, 4 LL, sl. ST, [ST í næstu 5 ST, 4 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LLboga, 4 LL, sl. ST] x 5, lokið umf með KL í 3ju LL af þeim þrem sem heklaðar voru í byrjun umf.

7. umf: Heklið KL yfir í næsta ST, 3 LL (telst sem ST), ST í næstu 2 ST, [4 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LLboga, 4 LL, sl. ST, ST í næstu 3 ST] x 5, 4 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LLboga, 5 LL, FP í LL boga, lokið umf með 1 LL, ST í 3ju LL af þeim þrem sem gerðar voru í byrjun.

8. umf: Heklið FP utan um ST sem var gerður til að loka fyrri umf, [5 LL, FP í næsta LLboga] endurtakið út umf, lokuð umf með KL í fyrsta FP umf.

9. umf: Heklið FP, HST, ST, LL, ST, HST, FP í hvern LLboga umf, lokið umf með kl í fyrsta FP umf.

 

Njótið vel og góða skemmtun að hekla
Elín 

Ég fór til útlanda…

…í sumarfríinu mínu. Nánar til tekið Svíþjóðar og Danmerkur. Við hjónin fórum með unglinginn og smábörnin að heimsækja ættingja. Þar sem þetta var fjölskyldufrí þá ákvað ég að setja handavinnuþráhyggjuna mína að mestu til hliðar og hafa fjölskylduna í forgangi.

Það þýddi að ég verslaði bara smá garn og heimsótti bara nokkrar búðir. OG það sem merkilegast er! Ég heklaði bara á kvöldin eftir að börnin voru sofnuð.

Svíþjóð:

Í Svíþjóð vorum við í Lundi. Ég verð að segja að mér finnst gamli bærinn í Lundi alveg hreint yndislegur. Öll þessi litlu hús og litagleðin gleðja mig afskaplega mikið. Ég hafði mjög gaman af því að rölta um og skoða umhverfið.

20140805_161648

20140805_151204

Það var í einum göngutúr sem ég rak augun í þessar hekluðu gardínur. Einfaldar en fallegar. Varð að stelast til að mynda þær.

IMG_20140805_174004

Ég elska að fara í Góða Hirðinn og mátti því til að kíkja inn í tvær Second Hand búðir sem ég fann í Lundi. Önnur þeirra var í niðurgröfnu kjallara með steingólfum og var lofthæðin þar heilir 176 cm. Í báðum búðunum fann ég hekl og gramsaði auðvitað í gegnum það. Mér finnst fátt jafn skemmtilegt og að finna fallegt “gamalt” hekl.

20140731_152924

20140731_151346

20140731_151146

Oft þegar ég finn reglulega fallegt hekl í svona búðum kaupi ég það. Ég varð heldur betur að velja og hafna í Svíþjóð en gat ekki stillt mig um að kaupa þennan fallega dúk. Planið er að strekkja aðeins úr honum og finna honum góðan stað heima.

IMG_20140731_175620

Ég fór líka í eina garnbúð í Lundi. Tók engar myndir en keypti mér smá garn.

Danmörk:

Í Danmörku vorum við í Köben. Ég er alltaf jafn hrifin af Köben, mér líður svo vel þar. Mér finnst ég alltaf sjá eitthvað spennandi þegar ég er á röltinu þar um. Eins og til dæmis þetta fallega hús skreytt áttablaðarósum og meiru.

20140811_113754

 Og þetta garngraff.

20140811_113924

Á rölti eftir Norrebrogade rak ég augun í second hand búð og skaust í hana. Þar var að finna marga góða gripi og helling af drasli. Niðrí í kjallaranum var þetta handavinnuhorn.

20140811_112452

Það var fullt af hekli þarna. Bunki af tuskum/þvottapokum sem kostuðu 5 dkr. stykkið og margir löberar á 20 dkr. Ég keypti ekki neitt en hefði kannski betur gert það því ég er enn að hugsa um einn löberinn þarna.

20140811_111152

Það var mikið af mjög fíngerðu hekli þarna. Þessi rauði dúkur var ekki mikið stærri en glasamotta.

20140811_112325

Þessir servíettuhringir voru svo smáir að ég varð að taka mynd af þeim. Setti fingurbjörg á myndina til að sýna stærðina hlutfallslega.

20140811_112159

Mér finnst þetta bara magnað!

20140811_112223

Sofia frænka býr úti og fór með mig í smá garnleiðangur. Við náðum ekki nema einni garnbúð, Therese Garn á Vesterbrogade, en hún var sko heljarinnar upplifun. Mamma og Sofia hafa sagt mér frá þessari búð en sjón er sögu ríkari. Búðin er svo stútfull af garni að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Um leið og ég steig út úr strætó blasti litadýrðin við fyrir utan búðina hjá henni.

20140811_165221

Búðin er svo full af garni að það komast ekki nema tveir fyrir þar í einu. Það er svona lítil slóð um búðina sem þú getur gengið eftir innan um haugana af garni sem hægt er að gramsa í. Þessi búð er ekki bara með helling af garni heldur helling af karakter líka.

20140811_165734

Þetta garn minnti mig á naggrísi. Fannst það svo fyndið að ég varð að mynda það.

20140811_165711

Hit Ta-Too garnið er til í svo fallegum litum.

20140811_170804

Í búðinni var fullt af tilboðum og auðvitað keypti ég mér 10 dokkur af bómullargarni hjá henni. 10 dokkur á 3000 kall er ekki svo slæmt.

20140811_165358

 Ísland:

Þegar heim var komið varð ég auðvitað að taka saman garnið sem ég keypti og fara yfir það. Verð að játa að ég var ekki sérlega skipulögð heldur keypti ég bara það sem mér fannst fallegt. Komst að því að mér finnst greinilega vatnsblár (aqua blue) fallegur litur því ég keypti þann lit í hverri verslunarferð. Bómullargarn er afskaplega vinsælt hjá mér um þessar mundir svo ég verslaði það bara.

20140813_200311

20140813_200541 (1)

20140813_200701

20140813_200758

20140813_200831

Sofia frænka gaf mér nokkrar dokkur af garni úr safninu sínu.

20140813_201747

Ég er sorglega ánægð með allt nýja garnið mitt og er sko byrjuð að hekla úr því.

IMG_20140813_210344

Garnkveðjur
Elín

 

Heklað utan um stein

Mig hefur lengi langað til þess að hekla utan um stein. Hef séð svo margar fallegar myndir af slíku. Eina helgina eftir fjöruferð með krökkunum kom þessi steinn með mér heim. Ég var þó í smá tíma að ákveða hvernig ég vildi hekla utan um steininn.

Ég keypti þetta fallega sjálfmynstrandi garn. Fann uppskrift af fallegum dúk á Pinterest. Og byrjaði að hekla. Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá rakti ég nokkrum sinnum upp og byrjaði upp á nýtt. Fullkomnunarárátta getur verið frekar hamlandi. En loka útkoman er glæsileg þótt ég segi sjálf frá og ég gæti ekki verið ánægðari. Að mínu mati er það ánægjan við – og með – verkið sem skiptir öllu.

Garn: Katia Jaipur keypt í Föndru
Nál: 2 mm
Uppskrift: af Pinterest

Tags: ,

Heimsókn í Boðann, félagsmiðstöð aldraðra

Ég var beðin um að koma og halda námskeið í félagsmiðstöðinni Boðinn sem er til húsa í Hrafnistu Kópavogi fyrir stuttu. Þar sem ekki var vitað hversu margir ætluðu að koma lagði ég til að ég kæmi í heimsókn og kynnti tvöfalda prjónið, sýndi nokkrar flíkur og sjá svo í framhaldi af því hversu margir hefðu áhuga á að læra þessa prjónatækni.

Konurnar voru virkilega áhugasamar og mætti ég í gær með fyrsta námskeiðið. Það var einstaklega gaman að hitta svona reyndar prjónakonur og gaman að spjalla við þær. Þær rúlluðu upp prufunni sem sett var fyrir og verður gaman að sjá hvað þær koma til með að prjóna í framhaldinu.

japanskur1

Áður en námskeiðið byrjaði sá ég 3 konur sem sátu og voru að sauma út með tækni sem ég hef aldrei séð áður. Þær kölluðu þetta japanskan pennasaum og var þetta annar veturinn sem þær voru í félagsmiðstöðinni með leiðbeinanda sér til aðstoðar að sauma þessar myndir. Þetta voru svakalega fallegar myndir hjá þeim og mjög áhugaverð tækni. Saumurinn líkist gamla íslenska flatsaumnum og garnið sem er teygjanlegt er þrætt í nál sem svipar til penna og er stungið er í gegnum léreftið og útkoman einstaklega skemmtileg. Ég sá að þarna var komið eitthvað sem mér gæti þótt gaman að læra. Ég fann hérna á netinu eina síðu með myndum af verkum ef þið viljið skoða fleiri myndir.

japanskur

Svo þegar ég var að fara rakst ég á fallegt handverk sem búið var að ramma inn og er þetta virkilega góð hugmynd og að mínu mati einstaklega fallegt að hengja upp 🙂 Ég mátti til með að mynda og sýna ykkur.

hrafnista kop3

 Þessi dúkur var einstaklega fíngerður og nýtur sín vel í rammanum

hrafnista kop4

Tveir litlir saman

hrafnista kop2

Annað fallegt stykki

hrafnista kop

Skemmtileg uppsetning að hafa tvo litla saman í ramma

hrafnista kop1

Algjört augnakonfekt þessi kragi

Kveð ykkur að sinni og vona að þið hafið gaman af því að skoða þetta handverk sem skreytir húsakynni Hrafnistu í Kópavogi 🙂

– Guðrún María

Heklaður dúkur

Ég heklaði þennan dúk í jólagjöf handa sænsku fósturforeldrum mannsins míns, en þau heimsóttu okkur yfir áramótin.

017

Uppskrift: Fann ég hér á Pinterest.
Garn: Heklgarn úr Litlu Prjónabúðinni
Nál: 1,75 mm

019

Þegar ég sá heklgarnið í Litlu Prjónabúðinni og litaúrvalið þá langaði mig til þess að kaupa dokku af hverjum lit.
Ég náði að hemja mig og varð þessi fallegi fjólublái litur fyrir valinu.

Mamma hló að mér og sagði að venjulega er verkefnið valið fyrst
en ég vel mér fyrst garn og finn svo út hvað ég get gert úr því.

185

Þegar ég var að hekla dúk í fyrsta sinn fór það alveg afskaplega í taugarnar
á mér að hann skildi vera svona krumpaður.
Ég hélt að jafnvel væri ég að gera eitthvað vitlaust.
En það er partur af programmet að strekkja og forma heklaða dúka.

186

Því langaði mig til að skella með myndum af því hvernig dúkurinn leit út fyrir…

187

…og á meðan hann var í mótun.
Til þess að móta hann notaði ég einfaldlega vatn og lét hann þorna.
Þannig heldur hann lögun sinni og er mjúkur.

022

Við hjónin saumuðum einnig út þessa mynd handa Svíunum.
Maðurinn minn komst að því fyrir jólin að hann hefði gaman af því að sauma út og er þetta þriðja myndin hans.
Hann saumaði út stafina en ég saumaði út borðana.

024

Þetta er sænska og myndi þýðast á íslensku: Þar sem rassinn hvílir þar er heimilið.
En sú setning er í uppáhaldi hjá mér.

Ef þig langar að sauma út þinn eigin texta þá mæli ég með þessari síðu Stitch Point.

Það verður svo að fylgja sögunni að Svíarnir voru hæstánægð með gjafirnar.

Elín c”,)

Tags: , , ,

Gamalt hekl

Ég elska gamalt hekl. Þegar ég er að skoða hekl – á öllum þeim stöðum sem ég skoða hekl – þá er oft mikið af því sama út um allt. Þess vegna elska ég þegar ég sé hekl sem ég hef aldrei séð áður. Og mjög oft er það gamalt hekl.

Í dag stökk ég aðeins inn í Rauðakross búðina í Mjóddinni og þótt það væri ekki mikið af hekli þar þá fann ég þetta stykki. Ég hef ekkert að gera við það. Mér finnst það ekkert sérstaklega fallegt á litinn.

EN ég hef aldrei séð ferninga festa saman svona. Þar sem stykkið kostaði bara 300 kall ákvað ég að kaupa það svo ég geti hermt eftir því. Ég hef séð svo mörg teppi sem eru ferningar í mismunandi litum og svo er heklað í kringum þá með hvítu – og mér finnst það bara vængefið flott. Ég sé mig alveg geta nýtt þetta stykki í e-ð þannig.


Myndir frá öðrum heklurum af teppum sem heilla mig
 
 
Ég hef aldrei nægilega mikinn tíma til að hekla allt sem mig langar að hekla. Samt hekla ég alveg helling. Svona lítur dæmigerður eftirmiðdagur út mér. Eftir vinnu. Eftir að búið er að fara í búðina. Eftir að komið er heim. Er kveikt á sjónvarpinu og um leið og Dr. Phil byrjar er heilagur Elínar-tími þar sem ég hekla.

Hálf hekluð krukka – hekl uppskrift til að þýða – heklað stykki – tölvan – ab mjólk

Þegar sú stund er búin þá er best að standa upp og fara að sinna skyldustörfum heimilisins.

Handverkskúnst notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec
  • devicePixelRatio

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á handverkskunst.is

  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur