Category Archives: Kjólar

Ég datt í ungbarnaprjón….

Það er eitthvað við þessar litlu flíkur á nýfæddu krílin, það er svo gaman að prjóna þau. Ekki af því að maður er svo snöggur heldur þau eru svo krúttleg. Yngsta barnabarnið mitt er 4ra ára en einhverja þörf fékk ég í byrjun ársins á því að prjóna nokkrar flíkur á lítið kríli.

Ég er svo heppin að geta svalað prjónaþörf minni og prjónað fyrir búðina ef enginn er í kringum mig að prjóna á það sem mig langar að gera. Ég var á leið í aðgerð á hné og vissi að ég þyrfti að vera heima nokkuð lengi svo ekki mátti vanta prjónaverkefni. Ég fékk hana Maríu lánaða til að vera módel fyrir mig á flíkur ætlaðar 3 mánaða aldri eða svo.

Fyrsta verkefnið var þessi fallegi kjóll.

Tilda kjolebody – úr bókinni Klompelompe Sommerbarn
Stærð: 0-1 mánaða
Garn: Drops BabyAlpaca Silk – litur nr 1760

Næsta peysa var búin að vera í kollinum á mér í um 2 ár en ég hafði aldrei komið því í verk að prjóna hana og skrifa niður uppskrift. En þar sem ég var föst heima var ekkert annað í stöðunni en að koma sér að verki.

Emilía, ungbarnapeysa og -húfa
Stærðir: (0-1) 3 (6) 9 (12) mánaða
Garn: Drops Baby Merino
– litir: púður nr 44 og ametyst nr 40

Fallega María (2,5 mán) sem ég fékk lánaða sem módel

Svo kom að því að Drops birti nýjar ungbarnauppskriftir og féll ég alveg fyrir húfunni í þessari uppskrift og bara varð að prjóna eitt stykki.

Gula settið – samsuða úr Drops uppskriftum héðan DROPS BABY / 29
Stærðir: 0 mánaða til 4 ára
Garn: Drops Baby Merino
– litir: sítrónupunch nr 45 og dökkgrár nr 20

Þessi guli litur er nýr hjá þeim og ákvað ég að prjóna peysu og buxur við húfuna. Úr varð þetta sett:

Uppskriftina af peysunni fékk ég á Garnstudio en skipti út kaðlinum og setti inn falskan kaðal eins og í húfunni.


María krútt komin í settið

Baby Merino garnið er yndislegt að prjóna úr og hentar mjög vel í ungbarnafatnað. Ég held einnig mikið uppá Drops Cotton Merino.

Það er mjög vinsælt að prjóna skriðbuxur á lítil börn (e. romper). Þessi uppskrift er ekki mjög grípandi á síðunni hjá Garnstudio en uppskriftin er auðveld og skemmtilegt að prjóna þessar skriðbuxur.

Petit Lutin – romper
Stærðir: 1/3 – 6/9 – 12/18 mánaða
Garn: Drops Cotton Merino

Verð að láta þessa mynd með. María blessunin var mynduð í buxunum öfugum 🙂 Að sjálfsögðu á smekkurinn að vera framan á barninu, en falleg er flíkin.

Svo fann ég þessa uppskrift fría á netinu, tilvalið að nota afganga í þessa. Aþena ömmugull sá minna parið hjá mér og bað mig um að prjóna á litlu systur sína vettlinga líka. Fjólublátt og hvítt þykir Aþenu svo fallegt saman og valdi þá liti handa litlu systur sinni.

Miniselbu eftir Tinu Hauglund
Stærðir: 3-6 (6-9 m) 9-12 mánaða
Garn: Drops Baby Merino

Svo komu nú gleðifréttir til mín um miðjan mars – mitt 6. barnabarn er á leiðinni – mikil gleði en foreldrarnir ætla ekki að fá að vita kynið. Svo ég, amman, get nú aldeilis farið að láta mig hlakka til og prjóna eins og vindurinn á væntanlegt ♥ ömmugull ♥

Strákur eða stelpa – kemur í ljós

Prjónakveðja,
Guðrún María

Tags: , , , ,

Norskur barnakjóll – frí uppskrift

Clara dress á norska blogginu mynd1

Þegar Maía Sigrún fæddist var ég alveg ákveðin í að nú skyldi ég prjóna fallega kjólinn Clara fyrir eins árs afmælið hennar. Eftir mikið brölt á netinu fann ég loksins leið til að kaupa hann í gegnum netverslun í Bandaríkjunum. Ég varð hins vegar að kaupa garn með til að fá uppskriftina. Þegar garnið kom langaði mig ekki að prjóna kjólinn úr því svo ég ákvað að prjóna úr Drops Baby Alpaca Silk. Kjóllinn reyndist hins vega smellpassa á hana 7 mánaða gamla svo ekki varð þetta afmæliskjólinn hennar.  Þessi fallegi kjóll bíður inni í skáp hjá mér eftir nýjum eiganda og Maía fékk annan afmæliskjól fyrir fyrsta afmælisdaginn sinn 🙂

Clara dress Maía minnkud merkt

Ég fylgist með prjónasíðum á Facebook og þar sá ég stundum umræðu um hvar uppskrift af þessum fallega kjól fengist. Eitt sinn kom fram ábending á norska síðu þar sem uppskrift af honum var birt frítt. Ég hafði samband við Tone sem heldur úti blogginu misemors-hobbyrom.blogspot.no og fékk leyfi hjá henni til þess að þýða kjólinn yfir á íslensku.

aþenu kjoll saman minnkadur

Kjólarnir saman og eins og þið sjáið þá er lítill munur á uppskriftum

Þegar ég las yfir uppskriftina sá ég í raun mjög litla breytingu á uppskriftinni sem ég hafði keypt frá þessari upprunalegu. Uppskriftin er eins að öllu leiti nema úrtaka í hálsmáli er aðeins öðruvísi. Kjóllinn er gefinn upp í stærðum 6-9 mánaða og 1½ árs. Mig langaði ennþá að prjóna kjólinn á Maíu og Aþenu svo ég ákvað að stækka hann upp í stærðir 2 og 4 ára.

Ég valdi mér garnið Sera frá Filatura Di Crosa í kjólana þeirra, fallegt garn með smá glitri í sem hæfir prinsessunum mínum. Garnið keypti ég hjá Bjarkarhól en einnig er hægt að versla það á www.garn.is. Kjólinn hennar Maíu er prjónaður alveg eftir norsku uppskriftinni, á prjóna nr. 4. Ég stækkaði hann ekki að öðru leiti en því að ég síkkaði pilsið á kjólnum og passar hann fyrir 2 ára.

aþenu kjoll minnkadur

Aþenu kjóll er prjónaður eftir uppskriftinni Clara dress á prjóna nr. 4. Ég jók lykkjufjöldann hjá henni og hækkaði berustykki aðeins svo hann smellpassar á 3-4 ára.

aþenu kjoll saman1 minnkadur

Kjólarnir eru gullfallegir, stelpurnar glæsilegar í þeim og amma sátt þar sem nú hefur hún prjónað hinn margumtalaða kjól á þær. Hvort sem við köllum hann Clara dress eða norskur barnakjóll skiptir ekki máli þeir eru 97% eins 🙂

Kjólinn í stærðum 6-9 mánaða og  1½ árs prufuprjónaði Bergey vinkona mín og notaði garnið Dale Baby Ull  á prjóna nr 2,5. Já Bergey gerði prjónfestuprufu og þá kom í ljós að hún þurfti að nota minni prjona en uppskriftin segir til um.  Endilega gerið prjónfestuprufu áður en lagt er af stað í svona fallegan kjól 🙂

Linda Bergey

Dale Baby Ull klikkar ekki og er kjólinn mjög fallegur eins og sjá má á fallegu Lindu Bergey.

 

Norskur barnakjóll, uppskrift – .pdf

Prjónakveðja
– Guðrún María

Tags: , , , , , ,

Maí uppgjör

Ég prjóna á hverjum degi en það rennur mishratt af prjónunum hjá mér. Ég datt í sokkaprjón í maí enda alsæl með uppgötvun mína á 20 og 30 cm prjónum. Þvílík snilld og sokkaprjónar að verða algjör undantekning 🙂

Þetta er hann Móri minn, 2 1/2 árs gutti. Hann var ekki sáttur við það um daginn að amma prjónaði eins peysur á systur hans og frænku. Svo hann varð nú heldur betur glaður þegar hann fékk þessa fallegu apahúfu og alveg eins handa Maíu og Aþenu.

Móri merktur

Þessi húfa var lengi búin að vera á verkefnalistanum hjá mér og þar sem ég gat ekki ákveðið hver ætti að fá svona húfu prjónaði ég á þau öll þrjú gullin mín litlu.

Apahúfur merkt6

Apahúfur merkt4

Stærri húfurnar prjónaði ég úr Mayflower Easy Care frá versluninni Rósa Amma en litla húfan er prjónuð úr Dale Baby Garn frá A4. Uppskriftin heitir Monkey Hat frá Mary Ann Stephens sem ég keypti á Ravelry.

Vettlingar maí mánaðar voru auðveldir að prjóna. Ég valdi mér þessa vettlinga sem ég sá á Ravelry og má nálgast uppskriftina frítt, hún heitir Mittens with Leaves og er á ensku. Ég notaði Kambgarn og prjóna nr. 3,5

Maívettlingar merkt

 

Kjóllin Clara dress var loksins prjónaður. Ég notaði Drops Alpacka Silk, gott að prjóna úr þessu garni en ég er ekki viss ennþá hvort ég láti Maíu fá þennan kjól eða prjóni annan og stækki uppskriftina. Mig langaði að gefa henni þennan kjól fyrir 1 árs afmælið og þess smellpassar á hana núna 7 mánaða gamla. Svo hver fær kjólinn er ekki ennþá ákveðið, en fallegur er þessi kjóll.

Clara dress Maía

Sokkar

Prjónaði nokkur sokkapör og datt í sokkabók sem ég keypti mér í apríl sem heitir: Sokker. Strikking hele året eftir Bitta Mikkelborg og er hún á norsku.

Røff og tøff prjónaði ég handa Móra á prjóna nr 3 úr Dale Baby Garn. Fínir sokkar fyrir næsta vetur.

Mórasokkar merkt

 

Öklasokkarnir Søte frøken sommer urðu næst fyrir valinu. Munstrið á ristinni nýtur sín ekki nógu vel með þessu garni en þetta eru þægilegir sokkar að smella á fæturnar þegar kalt er. Garn: sokkagarn frá Lane Cervinia, prjónar nr 3

Ökklasokkar merkt

 

Leikskólasokkar á Aþenu mína eru tilbúnir fyrir veturinn en fyrri sokkana Eyrarbakki úr prjónabókinn Hlýir fætur voru prjónaðir á prjóna nr 2,5 úr Regia sokkagarni. Seinna parið Vilje eru prjónaðir á prjóna nr 3  úr sokkagarni frá Lane Cervinia. 

Aþenusokkar2 merkt

 Eyrarbakki

Aþenusokkar merkt

Vilje

 

Ætlunin er að prjóna eins sokka á Móra og Maíu en ég er bara búin með hennar sokka. Eitthvað annað greip mig svo Móra sokkar verða prjónaðir seinna í sumar. Sokkarnir heita Espen Askepott og eru prjónaðir á prjóna nr 3 úr sokkagarni frá Lane Cervinia. Ekki beint stelpulegir sokkar en prjónaðir fyrir Móra svo þau systkinin geti verið eins í vetur 🙂

Maíusokkar merkt

 

Að lokum datt í í þessa hnésokka. Ég elska þennan eiturgræna lit og veit ekkert hver fær sokkana en langaði bara að prjóna þá. Sá þetta skrautmunstur einhvers staðar og ákvað að prófa það á sokka og hafði þá einfalda að öðru leiti. En eins og stundum gerist með mig þá eru nokkur verkefni í gangi þannig að ég hef bara prjónað annan sokkinn. Hinn kemur síðar í sumar 🙂 Prjónaðir á prjóna nr 3 úr sokkagarni frá Lane Cervinia

grænu hnésokkarnir merkt

grænu hnésokkarnir nærmynd merkt

 Nærmynd af munstrinu

Læt þetta duga í bili, prjónaði eina húfu úr tvöföldu prjóni líka í maí en á eftir að mynda hana 🙂

Prjónakveðja út í sumarið til allra

– Guðrún María

Tags: , , , ,

Febrúarprjónið og frí vettlingauppskrift

Tíminn flýgur og nú búnir 2 mánuðir af þessu ári. Prjónaskapurinn í fullum gangi og verkefnin nokkur sem bíða eftir að komast ofar á listann hjá mér. Megnið af síðasta ári fór í að skrifa prjónabók sem inniheldur eingöngu uppskriftir fyrir tvöfalt prjón og svo auðvitað að prufukeyra uppskriftirnar. Ég hlakka til að sjá bókina þegar hún kemur út í haust og það er svolítið skrýtin tilfinning að sitja nú og “þrufa” ekki að prjóna eða skrifa fyrir bókina. Auðvitað tekur allt enda og nýtt tekur við svo nú sinni ég námskeiðunum fram á vor og undirbý komu prjónabókarinnar minnar 🙂

Vettlingar febrúarmánaðar urðu ugluvettlingar sem ég setti saman og prjónaði úr Drops Fabel á prjóna nr. 2,5.

Uglur_merkt

 Prjónaði þá fyrst úr hvítu og sjálfmunstrandi garni en ákvað svo að prjófa líka bláa og hvíta

Uglur2_merkt

Í tilefni af því að við mæðgur erum nú komnar með okkar heimasíðu sem við stefnum á að fylla af alls konar upplýsingum til gagns og gaman fyrir prjónafólk og heklara, er þessi uppskrift gjöf til þín lesandi góður, sem þú getur nálgast hér 🙂

Svo þurfti ég að prjóna 2 stykki aftur fyrir bókina margumtöluðu og fyrst ég þurfti að prjóna einn sokk ákvað ég að prjóna allt settið fyrir hana Maíu mína. Vettlingar, sokkar og húfa, tvöfalt prjón, Dale Baby garn á prjóna nr. 3.

húfusett maíu sameinað_merkt

Peysan Hundagongan var einnig prjónuð aftur og kom hún vel út í þessum tveimur litum. Tvöfalt prjón, Rauma Baby Panda garn á prjóna nr. 3

 Hundagongan hlið A merkt

Hundagongan hlið B merkt

Að prjóna klukku er búið að vera í einhvern tíma á listanum hjá mér. Uppskrift úr Prjónadagar 2014 eftir Kristínu Harðardóttur varð fyrir valinu og fær hún Maía mín þessa klukku. Kambarn á prjóna nr. 3,5.

 Klukka fyrir Maíu1_merkt

Læt þessa upptalningu lokið hér held að ég hafi ekki prjónað meira í febrúar, man alla vega ekki eftir því ef svo var.

Vona að þú hafir gaman af því að prjóna ugluvettlingana í þínum uppáhaldslitum 🙂

Uglur5_merkt

 Uppskriftin af ugluvettlingunum

Prjónakveðja

– Guðrún María

 

Tags: , , , , , , , , ,

Klárað í janúar

Ég setti mér óformleg markmið varðandi handavinnu fyrir árið 2014. Eftir bestu getu ætla ég að klára þau verkefni sem ég byrja á. Ég er nefninlega alltof gjörn á að byrja á nýjum verkefnum áður en ég klára þau sem ég er byrjuð á. Þessi ókláruðu safnast svo saman og klárast aldrei. Einnig ætla ég að fara eftir fleiri uppskriftum. Lífið verður svo leiðinlegt ef maður er ekki að læra neitt nýtt. Og vel skrifaðar hekl uppskriftir að skemmtilegum verkefnum kenna manni nýjar aðferðir og tækni.

Þessi færsla er því um öll verkefnin sem ég heklaði eftir uppskriftum og kláraði í janúar. Alveg óvart eru allar flíkurnar bleikar. Kem upp um hversu hrifin ég er af bleiku.

***

Mustard Bow Dress handa Þulu Björg
Uppskrift: Mon Petit Violon
Garn: Drops Merino Extra Fine, Föndra
Magn: 4 dokkur
Nál: 5 mm

Æðislegur kjóll. Hef aldrei heklað kjól áður og er mjög ánægð með útkomuna. Var þó alveg heillengi að finna út heklfestu samkvæmt uppskriftinni og var orðin frekar pirruð. Uppskriftin sagði nál nr. 3,25 en ég endaði á að nota nál nr. 5 og hefði getað farið stærra. Langar samt að gera annan kjól handa Maíu minni.

image

image

***

Þumalínur handa Heiðu
Uppskrift: María heklbók
Garn: Dale Freestyle, A4
Magn: 3 dokkur í 2 pör af vettlingum
Nál: 5,5 mm & 6 mm

Skemmtilegir vettlingar og fljótheklaðir. Vanir heklarar gætu klárað eitt par á kvöldstund. Ég kláraði par á tveim kvöldstundum með ungabarn á arminum. Uppskriftin mælir með Léttlopa en ég er ekki nógu hrifin af lopanum svo ég keypti Freestyle garnið frá Dale og það kemur æðislega vel út í þessum vettlingum. Svo er það til í svo flottum litum. Heklaði seinni parið með aðeins stærri nál og því eru þeir stærri.

image

image

***

Dragonfly Slouch Hat handa Aþenu og Stínu
Uppskrift: Tara Murray Designs
Garn: Dale Baby Ull, A4
Magn: 1 dokka í hvora húfu
Nál: 3,75 mm

Tara bloggar undir nafninu Mamachee og hannar alveg virkilega skemmtilegar flíkur. Ég er alltaf að sjá nýjar myndir frá henni og langar að hekla en aldrei látið verða af því. Þegar ég sá þessa húfu sló ég loks til og keypti uppskriftina. Ég var mjög fljót að hekla húfurnar enda uppskriftin vel skrifuð. Aþena tekur sig vel út með sína húfu sem hún fékk í afmælisgjöf.

image

image

image

Bleikar-hekl-kveðjur
Elín c”,)

Tags: , , , , , , ,

Handverkskúnst notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec
  • devicePixelRatio

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á handverkskunst.is

  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur